14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2453)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Frsm. minnihl. (Jóhann Jósefsson):

Jeg tók það þegar fram, í lok 2. umr., að þrátt fyrir málalengingar og alt mas, sem út af frv. hefir spunnist, þá liggur ágreiningurinn í raun og veru ekki í öðru en því, hvort Vestmanneyingum skuli gefinn kostur á að eignast umrætt land eða ekki. Hefir þetta sannast enn við þessa umræðu. Vitaskuld er það, að afstaða sumra hv. þm., þeirra, sem andmæltu frv., er hrein, svo sem er um hv. 2. landsk. (SJ), sem alla tíð hefir verið mótfallinn sölu þjóðjarða og vill af sömu „principiellum“ ástæðum ekki selja Vestmannaeyjar. Get jeg virt þá skoðun hans, þó að það sje mjer persónulega fjarlægt, að aðhyllast hana. — Þá undrar það mig ekki, þó að hv. 2. þm. S.-M. (IP) telji sig geta fylgt frv. með þeirri brtt., sem nú er fram komin. Tók jeg það líka fram við 2. umr. málsins, að jeg gæti vænst þess af honum, að bera fram brtt. í þessa átt.

Jeg átti satt að segja ekki gott með að fylgjast með röksemdafærslu hv. 1. landsk. (SE) fyrir því, af hverju hann mundi greiða þessari till. atkv. sitt. Jeg verð að segja, að jeg stend hálfundrandi yfir þeim ræðum, sem þessi hv. þm. hefir flutt í þessu máli, bæði nú og við 2. umr. Annars er jeg alveg viss um það, að hv. þm. er prýðilega að sjer í rentureikningi, og honum getur ekki dulist, hvaða árangur yrði af því, að leggja á vöxtu leiguna nú, hvaða upphæð mundi verða útkoman eftir 60–80 ár. Það hefir verið mikið talað um fasteignamat. Jeg held það hafi verið hv. 1. landsk. (SE), sem aðallega hefir haldið því fram, að ekki væri að tala um, að svona þjóðeign yrði seld undir fasteignamati. Má vera, að þetta láti vel í eyrum. Hvort heldur eru hús, lóðir eða annað, sem metið er svo og svo mikið, ef það er sýnt, að eignin um fyrirsjáanlega framtíð getur ekki svarað rentum af neina 1/4 af þeirri upphæð, þá er það einnig augljóst, að fasteignamatið er ekki rjett mat. Jeg þykist nokkurnvegin viss um það, ef hv. 1. landsk. (SE) ætti eign, sem svaraði honum í rentum 10 þús. árl., og þrátt fyrir það, þó að hún væri metin fjórfalt við þetta verð, þá myndi hann, ef hann væri þess fullviss, að hann gæti ekki gert sjer í nánustu framtíð neitt meira úr eigninni, ekki hika við að selja hana fyrir eitthvað svipað verð og hún rentaði sig. Þó segja megi að vísu, að þessi eign sje svo og svo mikils virði, eða metin, þá finst mjer ekki mega ganga fram hjá því, að líta á þá sanngirniskröfu frá bæjarfjelaginu, sem fer fram á það við ríkið að selja eignina, að verðið sje miðað við það, sem ríkið hefir upp úr eigninni. Maður getur nú eiginlega tæplega búist við því, að þegar bæjarfjelag fer fram á við ríkissjóð að fá að eiga landið, sem bærinn stendur á, að forsvarar ríkissjóðs taki þá afstöðu til málsins, að líta á það frá meðal-prangarasjónarmiði. En maður getur ekki varist þess, að láta sjer detta í hug, að frá hálfu þeirra manna, sem lagst hafa á móti málinu, hafi verið talað um þessa sölu rjett eins og hjer þyrfti að sjá við einhverjum afleitum pröngurum. (SE: Nú er skrítinn „mórall“ á ferðinni.) það er ekki svo skrítinn „mórall“, að það eigi að gilda önnur regla milli ríkisins og bæjarfjelags, heldur en milli tveggja „privat“-manna.

Hv. 1. landsk. (SE) lagði mikla áherslu á, að málið gengi ekki undan þinginu. Þessu er jeg alveg sammála, enda hefi jeg ekki óskað eftir, að úrslit málsins yrðu háð öðrum völdum en þingsins. Og það hefir ekki verið tilætlun neins, að málið gengi undan þinginu; því aðeins hefir það verið í þinginu fram borið, að úrslit þess yrðu undir þingsins vilja komin. (SE: Ekki eins og frv. liggur nú fyrir.) Eins og frv. lá fyrir í byrjun; því getur hv. 1. landsk. tæplega neitað.

