09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að frv. þetta væri bygt á vitlausum grundvelli. Þá eru líka lögin um lokunartíma sölubúða bygð á vitlausum grundvelli. Jeg er ekki á sama máli og hv. þm. Dala. um valdsvið bæjarstjórna. Það er rjett, að leggja bæjarstjórn í hendur þau völd, sem ákveða þetta. Það er rangt hjá hv. þm. Dala., að löggjöfin takmarki atvinnufrelsi manna. Hann sagði um konfektbúðirnar, að sala þeirra byrjaði ekki verulega fyr en eftir venjulegan lokunartíma. En nú er engu slegið föstu um það, það getur verið, að það verði ákveðið að loka þeim eigi fyr en klukkan 10 á kvöldin; jeg veit það ekki; bæjarstjórn á að ráða því. En sem sagt, hjer er engu slegið föstu. Það er rjett, að bæjarstjórnir ráði því, hvenær slíkar búðir loka, eins og bæjarstjórnir ráða lokunartíma annara búða.