07.03.1925
Efri deild: 25. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í C-deild Alþingistíðinda. (2416)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg get þakkað hæstv. atvrh. (MG) fyrir góðar undirtektir í þessu máli, sem sýnir það, að hann skilur fyllilega, hvernig ástandið er, og að hjer er um að ræða breytingu til verulegra hagsbóta fyrir bæjarsjóð, og jeg vil segja til næsta lítils skaða fyrir ríkissjóð.

Hv. 5. landsk. (JJ) hafði nokkuð að athuga í þessu máli, en sem mjer virtist vera sjeð frá sjónarmiði þeirra manna, sem eru „principielt“ á móti sölu þjóðjarða, og tók hann dæmi af sölunni á Hrafnagili í Eyjafirði. En þetta dæmi er ekki sambærilegt hjer, því að þótt þessi einstaka landssjóðsjörð hafi verið seld manni, sem svo græddi á henni, þá er það öðru máli að gegna en að ríkissjóður selji bæ land, sem hann er bygður á og honum er lífsnauðsyn að hafa eignarumráð yfir. Það er líka tekið fram í 3. gr. frv., að land það, sem bærinn eignast, megi aldrei selja einstökum mönnum til eignar. Þar með verður komið í veg fyrir „spekulationir“ með lóðirnar, og vona jeg, að hv. þm. (JJ) sje mjer samdóma um það, að það væri ólíkt hægra fyrir Vestmannaeyjabæ að hafa eftirlit með því, að þessar „spekulationir“ eigi sjer ekki stað, heldur en fyrir stjórnarráðið. Jeg hygg, að í framkvæmdinni myndi það verða lítið, sem ríkissjóður eða stjórnin gæti fylgst með þessu, en bæjarstjórn Vestmannaeyja mjög mikið.

Þegar gengið er út frá því, að bærinn má ekki undir neinum kringumstæðum selja landið aftur, þá sýnist ekki vera ástæða til að ætla, að lóðirnar kæmust í svipað verð eins og í dæmum þeim, sem hv. þm. (JJ) mintist á. Viðvíkjandi Reykjavík má benda á það, að hjer ganga lóðir kaupum og sölum, en það er alls ekki ætlast til þess, að Vestmannaeyjabær geti selt neinar lóðir þar öðruvísi en á leigu.

Jeg er þakklátur hv. þm. (JJ) fyrir það, að hann sagði, að það væri í sjálfu sjer ekki rjett að meina þessum kaupstað að eignast landið frekar en öðrum. (JJ: Jeg sagði ábúendum jarða.) Já, það getur verið, að það sje nokkuð annað með ábúendur jarða. Jæja, bæjarbúar í Vestmannaeyjum eru landsetar ríkisins. Hjer er að ræða um bæjarfjelag, sem verður að kosta miklu fje árlega til að gera bæinn byggilegan. Ef nú Alþingi, sem að sjálfsögðu hefir að einhverju leyti hagsmuni bæjarfjelagsins fyrir augum, vill athuga þetta, þá sýnist mjer óhjákvæmilegt, að aðstaða bæjarfjelagsins sje gerð þannig, að það njóti ágóðans af því, sem það kostar fje til, en í þessu tilfelli hefir bærinn enga möguleika til að njóta þess sjálfur, sem hann kostar til að gera Eyjarnar byggilegar, og að því leyti sem hv. þm. (JJ) lagði þá spurningu fyrir mig, hvort jeg ekki hjeldi, að það væri besta ráðið til að koma í veg fyrir óeðlilega verðhækkun, að ríkið hjeldi áfram að eiga lóðirnar, þá er því að svara, að jeg býst ekki við, að afskifti ríkisins kæmi fyr en eftir dúk og disk, og því ver trygt, að ríkið haldi áfram með að halda í umráðin yfir þessu landi, eignarumráð, sem í sjálfu sjer eru mjög lítils virði fyrir ríkið, en að sama skapi mikils virði fyrir Vestmannaeyjabæ.

Vestmannaeyjar hafa átt við fjárhagsörðugleika að stríða, og það er nauðsyn mikil fyrir bæjarfjelagið að komast sem fyrst úr þeim, til þess að atvinnuvegirnir geti gengið eins og vera ber, og jeg held, að það sje ekki ofmælt að segja það, að ríkinu væri meiri styrkur að Vestmannaeyjabæ sæmilega fjárhagslega sjálfstæðum, jafnvel þótt bærinn eigi landið með þeim skilyrðum, sem tekin eru fram í 3. gr. frv., heldur en þótt ríkið eigi landið, ef bærinn er altaf í miklum fjárhagsvandræðum og ef hann er altaf upp á ríkið kominn. Þetta bið jeg þá hv. þdm. að íhuga, sem eru á móti þjóðjarðasölu, og sem þessvegna finst skylt að mæla á móti frv. mínu.

Eins og bent er á í greinargerð frv., hefði það verið bæði sjálfsagt og eðlilegt, að svona skipun hefði komist á um leið og Eyjarnar fengu kaupstaðarrjettindi, því að um leið og þær fengu kaupstaðarrjettindin, varð þeim skylt að bera ýmsar byrðar og taka á sig kvaðir, sem fylgja bæjarrjettindunum. Með þeirri skipun misti kaupstaðurinn ýmisleg hlunnindi, sem hann áður hafði, og hefir það aukið honum útgjöld síðan. Þetta, með öðru, mælir með því, að ríkið láti af hendi við Vestmannaeyjabæ það land, sem bærinn þarf nauðsynlega að nota.