07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (2427)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Forsætisráðherra (JM):

Það er aðeins sem kunnugur maður, að jeg vildi segja fáein orð.

Jeg hygg eflaust, að það sje best, að kaupstaðirnir eigi sjálfir það land, er þeir standa á og þurfa að nota. Og þegar þess hefir verið leitað á Alþingi, að kaupstaðir fái nauðsynlegt land, þá hefir því yfirleitt verið vel tekið. Svo var til dæmis um Hafnarfjörð og Ísafjörð. Þeim var selt land með svipuðum hætti og nú er farið fram á fyrir Vestm.eyjar. En þegar um Siglufjörð var að ræða, þá vildu menn ekki selja, af ótta við, að landið lenti í höndum útlendinga.

Hjer er nú engin hætta á því. Af því leiðir, að þetta mál verður aðallega fjárhagsmál, og jeg held, að eina leiðin sje að selja eftir mati. Jeg hræðist það ekki, að selt verði ríkissjóði til tjóns; það verður hagur fyrir báða aðilja.

Það hefir verið sagt, að leigan færi hækkandi. Það kann að vera, en langt verður þangað til að leigan af sumum lóðum, og það þeim, er einna eru dýrastar í sjálfum sjer og stærstar, hækki að mun.

Jeg er því fylgjandi máli þessu.

Mikið af þjóðeignum hefir verið selt einstökum mönnum. Jeg hefi að vísu verið mótfallinn því, að þjóðjarðir væri seldar einstökum mönnum. En hjer gildir ekki sama mótbára. Hv. meirihl. fjhn. er kanske ekki beint á móti því, að bæir fái eignarumráð yfir landi sínu, það er eftir sem áður opinber eign.