07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Það vill vel til, að hæstv. atvrh., biður um orðið, því að jeg vildi einmitt segja fáein orð, sem aðallega eru spurning til hans.

Blettur sá, sem farið er fram á að fá keyptan, er aðalkjarni Vestmannaeyja, og jeg sje enga ástæðu fyrir landið til þess, að eiga útskæklana, þegar aðaleignin er seld. Á fundi, sem haldinn var um þetta mál, ljet hæstv. atvrh. (MG) í ljós, að hann væri fús á að selja alla eignina fyrir 50 þús. kr. hærra verð en hv. þm. Vestm. hafði farið fram á, þ. e. fyrir 1/4 milj. kr. Síðan hefir komið fram, að þessi verðlagning hæstv. atvrh. getur ekki hafa verið vandlega hugsuð, og af því jeg býst við, að það þyki furðu sæta, að slíkt umtal um söluverð komi frá hæstv. stjórn, þá gef jeg hæstv. atvrh. tækifæri til að skýra þetta nánar. Það hefir ljóslega komið fram við umræðurnar, að þessi staður er miklu meira en 250 þús. króna virði. Má vel kalla hann hjartað í skákinni, því eftir stærð mun hann vera einhver dýrasti blettur á Íslandi. Það hlýtur að vekja undrun, ef hæstv. stjórn talar um verð eins og þetta, án nokkurrar rannsóknar. En svo lítur út sem hæstv. atvrh. vilji fyrir sitt leyti láta Eyjarnar af hendi fyrir þetta verð, 250 þús. kr. Þegar nefndin athugaði þá einu opinberu heimild um sölugildið, sem fyrir liggur um þetta efni, þá kom í ljós, að eftir fasteignamatinu hafa Eyjamar verið metnar nær því þrefalt á við þá upphæð, sem hæstv. atvrh. gerir sig ánægðan með. En það mat er alstaðar á landinu neðan við venjulegt söluverð, og munar það svo miklu, að þegar það er 560 þús. kr., er óhætt að álykta, að 1 miljón eða meira sje gott kaupverð. Því hefir raunar verið haldið fram, í viðtali við mig, að fasteignamat í Vestmannaeyjum væri hærra en annarsstaðar á landinu, en jeg geri ráð fyrir, að það hafi verið framkvæmt af kunnug um mönnum og eftir bestu samvisku. Það er kunnugt, að fasteignamatið er yfirleitt íhaldssamt, af því að eigendur vildu, að metið væri lágt. Þegar mat er gert, sem búist er við, að lagt verði til grundvallar við skattaálagningu, þá beinist öll hugarstefnan að því, að fá það ákveðið sem lægst. Hversu verðið er yfirleitt hátt í Vestmannaeyjum, sjest af einstökum dæmum um menn, sem hafa fengið framleigu hjá öðrum, er höfðu eldri samninga. Jeg hefi t. d. heyrt, að greidd hafi verið nokkur þúsund fyrir lóð, sem bærinn lagði veg yfir. Ef lóðirnar væru í einstakra manna eigu, þá yrði verðið líkt og hjer í miðbænum. Það stendur líkt á þar og á Siglufirði eins og hjer. Á þessum lóðum er rekin arðsöm atvinna, sem skapar hátt verð. Jeg held, að hæstv. atvrh. megi vera mjer þakklátur fyrir, að jeg hefi gefið honum tækifæri til að skýra frá, hversvegna hann telur sig fúsan að selja þessar lóðir svona ódýrt. Við nefndarmenn urðum að afla okkur betri upplýsinga. Við höfðum fasteignamatið, tilboð hv. þm. Vestm. (JJós) og undirtektir hæstv. atvrh. (MG). Auk þess fengum við að vita, að lóðagjöldin hefðu fimmfaldast síðustu árin. Að vísu hefir hv. þm. Vestm. sagt, að þar væri um að ræða neyðarkjör, og ekki mætti reikna út frá því. En kvartanir hafa engar heyrst, og leigan er ekki hærri en það, að við hjer í Reykjavík mundum telja okkur sæla, að þurfa ekki að borga meira fyrir lóðir hjer.

Það er rjettast að láta öll plögg koma fyrir þingið. Þeir, sem lesið hafa umræður úr Nd., þegar þar var til meðferðar sala lóða á Siglufirði, vita, að þar voru viðhöfð sterk orð, og eftir þeim viðtökum, sem það mál fjekk, eru engar líkur til, að þetta nái þar samþykki, nema ákaflega skýr gögn sjeu fyrir hendi.

Jeg vil nota tækifærið og skýra fyrir hæstv. atvrh. (MG), hvað fyrir okkur nefndarmönnum vakir, þegar við biðjum um upplýsingar. Við óskum eftir að fá glöggar skýrslur um einstaka leigusamninga, hvað háir þeir eru, hvað landið er stórt, hvað leigusamningurinn er til langs tíma, hve gamall leigutaki er, ef um lífstíðarrjett er að ræða o. s. frv.

Það er síður en svo, að ástæða sje til þess fyrir Vestmanneyinga að vera óánægða. Landið hefir búið svo vel að þeim sem best má verða. Mjer er kunnugt um 2 lóðir þar, er önnur þeirra leigð á 40 kr. á ári, en hin 150. Við sölu mundu þessar lóðir fara fyrir tugi þúsunda. Er ekki ástæða fyrir menn með slík vildarkjör, að vera þakklátir landinu, sem svo vel hefir búið að þeim? Þó að Vestmanneyingar vilji ekki viðurkenna þetta, þá er samt sannleikurinn sá, að landið hefir verið gott við þá, en þeir ekki við landið. Þeir hafa í raun og veru ekki siðferðilegan rjett til framleigu. Landið átti að fá framkomna verðhækkun, sem farið hefir til fárra manna þar í Eyjunum. Jeg vil ekki grípa fram fyrir hendurnar á rannsókn á þessu máli, svo jeg skal ekki fara mikið út í það, hvernig hægt er að sameina þetta tvent, að hlúa að Vestmannaeyjum, en tryggja þó um leið, að sanngjörn verðhækkun og gróði af framleigu renni til landsins. Jeg geri ráð fyrir, að enginn vilji misbeita aðstöðu sinni svo, að landið verði svift þessari eign fyrir lítið. Þegar verið var að koma á höfninni í Vestmannaeyjum, þótti sjálfsögð skylda landsins að leggja fje í sína eigin eign, en þegar búið er að gera þetta, þykir rjett að gefa þessa eign, til þess að hægt sje að standa straum af höfninni, án styrks frá landinu. Þetta kemur dálítið einkennilega fyrir.

Jeg þarf svo ekki að segja meira, nema ef hæstv. atvrh. (MG) gefur mjer ástæðu til þess.