14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal ekki lengja umræðurnar mikið. — Það var aðeins vegna þess, að mjer skildist á hæstv. atvrh. (MG), að maður gæti orðið síðar bundinn við þessa atkvgr., að jeg vildi segja nokkur orð.

Jeg get sagt svipað og hv. 2. landsk. (SJ), að jeg hefi jafnan verið eindregið móti sölu þjóðjarða. Hinsvegar geri jeg stóran mun á því, hvort kaupandinn er einstaklingur eða sjerstakt bæjarfjelag, sveitarfjelag eða opinber stofnun. Finst mjer það hafa mikið meira til síns máls, að selja þeim síðarnefndu jarðeignir ríkisins.

Hv. atvrh. (MG) heldur því fram, að salan geti orðið mjög hagkvæm fyrir ríkið, þegar tekið sje tillit til þess, hve lóðir sjeu þar alt of lágt leigðar. Sýnir þetta vel, hvernig farið hefir verið með þjóðjarðirnar á undangengnum tímum. þær hafa verið leigðar út fyrir alt of lágt gjald, en hinsvegar hefir verið miðað við leiguna af þeim, þegar þær hafa verið seldar. Á þennan hátt hefir ríkissjóður gefið nokkrum einstaklingum stórar upphæðir. Jeg get tekið undir það með hv. meirihl., að ekki sje álitlegt að selja Vestmannaeyjar fyrir 250 þús. kr., þegar þær eru metnar yfir 600 þús. kr. Og þó að fasteignamatið þarna kunni að vera nokkru hærra en gerist á jörðum í sveit, þá má víst segja, að það sje alstaðar á landinu í raun og veru of lágt. En mesti agnúinn á þessu öllu er þó sá, að engin skynsemi er í því, hvernig lóðirnar þarna hafa verið leigðar út, en svo hefir það einnig verið með þjóðjarðirnar, þó varla hafi það verið annarsstaðar eins ilt og í Vestm.eyjum.

Ef hv. deild hefir skilið mig, þá er það þetta, sem jeg hefi viljað gera henni ljóst, að það, sem skilur mig og hv. 2. landsk. (SJ) er, að hann er í öllum tilfellum á móti sölu þjóðjarða, en jeg get látið mjer lynda, að þær sjeu, þegar svo ber undir, seldar til bæjarfjelaga eða sveitafjelaga, en vil, að ríkissjóður bíði jafnan sem minstan eða helst engan halla af sölunni. En hjer er því ekki til að dreifa.