07.04.1925
Efri deild: 49. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í C-deild Alþingistíðinda. (2435)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Frsm. minnihl. (Jóhann Jósefsson):

Umræður fara að verða nokkuð langar, en jeg kemst ekki hjá því að koma við ýmisegt það, sem sagt hefir verið um málið.

Þeir hafa allir, þessir hv. þm., sem mynda meirihl. nefndarinnar, staðið upp hver eftir annan og lagst mjög á móti. Hv. 1. landsk. (SE) var heldur kampagleiður yfir því, sem jeg hefi sagt um margföldun þá á húsalóðaleigunni, sem stjórnarráðið hefir ákveðið. Jeg sagði, að það hefði verið í hæsta máta ósanngjarnt af stjórnarráðinu, að hlaupa í það að fimmfalda leiguna á lóðum undir nýjum húsum aðeins, og það hæsta, sem maður gæti talið sanngjarnt, væri, að leigan eftir þær lóðir hefði verið þrefölduð.

Hv. 5. landsk. (JJ) hefir borið það allmikið upp á hæstv. atvrh. (MG), að hann hafi verið að bjóða Eyjarnar til kaups í nefndinni. Þetta er alls ekki rjett, en hæstv. atvrh. fór þeim orðum um málið, að hann væri því ekki mótfallinn, að Eyjarnar væru seldar. Einnig mintist hann eitthvað á það, að verðið, sem tiltekið er í frv., þætti sjer heldur lágt. Jeg minnist þess ekki, að ráðherrann (MG) hjeldi fram neinu ákveðnu kaupverði. (JJ: Minnið er farið að slappast!) Nei, en jeg fullyrði ekki meira en það, sem jeg veit með vissu, og er að því leyti ólíkur hv. 5. landsk.

Hv. 5. landsk. (JJ) taldi það ósvífni, að koma með frv. þetta inn í þingið — held jeg, að jeg hafi heyrt rjett. Þá ósvífni tileinkar hv. þm. þá auðvitað mjer og bæjarstjórn Vestmannaeyja. Jeg sje ekki, að hægt sje með rjettu að ásaka bæjarstjórnina, þó að hún fari fram á kaup á kaupstaðarlóðinni á þeim grundvelli, sem upphaflega var nefndur. Hæstv. ráðh. (MG) leiðrjetti það, sem jeg annars hefði þurft, sem sje útreikning hv. 5. landsk., þar sem hann komst að þeirri niðurstöðu, að 250 kr. væri ekki nema tæpur 1/3 af fasteignamatsverðinu. Auðvitað er það miklu meira.

Í fyrri ræðu sinni kom hv. 5. landsk. (JJ) með ýms loðin mótmæli og mjög villandi ummæli að mörgu leyti, sem vitaskuld stafar af því, að hann er svo sáraókunnugur í Vestmannaeyjum. Og heimildarmenn hans þar eru annaðhvort ekki ábyggilegir, eða hv. þm. hefir tekið frámunalega vitlaust eftir því, sem þeir hafa sagt honum, og er það sanni nær. Samanburður hv. þm. (JJ) á leigu í Vestmannaeyjum og í miðbænum í Reykjavík er svo fáranlegur, að engri átt nær.

