09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2397)

51. mál, lokunartími sölubúða

Jón Kjartansson:

Eins og sjá má á nál., þá hefi jeg skrifað undir það með fyrirvara. Jeg get tekið í sama strenginn og hv. þm. Dala. (BJ), að mál þetta er nauðaómerkilegt og virðist ekki hafa mikið erindi á þingið. Hv. Ed. sá fyrir því í fyrra, og geri jeg ráð fyrir, að það strandi þar aftur, ef það kemst þá út úr þessari hv. deild.

Fyrirvari minn byggist á því, að jeg tel brtt. hv. þm. Dala. (BJ) á rökum bygða, og mun jeg því fylgja henni. Eins og hann hefir tekið fram, er það kvöldsalan, sem er aðalatvinna þessara sælgætisbúða, svo að ætti að banna þeim sölu eftir kl. 7, þá er það sama sem að eyðileggja atvinnu þessara manna. Svo er líka aðgætandi, að flestar brauðsölubúðir versla með sælgæti. Yrði nú ofan á, að brauðsölubúðir mættu versla til kl. 9, en konfektbúðirnar aðeins til 7, þá er þetta mikið ranglæti. Virðist því alt mæla með því, að þessar búðir njóti sömu söluskilyrðanna. En að loka brauðsölubúðum kl. 7, myndi reynast afar óþægilegt flestum, er við þær þurfa að skifta, einkum þó verkamönnum, sem oft eru að vinna fram að þeim tíma eða lengur. Þessvegna held jeg, að besta lausnin á þessu máli sje brtt. hv. þm. Dala., og mun jeg fylgja henni.