08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1033 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

1. mál, fjárlög 1926

Ágúst Flygenring:

Það eru tvær litlar brtt., sem jeg vildi minnast á. Önnur er við 14. gr., um styrk til þess að gera landslagsuppdrátt af Íslandi. Jeg var beðinn fyrir þessa till., en hafði gleymt henni þar til jeg sá, að hv. Ed. hafði tekið hana upp. Kennarar hafa sagt mjer, að enginn slíkur uppdráttur væri til, sem notandi sje við landfræðiskenslu Íslands, en landfræðiskenslan kæmi ekki að hálfum notum án hans. Það er skiljanlegt, að erfitt sje að kenna þennan þátt ísl. landafræði, þegar ekkert kort er til þess að fara eftir, nema ef til vill einhver gamall snepill, sem lítið er að marka. Kennarar telja líka svo nauðsynlegt að fá þennan uppdrátt, að komið hefir til orða, að kennarafjelagið kostaði sjálft útgáfuna, fremur en að vera án hans. Það er líka stór minkun að eiga engan uppdrátt af þessu tægi, þegar ekki er um meiri kostnað að ræða en hjer er farið fram á, og tel jeg því sjálfsagt, að þessi litla upphæð sje veitt í þessu skyni.

Þá vil jeg mæla með till. um ferðastyrk til tveggja kennara til þess að sækja kennaraþing í Finnlandi. Af fullveldi okkar leiðir að sjálfsögðu það, að við verðum eftir föngum að taka þátt í sameiginlegum stjettasamkomum Norðurlanda, sem haldnar eru til andlegrar og líkamlegrar uppbyggingar. Hjer býðst okkur gott og ódýrt tækifæri, og fyrir skólamálin er það ekki síst nauðsynlegt, að þeir, sem þau hafa með höndum, eigi kost á að kynnast þeim sem best með öðrum þjóðum, og einmitt á þennan hátt lærist margt, sem ekki verður af bókum numið: að eiga viðræður við framúrskarandi menn og hlusta á þeirra fyrirlestra, það hlýtur að vera mikils virði. Eins og jeg gat um áðan, mun vera hjer eitthvert samkomulag um að takmarka ræðuhöldin í dag, og skal jeg því ekki eyða um þetta fleiri orðum.