Þá fór þessi hv. þm. mörgum orðum um það, að landið hefði farið svo vel með Vestmanneyinga undanfarin ár sem mest mætti vera. Jeg ætla ekki að fara að vanþakka neitt það, sem Vestmannaeyingum hefir verið vel gert, og hefi heldur ekki gert það. En á hinn bóginn er ekki hægt að segja, að landið hafi gert mikið fyrir þann kaupstað. Og jeg vil segja, að þeir menn, sem líta svo feykilega stórum augum á verðmæti Eyjanna og gera sjer glæsilegar vonir um, hvað þær geti orðið dýrar í framtíðinni, þeir ættu að eiga frumkvæðið að því, að landið skifti sjer meira af þessari þjóðareign en verið hefir. Það hefir verið lagt nokkurt fje til hafnarinnar; og jeg verð að segja, að það fje hefir landið fengið margendurgoldið, á þann hátt, sem jeg benti á við 1. umr. og í nál. minnihl., í afrakstri af atvinnulífi Eyjabúa. Að undanskildri höfninni hafa Eyjabúar orðið að gera sín mannvirki upp á eigin spýtur, leggja vegi, byggja bryggjur o. s. frv. Þeir verða sjálfir að standa straum af öllum opinberum framkvæmdum, nema þegar landið tók á sig af kostnaði við hafnargarða og ábyrgð fyrir láni til hafnargerðarinnar. Sjúkrahúsið, sem landið leigir af Frökkum, fær engan styrk, þótt víðsvegar annarsstaðar fái þau styrk. Svona mætti lengi telja. Hvað það snertir, að landið hafi hvað jarðaafgjöld og lóðaleigur snertir farið sjerstaklega vel með landseta sína þarna, á móts við aðra, má minna á það, að um 1874 var skipuð nefnd til þess að gera álitsskjal um skattamál landsins. Meðal annars má þar finna samanburð á því, hvað borgað sje í jarðarafgjöld víðsvegar á landinu; kemur þar í ljós, að jarðarafgjöld í Vestmannaeyjum eru langhæst, þá eru þau þar kr. 7.48 af hundraði, en alstaðar annarsstaðar lægri, sumstaðar ekki nema 2 kr.

Þá eru verslunarlóðirnar. Það er sagt, að í Vestmannaeyjum sjeu þær leigðar fyrir lítið verð. Hið sama hefir átt sjer stað annarsstaðar á landinu, þar sem um gamlar og stórar verslunarlóðir er að ræða. Í álitsskjali þessu er gerð grein fyrir því, að grunnleiga Reykjarfjarðarverslunar sje 28 kr., Borðeyrarverslunar 54 kr., Skagastrandarverslunar 32 kr. og Raufarhafnarverslunar 24 kr. Þessi margumtalaða leiga á hinni gömlu Brydesverslunarlóð í Vestmannaeyjum, sem þykir svo lág, og er það reyndar, er 40 kr.

Þótt jeg hafi ekki komið á þessa staði, sem jeg mintist á, þá ímynda jeg mjer, að stærðin sje ekki ósambærileg við gömlu verslunarlóðirnar í Vestmannaeyjum. En þau dæmi, er jeg tilfærði, sýna það, að leigur af Vestmannaeyjajörðum og lóðum hafa á engan hátt verið lægri en annarsstaðar á landinu, heldur hærri, og því ekki um það að tala, að Vestmanneyingar hafi sætt neinum vildarkjörum í þessu efni, samanborið við aðra landsmenn.

Eitt var það sjerstaklega í ræðu hv. 5. landsk. (JJ), sem var svo villandi, að óhjákvæmilegt er að leiðrjetta það strax. það var ekki hægt að skilja hv. þm. öðruvísi en svo, að hann ætti við, að menn fengi verslunarlóðirnar fyrir litla leigu og hefðu leigt þær út aftur fyrir miklu hærra verð. Þetta á sjer alls ekki stað. Hv. þm. var að tala um þessar dýrmætu verslunarlóðir við höfnina. Það er algerlega röng staðhæfing, að hinir upprunalegu leigjendur hafi selt þær öðrum á leigu, og má þetta atriði þessvegna ekki standa ómótmælt. Þá mintist hv. þm. á það, að þegar landið væri búið að kosta höfnina, þá ætti að gefa Vestmanneyingum Eyjarnar. Jeg hefi þegar svarað þessu. Landið hefir fengið það margfaldlega endurgoldið, sem það hefir kostað til þessa verks. Því miður er þetta engin höfn enn sem komið er. Samt verða Vestmanneyingar að leggja á sig hafnar- og vörugjöld, sem eru meira en tvöfalt hærri en í Reykjavík, sem hefir ágæta höfn.

