07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2434)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg held því fast fram, að verði Eyjarnar seldar, þá beri að selja þær allar, en ekki parta úr þeim.

Hv. 5. landsk. (JJ) kveður mig hafa ávítað hv. nefnd fyrir að hafa kastað málinu frá sjer of snemma. Þetta er ekki rjett, enda lá það ekki í mínum verkahring að ávíta nefndina fyrir slíkt. Hitt skil jeg ekki, hversvegna hv. nefnd kom ekki fram með ákveðnar tillögur um það, hvort selja ætti eða ekki, því jeg veit nú, að ekki liggur annað til grundvallar þessu írafári hv. 5. landsk. (JJ) en það, að hann vill alls ekki selja. Hefði það verið vilji hv. meirihl. að selja, þá átti hann auðvitað að láta það koma fram í nál. eða till. sínum, en láta síðan málið bíða lausnar á verðspurningunni. Þetta hefði verið hrein aðstaða, en einmitt þessvegna mun hv. 5. landsk. (JJ) ekki hafa fallið hún í geð.

Hv. 5. landsk. (JJ) varð skrafdrjúgt um ólagið í stjórnarráðinu og eftirlitsleysið með umboðsmönnum þjóðjarða, og bjó hann í því sambandi talsvert meira til en jeg eða nokkur annar hefir gefið honum ástæðu til. Þjónaði hann þar hinni alkunnu fýsn sinni, að mannskemma og níða, eftir bestu getu. Annars veit hann það víst, að leigusamningar þeir, sem hjer er um að ræða, eru gerðir til margra áratuga, og þeim verður þá ekki breytt. (JJ: Þeir kváðu sumir vera ólöglegir.) Það er mjer ókunnugt um, og hv. 5. landsk. (JJ) mun ekkert um þetta vita. Ef til vill eru sumir þeirra ekki staðfestir af stjórnarráðinu, en þeim, sem það eru, og svo mun vera um flesta þeirra, verður ekki rift. Annars ætti það ekki að vera torskilið mál, hve lítil sanngirni er að krefjast þess af mönnum í stjórnarráðinu, að vita í hvert skifti, hversu lóðir eru dýrmætar úti í Vestmannaeyjum. í þessu efni verður að treysta á bæjarfógetann, sem er umboðsmaður Eyjanna. Aðalákúrurnar hljóta því að falla á hann. Ennfremur er það að segja, að hjer er ekki um það að ræða, hvernig stjórn þessara mála eða annara hafi verið varið á liðnum tíma, heldur hitt, hvernig nú er í pottinn búið, og verður svo að útkljá málið eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja.

Það er eftirtektarvert um þennan hv. þm. (JJ), að þegar hann þykist þurfa að brigsla einhverjum um eitthvað, sem hann telur svo ósvífið, að það sje jafnvel sjer ósamboðið, þá segir hann ætið, að einhver eða einhverjir hafi sagt sjer það; Þessi aðferð hans er gamalkunn, það er aðferðin hennar Gróu gömlu á Leiti, og langsennilegast er, að hv. 5. landsk. (JJ) sje afkomandi hennar.

Svo var það nú um þennan Skagfirðing, sem hann var að vitna í. Hann brast hugrekki til að segja þau orð svo sem þau kæmu frá eigin brjósti. — Annars voru vitni við í hv. nefnd, þegar jeg átti tal við hana, og hefi jeg ekki heyrt þeirra úrskurð um það, sem þar fór fram. Hinsvegar þykist jeg mega fullyrða, að hv. 5. landsk. (JJ) veit sjálfur, að það er ósatt mál, að jeg hafi komið með nokkur tilboð viðvíkjandi sölu á Eyjum. Hv. nefnd bað um álit mitt á málinu; jeg ljet það uppi, og það var alt og sumt. En af framferði hv. 5. landsk. (JJ) nú sje jeg það, að hann fer jafnrangt með, hvort sem vitni eru við eða ekki. Jeg man, að í nefndinni varð aðeins lauslegt umtal og ekkert annað. Og það er alveg óvanalegt, að draga fram í umræðum það, sem gerist í nefndum, því að ilt er að sanna, hvað þar hefir gerst. (JJ: Það eru tveir íhaldsmenn hjer, sem þar voru staddir; vilja þeir mótmæla?) Það veit jeg ekki; þeir ráða því sjálfir.

