18.04.1925
Efri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

51. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. minnihl. (Jónas Jónsson):

Jeg gleymdi fáeinum atriðum. Hv. frsm. meirihl. (EP) vjek að því, að málið hefði verið felt í fyrra. Það væri ekki virðulegt að ganga þannig ofan í sjálfan sig. Þetta fór alveg fram hjá mjer í fyrra, það hafa verið samtök um að fella málið umræðulaust. En svo mikið er víst, að það er óvanalegt, um svona mál, að fella við 1. umr. Venjan er sú, að lofa þeim að komast í nefnd.

En jeg vil benda hv. frsm. meirihl. (EP) á snúning í stórum stil. Kennarastarfinn í málfræði við háskólann var feldur í fyrra. Nú ljet hv. deild sjer ekki minna nægja en stofna þar nýtt embætti. Þeir, sem gátu samþykt það, ættu ekki að telja sig rígbundna við atkv. sitt í fyrra í þessu máli.

Jeg er samdóma hv. frsm. meirihl. (EP) í því, að það sje ekki helgidagsbrot að skreppa til næsta bæjar á sunnudegi og fá sig kliptan. En það er alt annað, að hafa verksmiðju opna til slíkra hluta. Og hann ætti sem prestur öðrum betur að muna þá skýlausu kröfu kirkju sinnar, að halda hvíldardaginn heilagan. En líklega býst hann við, að þessir minnihluta rakarar geti ekki, eins og þeir halda líka sjálfir fram, haft ofan af fyrir sjer með öðru móti en því, að vinna á nóttum og á helgum dögum. En sje svo, þá er það einungis af því, að þessir rakarar eru miður hæfir en hinir, sem ekki þurfa að fleyta fram lífi sínu með helgidagsbrotum. Og presturinn í þingmanninum hefir alveg gleymt kröfu kirkjunnar um helgidagahaldið, vegna vissrar tegundar af mannúð eða samúð með þessum miður hæfu mönnum. Það er m. ö. o. hin svonefnda vatnsgrautarmiskunnsemi, sem hefir gengið hv. þm. (EP) til, en slík miskunnsemi er jafnframt hið mesta ranglæti gagnvart þeim, sem betur eru til síns starfs fallnir.