07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Sigurður Jónsson:

Það er ekki margt, sem jeg ætla að segja, enda hafði jeg ætlað að sitja hjá þessum umr. og sýna með atkv. mínu afstöðu mína til þessa máls.

En það, sem olli því, að jeg kvaddi mjer hljóðs, voru orð þau, sem fjellu hjá hv. frsm. minnihl. (JJós) um fasteignamatið síðasta. Hann sagði, að lóðir í Vestmannaeyjum væru hærra metnar en á Siglufirði.

Jeg ætti nú að vera manna kunnugastur þessu atriði, hjer í hv. deild, þar sem jeg var einn þeirra 5 manna, er sæti áttu í yfirfasteignanefndinni.

Við möttum lóðir kaupstaðanna hvers út af fyrir sig. Jeg veit, að lóðir Vestmannaeyja eru hærra metnar en á Seyðisfirði og í Hafnarfirði, en mun lægra en á Siglufirði, því að þar eru þær hærra metnar. Þetta ætti jeg að vita betur heldur en hv. frsm. minnihl. (JJós), þrátt fyrir umsögn þessara fróðu og kunnugu manna, er hann var að vitna til.

Jeg held, að við höfum ekki rótað neitt við virðingu lóða í Vestmannaeyjum og á Siglufirði, enda var okkur ljóst, að þetta voru ungir bæir, sem voru að vaxa og stækka, og því eðlilegt, að lóðir þar væru hærra metnar heldur en í gömlum kaupstöðum, sem standa í stað, eins og t. d. Seyðisfjörður.

Hv. frsm. minnihl. (JJós) hefir oft vikið að því, að það væru lítil útlát fyrir ríkissjóð að verða við þessum óskum Vestmanneyinga, og má vel vera, að svo sje, enda þykir mjer ekki ólíklegt, að svo verði einhverntíma.

En eigi að selja þessar lóðir, þá verður að gæta hagsmuna ríkissjóðs, að hann ekki tapi. Sú upphæð, sem nefnd hefir verið, nær engri átt. Hún er mikils til of lág.

Annars er jeg á móti því, að ríkið selji fasteignir sínar, og get því ekki ljeð þessu máli fylgi mitt. Jeg hefi frá því fyrsta að jeg fór að skifta mjer af þjóðmálum verið mótfallinn þjóðjarðasölu, og geri ekki ráð fyrir því, að öðlast aðra skoðun á því máli úr þessu.