Hv. þm. (JJ) sagði, að miljónarfjórðungur væri tæpur 1/3 af fasteignamati Eyjanna. Hjer stendur á þskj. frá þessum hv. þm., að fasteignamatið sje 630 þús. 250 þús. er því miklu meira en 1/3.

Það verður hv. 5. landsk. (JJ) lítt að vopni, að gera mjer upp hinar illu hvatir, sem hann nefndi í sambandi við þetta mál, svo sem að jeg hafi ætlað að gefa þessa upphæð hv. þm. Vestm. (JJós). Hv. þm. gerir mjer upp sitt eigið hugarfar og ekkert annað. En það skal hv. þm. varast, því að jeg hugsa alt öðruvísi en hann. Þetta finst honum liggja næst sjer, en það liggur mjög fjarri mjer.

Hv. þm. (JJ) er altaf að reikna út, hvað Eyjarnar geti hækkað í verði í framtíðinni. Þessu neita jeg alls ekki. En eftir sama hugsanagangi gæti maður aldrei selt neina eign, sem líkur væru til að hækkaði í verði. Minn útreikningur var miðaður við það, að ef selt væri fyrir 50 þús. hærra en eignin rentar sig, þá mundi sú upphæð verða að 60 árum liðnum 800 þús. Þá upphæð set jeg á móti verðhækkuninni, og finst þetta töluverður skildingur. Hinsvegar ræddi jeg alls ekki um, eins og hv. 2. þm. S.-M. (IP) gaf í skyn, að leggja alt söluverðið á vöxtu. Allir útreikningar hans voru því út í loftið. Hv. þm. verður að athuga það, að langflestir af þessum samningum um lóðir í Eyjum eru 5–8 ára gamlir, og þessvegna líður svo geysilangur tími, 70–80 ár, þangað til hægt er að hækka leiguna. En á meðan mundu þessar 50 þús. ávaxtast um þann tíma, er samningar standa. Geri jeg það að meðaltali 60 ár. Hv. 5. landsk. (JJ) fanst um að gera að fyrirbyggja, að nokkur maður hefði hagnað af því landi, sem hann kaupir, og er með hrókaræður um það, að seljendur eigi ætíð að fá uppborinn þann hagnað af eigninni, sem framtíðin gæti borið í skauti sínu. En til hvers er þetta tal, sem hvergi kemur nærri veruleikanum? Það verður að byggja á því, sem er, að lóðirnar eru leigðar til svo langs tíma sem jeg hefi sagt. Alt annað er tilgangslaus vaðall. Að jarðir losni úr ábúð árlega, er ekki rjett; þær eru svo fáar. En eins og viðast annarsstaðar munar ekki mjög mikið um leiguna eftir þær, hún er ekki sett svo hátt. Hv. þm. (JJ) er að hafa það eftir hv. þm. Vestm. (JJós), að það megi þrefalda leiguna. Jeg heyrði ekki orð hv. þm. Vestm., en jeg er fullviss um, að slíka endileysu hefir hann aldrei sagt. Því auðvitað er ómögulegt að hækka leiguna þvert ofan í gildandi samninga. Hv. 5. landsk. (JJ) kallaði það ósvífni að bera þetta frv. fram. Jeg tel mjer ekki skylt að svara þessu, það mun skrifast á reikning hv. þm. Vestm. (JJós), og býst jeg við, að hann kvitti fyrir eins og við á. Annars er það aðalatriðið fyrir mjer, eins og jeg tók fram við 1. umr., að jeg lít svo á, að það sje tiltölulega miklu meira virði fyrir Vestmannaeyjabæ að eiga þessa eign heldur en fyrir ríkissjóðinn. En gagn Vestmannaeyja er líka að ýmsu leyti gagn ríkissjóðs. Það er líka enginn efi á því, að þegar bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum stjórnar þessari eign, verður henni miklu betur stjórnað. Undirstaðan og mergur þess, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, var það, að söluverðið yrði ekki bygt á fasteignamatinu af ástæðum, sem jeg tilgreindi. Hv. 5. landsk. (JJ) reyndi ekki að vefengja þetta, heldur ræddi um ýms óviðkomandi atriði á víð og dreif, eins og hans er siður. Og útreikningum mínum svarar hann með því einu, að jeg sje vanur að spara eyririnn en kasta krónunni. Hvílík fyrirmyndarrök (!!!).