14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í C-deild Alþingistíðinda. (2457)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Guðmundur Ólafsson:

Það var út af orðum hæstv. atvrh. (MG).

Honum fanst jeg vera óráðinn um atkv. mitt, og vildi ráðleggja mjer að greiða ekki atkv. með auknum kostnaði í málinu. Þegar jeg talaði, var búið að heyrast til svo margra hv. þm. með brtt., að jeg þóttist viss um, að hún yrði samþ. En með samþykt hennar er ekki hætta á því, að greiða þurfi fullnaðaratkv. með málinu á þessu þingi. Því að það er beinlínis tekið fram í till., að matsgerðina eigi stjórnin að leggja fyrir þingið, ásamt till. sínum. Og það er ómögulegt að gera ráð fyrir því, að það verði hægt á þessu þingi. Brtt. gerir í þessu tilliti engan mun frá því, sem er í 4. gr. frv.; aðeins er það þessi þriggja manna nefnd, sem brtt. ákveður. Brtt. hefir það fram yfir, að með henni er því slegið föstu, að málið verður ekki afgreitt að fullu af því þingi, sem nú situr. Verði jeg hjer heill á húfi á næsta þingi, vona jeg, að jeg hafi athugað málið það vel, og sje reyndar búinn að því nú, að mjer verði ekki skotaskuld úr því að greiða atkv. um málið.