14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Einar Árnason:

Við þrír þm. höfum leyft okkur að bera fram brtt. við frv. þetta, og vil jeg í fáum orðum gera grein fyrir þeim.

Í 4. gr. frv. er svo ákveðið, að dómkveðja skuli óvilhalla menn til að meta lóðir þær, sem frv. ræðir um, en hinsvegar er eigi ákveðið, hver skuli dómkveðja þá. Okkur finst óeðlilegt, að bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum geri það, þar sem honum er málið svo skylt. Við höfum því í brtt. okkar lagt til, að hæstirjettur útnefni þessa menn, og væntum við þess, að ekkert sje því til fyrirstöðu, frá formsins hlið.

Þá er í 2. málsgrein 4. gr. frv. tekið fram, að matið skuli fara fram eftir ákvæðum þjóðjarðasölulaganna. Þetta höfum við lagt til, að falli burt, með því að mat þetta fer að ýmsu leyti út fyrir ramma þjóðjarðasölulaganna. Hjer kemur t. d. ekki sýslunefnd til greina, þar sem bæjarfjelag er að kaupa lóðir, sem öðrum eru leigðar. Auk þess er hjer ekki um venjulega jarðasölu að ræða, heldur hluta úr jörð eða jörðum. Því er eigi ástæða til, að í frv. standi, að matið fari fram eftir ákvæðum þjóðjarðasölulaganna.

Þá kemur aðalatriðið í brtt. okkar, sem er það, að matsgerðin verði lögð fyrir næsta Alþingi, svo að salan verði eigi ákveðin fyr en þingið, að athuguðu máli, hefir lagt á hana samþykki sitt. Við 2. umr. málsins var ágreiningur nokkur um þetta atriði. Meirihl. fjhn. taldi eigi nægar upplýsingar liggja fyrir, og vildi því láta vísa málinu frá. Eftir brtt. okkar ættu allar nauðsynlegar upplýsingar að geta legið fyrir næsta þingi, svo sem matsgerðin o. fl. Verður þá væntanlega betra að átta sig á málinu.

Hvernig sem menn annars líta á sölu þessa — og jeg tel víst, að sumir sje henni alveg mótfallnir — þá ættu allir að geta orðið sammála um þessa brtt. Og fyrir mitt leyti verð jeg að segja það, að jeg treysti mjer ekki til að fylgja þessu máli lengra, ef brtt. okkar verða feldar.