09.03.1925
Neðri deild: 29. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

51. mál, lokunartími sölubúða

Bjarni Jónsson:

Það er alveg rjett, að jeg hafði ekki athugað nál. þetta, og því síður dottið í hug, það sem jeg þykist þó geta lesið út úr því, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) ætli nú að afhenda bæjarstjórninni brauðsölubúð þá, er hann hefir haft. Hitt sjest að vísu ekki, hvort bæjarstjórn á að reka Alþýðubrauðgerðina. En þar sem þm. tekur nú upp á þessu, verður það að álítast, að hann sje orðinn þreyttur á að standa í búðinni sinni. Við því er vitanlega ekkert að segja, en rjettara mundi þó hafa verið og betra að fá nýja menn til þess að afgreiða í búðinni, heldur en að láta bæjarstjórn ráða þar nokkuru um.

Jeg er algerlega á móti því, að afhenda bæjarstjórn það vald, sem þingið hefir. Alþingi á sjálft að setja lög, þar sem því þykir ástæða til að skipa fyrir um, en ekki að fela öðrum að gera það. Við höfum fengið nóg af þessum heimildarlögum, sem eru ranglát og koma auk þess í bág við stjórnarskrána, eins og t. d. húsaleigulögin, sem þó eru illræmdust af öllum þeim lagasetningum síðari ára og hafa mestri kúgun og bölvun valdið í þessum bæ. — Jeg sje, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) brosir. — Hjer er að vísu ekki um rússneska bolsivíkabyltingu að ræða, en vita má hann það, að á mjóum þvengjum læra hundarnir að stela.

Að endingu vil jeg endurtaka þetta: Alþingi á ekki að fela mönnum eða stofnunum í landinu það vald, sem það hefir. Metnaður þess á að vera það mikill, að það kjósi í lengstu lög að fara sjálft með valdið.