08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

1. mál, fjárlög 1926

Magnús Torfason:

Jeg á eina brtt. á þskj. 486 um að hækka styrkinn til sandgræðslu úr 23 þús. kr. upp í 26 þús. kr. En styrkurinn er bundinn því skilyrði, að jafnt komi á móti frá þeim, sem njóta. Síðan jeg kom í ríki Gissurar jarls hefi jeg riðið þar um hjeruð og athugað sandgræðslustarfið, og jeg verð að segja, að árangur er orðinn miklu meiri en hægt var að búast við. Jafnvel í sumum harðbalasveitum hefir skift svo um, að unnist hefir mikið landnám fyrir tiltölulega litla peninga. Árangurinn verður betri með hverju ári, eftir því sem reynslan kennir mönnum. Á Reykjanesfjallgarði er fjall eitt, sem heitir „Heiðin há“, og mun það vera fegursta fjallsheiti á Íslandi. Þar fyrir sunnan var eitt sinn fagurt land og frítt, einhver besta sveit landsins. Þar var jörð ein, sem hjet Strönd. Nú er þar ekki annað eftir en Strandarkirkja. Jörðin sjest ekki í jarðamatinu og er nú algerlega þurkuð út. Önnur jörð var þar, sem Vogsósar hjet. Sú jörð var hjáleiga frá Strönd. Strönd var eitt hið mesta höfuðból hjer á landi um eitt skeið, og þangað sótti hver höfðinginn af öðrum, og jafnvel börðust um. Nú er jörðin tómir sandflákar og fyrir fáum árum sást þar ekki stingandi strá.

Fyrir 13 árum tóku Selvogsmenn sig saman um að girða landið, og er þar nú kominn gróður nokkur, melbollar og slægjuvottur. Þetta er eðlilegt, þegar landið er friðað, því að hvergi nema undir Eyjafjöllum mun vera eins veðursælt hjer á landi og þar, og jarðvegurinn er frjór, því að þar sem voru einhverjar skógarleifar, hafa þær þroskast jafnt og grastegundir. Sandágangurinn er aðallega að norðan og austan, og þarf því að byrja á græðslu austast, til þess að hefta sandfokið. Þeir menn, sem þarna búa, munu vera fúsir til þess að leggja fram helming kostnaðar til þess að girðingunni sje haldið áfram og hún fullger, því að fyr kemur hún ekki að fullu gagni. Á Landi er reynslan sú, að þegar girðingar eru komnar, grær landið upp á 2–3 árum og koma þar bestu slægjur. Það er áreiðanlegt, að engu fje til landbúnaðar er betur varið en því, sem fer til sandgræðslunnar. Fjeð fer beint í vasa þeirra, sem vinna verkið, og árangurinn er ágætur. Við eigum að græða landið okkar, og um þessa sveit er jeg ekki í minsta efa um það, að eftir svo sem 20–30 ár eftir að fullgirt hefir verið verður þarna komin blómleg sveit, ekki síður en til forna. Landið er fagurt og jeg þekki engan stað, er betur væri fallinn til þess að hafa þar sumarbústaði.

Eins og jeg tók fram áðan, er Strandarkirkja á þessu landi, og er það sjálfsagt ömurlegasta kirkjustæði á landinu. Strönd og Vogsósar eru kirkjujarðir. Ábúandinn í Vogsósum hefir viljað fá jörðina keypta, en biskup hefir ekki viljað selja. Ábúanda er því meinað að leggja krafta sína í það að rækta jörðina, eins og hann mundi hafa gert að öðrum kosti.

Jeg skal svo ekki orðlengja meira um þetta, en vona, að menn taki tillit til þess, að hjer er um það sandgræðslusvæði að ræða, er bera mun bestan og skjótastan árangur.