Þá held jeg, að hv. 5. landsk. hafi loks í síðari ræðu sinni komið að höfuðástæðunni fyrir því, að hann er á móti málinu, þegar hann var að átelja hæstv. ráðherra (MG) fyrir það, að hann fylgdi frv. Hann hjelt því sem sje fram, að hæstv. atvrh. gerði þetta til þess að þm. Vestm. fengi fjöður í hattinn. Það er dálítið athugavert við þessa staðhæfingu hv. þm., því að hann hjelt því fram við 1. umr. málsins og kom að því aftur í dag, að frv. miðaði ekki til neinna hagsbóta fyrir einstaklinga í Vestmannaeyjum. Hvernig á þá þm. Vestm. að ávinna sjer nokkurt lof kjósenda sinna fyrir að bera málið fram, eins og hv. þm. gaf í skyn? Það virðist vera hugsanagangur hv. þm. (JJ), að af því að þm. Vestm. er flokksbróðir hæstv. atvrh. (MG), muni hann fylgja málinu. Margur hyggur mann af sjer, og verður af þessu sjeð, hvernig hann mundi snúast í málinu, ef frv. væri borið fram af flokksmanni hv. 5. landsk.

Hv. þm. (JJ) byrjaði strax við 1. umr. á hógværum mótbárum og smávegis flækjum; síðan hefir hann fikað sig kringum málið eins og köttur kringum heitan graut, talið það ekki tímabært, ekki heppilegt, stundum ekki heppilegt fyrir landið og ekki fyrir einstaklinga í Vestmannaeyjum. Hv. þm. hefir með þessu atferli sínu sannað, að fyrir honum vakir ekki annað en það, að setja sig þversum gegn þessu sanngirnismáli Vestmanneyinga, og af aðdróttunum hans í garð hæstv. atvrh. má draga þá ályktun, að afstaða hans sjálfs, hv. 5. landsk. þm., markist einkum af því, að pólitískur andstæðingur flytur málið. Hvort þetta er rjett, mun sjást, þegar atkvæði verða greidd.

Annars er það ákaflega gott, hvað það kemur fram hjá honum og öðrum hv. þm. í meirihl. nefndarinnar, að þeir hafi bjargfasta trú á því, að Vestmannaeyjar sjeu mjög dýrmætar og verði dýrmætari í framtíðinni. Er þá óhætt að treysta því, að þessir hv. þm. verði fúsir til þess að láta landið leggja í einhverjar framkvæmdir á þessum dýrmæta stað. Mjer þykir því vænt um það, vegna Vestmannaeyja, að mál þetta hefir komið til umr. í hv. deild. Það er ekki svo sjaldan, sem maður heyrir það — sjerstaklega frá hv. 5. landsk. (JJ) — að það sje ekki sjerstaklega mikið á þessum sjóþorpum að byggja. Það er annað hljóð í strokknum í dag. Þessi hv. þm., sem ekki hefir viljað sjá neitt gott annarsstaðar en í sveitunum, viðurkennir nú, að Vestmannaeyjar sjeu mjög dýrmætur blettur fyrir þjóðfjelagið og verði líklega enn dýrmætari í framtíðinni.

Hv. 1. landsk. (SE) var nærri því farinn að halda stórpólitíska ræðu út af frekar meinlausum ummælum mínum um það, að stjórnarráðið hefði verið hirðulaus landsdrottinn við þessa landseta sína, Vestmanneyinga, og að ástandið hefði síst verið betra í ráðherratíð hv. þm.

Hv. þm. (SE) hjelt stóra ræðu um þetta og skoraði á mig að fara út í eldhúsdagsumræður við sig; jeg býst ekki við, að það yrði til að flýta þessu máli, enda yrði alls ekki leyft að fara út í slíkt nú. Hv. þm. (SE) er fullviðkvæmur. Ef minst er á eitthvað í sambandi við fyrv. stjórn, þá er eins og hv. þm. finnist, að alt verði að snúast kringum hans pólitísku persónu. Um þennan hv. þm. má segja eins og hina tvo hv. nefndarmenn meirihl. nefndarinnar, að ástæður þeirra móti máli þessu eru svo sundurleitar og í mörgum atriðum óviðkomandi kjarna málsins, að undrum sætir. Þar er hver höndin upp á móti annari, sem von er, þar sem hver keppist við annan um að dylja hina sönnu ástæðu.

Jeg held, að það sje ekki nema um eitt, sem minnihl. og meirihl. greinir á í þessu máli. Meirihl. vill ekki láta kaupstaðinn fá kauprjett á lóðinni, en minnihl. vill gefa kost á því á skynsamlegum grundvelli.