07.03.1925
Efri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í C-deild Alþingistíðinda. (2413)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

það hefir fyrr verið flutt frv. hjer á hinu háa Alþingi um það, að veita Vestmannaeyjabæ einhver ítök í lóðum og lendum Vestmannaeyja, sem nú eru eign ríkisins. En þá var mál þetta flutt í því formi, að umrædd lönd yrðu sameign ríkis og bæjar, með ákveðnum skilyrðum. En þar sem skorta þótti á undirbúning málsins, var því vísað til stjórnarinnar, og síðan hefir það verið látið liggja milli hluta. En Vestmanneyingar finna mjög til þess, að þetta unga bæjarfjelag skuli hvergi eiga ítök í lóðum eða lendum kaupstaðarins. Hinsvegar er bærinn í hraðri framför, og útheimtist árlega stór fjárframlög til vega og bryggjugerða, sem útlit er til að aukist á næstu árum fremur en hitt. En eins og kunnugt er, er Vestmannaeyjakaupstaður eini kaupstaðurinn á landinu, sem ekki á neitt land. Það er alt ríkiseign og hefir verið leigt út til einstakra manna með gömlum skilmálum, þannig, að ríkissjóður ber næsta lítið úr býtum. Og þar sem stærstu lóðirnar eru erfðafestulóðir eða í lífstíðarábúð, þá er ekki fyrirsjáanlegt, að ríkið í náinni framtíð geti gert sjer meiri peninga úr þeim en verið hefir undanfarið. Sú upphæð, sem ríkið hefir í tekjur í jarða- og lóðagjöldum þaðan, er, eins og bent er til í greinarg. með frv., svo hverfandi lítil, að ríkinu ætti varla að vera kappsmál að halda landinu fyrir bænum.

Við þær verklegu framkvæmdir, sem bærinn hefir gert á liðnum árum, er óhjákvæmilegt, að lóðirnar hækki í verði — það gera þær altaf, þar sem kostað er miklu til þeirra og fólk vill byggja, og altaf sjer fólk einhver ráð til þess að krækja sjer í lóðir og rjettindi. — Jeg kannast við, að ekki eru öll slík lóðaafsöl í samræmi við byggingarbrjefin, en ríkið hefir líka skert rjett ábúenda sinna, án þess að þeim hafi komið bætur frá því í staðinn. En bæjarsjóður situr sjálfur eftir með sárt ennið og ber ekkert úr býtum fyrir þann kostnað, sem hann leggur í það, að hækka verðið á lóðunum. Jeg held, að allir sjái, að þetta er hvorki heilbrigt nje rjettlátt fyrirkomulag og hlýtur að standa bænum mjög fyrir þrifum. Því er hjer farið fram á það, að ríkið selji Vestmannaeyjabæ ákveðinn hluta af þessum lóðum.

Það er óhætt að segja, að það er ekki ástæða til að hugsa sjer, að bær rísi upp nokkurntíma á öðrum stað í Vestmannaeyjum en þar, sem kaupstaðurinn er. Staðhættir eru þannig, að bærinn verður þar að vera, sem hann er, hann breiðist aðeins lengra út og stækkar. En um skilmála þá, sem stungið hefir verið upp á, þá skal jeg taka það fram, að það er bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar, sem samið hefir þetta frv., og lagt fyrir mig að flytja það á þessu þingi; þeir skilmálar koma því á okkar ábyrgð. Ef Alþingi vildi taka þetta frv. til athugunar, þá vona jeg, að það muni sjá, að þetta er sanngjörn krafa fyrir bæjarfjelag, sem er í hraðri framför, og vona jeg, að litið verði á málið með velvild. — Jeg skal að lokum leyfa mjer að mælast til, að frv. verði vísað til fjhn.