Hv. 5. landsk. (JJ) var eitthvað að tala um bitlinga í sambandi við þetta mál. Jeg held nú, að hv. þm. hljóti að vita, að það getur ekki skoðast sem bitlingur til mín, þótt það yrði, að ríkið seldi Vestmannaeyjabæ landið, sem hann er bygður á. En vitaskuld er það eðlilegt, að þessi hv. þm. reyni að færa til verri vegar afskifti hæstv. stjórnar af þessu máli og nota þau til árása á hana, úr því að hann hefir nú einu sinni valið sjer það hlutskifti að láta ekkert tækifæri til þess ónotað.

Hv. 5. landsk. (JJ) var að tala um það, að það hefði ruglast fyrir mjer, það sem fram hefði farið á fjhn.fundi. Þetta er staðleysa hjá hv. þm. Jeg hefi altaf sagt, að hæstv. atvrh. (MG) hafi aldrei komið með þetta tilboð, sem hv. þm. talar um. En á hinn bóginn man jeg eftir því, að hv. þm. (JJ) var að inna eftir því við mig, hvað jeg vildi bjóða. Hv. þm. hefir skoðað það svo, að við værum á uppboði, og hann sjálfur uppboðshaldarinn, en mitt að bjóða; þessvegna er þessi tilboðshugmynd orðin svo föst í honum. Eins og jeg tók fram við þennan hv. þm., er það ekki mitt hlutverk að standa og bjóða neitt fram. Jeg flutti málið í byrjun á þeim grundvelli, sem bæjarstjórn Vestmannaeyja hefir falið mjer. Og jeg verð að neita því afdráttarlaust, að Vestmanneyingar hafi með frv., eins og það lá fyrir í byrjun, farið fram á nokkra gjöf af ríkisins hálfu. Ef menn fengjust til þess að koma niður úr skýjunum og líta rólega á málið, eins og það virkilega liggur fyrir, þá þarf ekki að eyða mörgum orðum um það, að þessi þjóðareign gefur ekki meira af sjer en sem svarar því „kapitali“, sem nefnt er í frv.; og þessvegna er aðeins farið fram á, að ríkið selji eignina sjer skaðlaust.

Öðru atriði verð jeg líka að neita afdráttarlaust, að Vestmanneyingar hafi haft nokkur undirmál við stjórnina um málið. Jeg veit, að hæstv. stjórn hefir tekið sína afstöðu frá sjónarmiði þeirra manna, sem lita á hlutina eins og þeir eru í raun og veru, en setur sig ekki á neinn annan sjónarhól, til þess að gera sjer allskonar „illusionir“ um málið, eins og bæði hv. 5. landsk. (JJ) og hv. 1. landsk. (SE) hafa gert.

Jeg er sammála því hjá hv. þm. A.- Húnv. (GÓ) — enda hefi jeg altaf haldið því fram — að það er sitt hvað fyrir ríkið, að selja þjóðeignir Pjetri eða Páli, eða bæjarfjelögum. En þrátt fyrir það, þótt þjóðjarðir hafi verið seldar þannig, að í einstöku tilfellum hafi menn grætt á að selja þær aftur, þá hafa margir góðir og gegnir bændur uppi í sveit sagt mjer það, að yfir höfuð væri það besta fyrirkomulagið, að bændur ættu sjálfir jarðirnar, sem þeir sætu á. Og þótt þjóðjarðasalan hafi í einstöku tilfellum komið þannig út, að viðkomandi menn hafi grætt á jörðunum með því að selja aftur, þá eru þau tilfelli ekki mjög mörg; og í öðru lagi sje jeg ekki, hvaða stórskaði er skeður, þótt einstöku maður græði. Þjóðfjelagið á borgara sína með húð og hári, og það hefir ótal leiðir til að ná sköttum af þeim. Það er vitnað í fasteignamatið og talað óspart um það, hvað ríkið hafi látið lönd og lóðir í Vestmannaeyjum afaródýrt. En ríkið hefir í raun og veru ekki látið neitt til annars en sjálfs sin, því að ríkið á íbúana og hefir öll ráð til að ná sjer niðri á þeim í sköttum.

Annars skal jeg geta þess, að við hv. 2. þm. G.-K. (BK) höfum borið okkur saman um þá brtt, sem er fram komin, og munum geta aðhylst hana. Hún gerir ekki svo mikinn mun frá því, sem við höfum lagt til. Fyrir mitt leyti get jeg sjerstaklega aðhylst hana vegna þess, að jeg álít, að hana samþ. þeir einir, sem vilja gefa kost á, að Vestmannaeyjar kaupi landið; en hinir vitanlega gera það ekki. En eins og jeg tók fram við 2. umr., þá er það aðalatriðið, sem ber á milli. Þó að hv. andmælendur hafi gripið í þessar háu tölur, fasteignamatið, til þess að láta kaupin sýnast ómögulegan hlut á grundvelli frv., þá hefir í raun og veru undiraldan verið sú hjá hv. þm., að þeir hafa viljað málið feigt.