14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (2459)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Jónas Jónsson:

Hv. þm. Vestm. (JJós) hjelt nú, að hann myndi eitthvað viðvíkjandi umtöluðu verði í fjhn.; en þegar til kom, mundi hann ekki einu sinni fyrir víst eftir þessum 300 þús., sem áður höfðu vafist fyrir honum. Hinsvegar taldi hann sig muna, að jeg hefði í nefndinni eggjað hann á að bjóða hærra verð fyrir Eyjarnar en hann gerði í frv. Þetta síðarnefnda er rjett. Í nefndinni vildi jeg sýna honum það vinarbragð, að benda honum á, til þess að forða honum frá þeirri vanvirðu að hafa boðið 200 þús. kr., að rjettast væri fyrir hann að nefna hærri tölu. Það er líka augljóst, að hann stæði betur að vígi nú, ef hann hefði a. m. k. stungið upp á fasteignamatsverði þegar í upphafi. Þá gæti engum manni dottið í hug, að hann hefði ætlað að nota atkvæði sitt til þess að ríkissjóður seldi Eyjarnar fyrir ósæmilega lágt verð.

Hv. þm. (JJós) segist ekki hafa beðið um Eyjarnar að gjöf. Það er að vísu rjett, en þó álíta ýmsir, þar á meðal merkir íhaldsmenn, að verðið, sem hann nefnir í frv., sje svo lágt, að það nálgist gjöf. Enda mun alment talið hneyksli, að láta sjer detta í hug, að Vestmannaeyjar verði seldar fyrir þriðjung af verði húss Nathan & Olsens hjer í Reykjavík.

Hv. þm. (JJós) segir, að engin undirmál við hæstv. stjórn hafi átt sjer stað í sambandi við þetta mál. Því hefir enginn haldið fram. En hitt hefi jeg sagt, að ef afstaða hæstv. stjórnar væri ekki hreint og beint sprottin af vitleysu, þá væru einhver undirmál eina hugsanlega skýringin. Jeg skal jafnframt taka það fram, að jeg vil halda mjer að fyrri skýringunni, að framkoma hæstv. stjórnar stafi af tómri fávisku, og má hæstv. stjórn vel una þeirri skýringu, eftir atvikum.

Höfuðgallinn á útreikningum hæstv. atvrh. (MG) um, hversu mikið ríkissjóður hafi upp úr því, að selja Eyjarnar fyrir 250 þús., sem síðan skuli ávaxta um 60 ára skeið, er sá, að hann gleymir að taka með í reikninginn, hversu mikils virði Eyjarnar geta verið orðnar að 60 árum liðnum. Hversu mikið hafa lóðir hjer í Reykjavík ekki hækkað í verði síðastliðin 60 ár? Og hvað hafa Vestmannaeyjalóðirnar ekki hækkað í verði á 60 árum? Jeg þykist vita, að hv. þm. Vestm. (JJós) sje kunnugt um, að það verð, sem talað var um, fyrir nokkru, að selja Eyjarnar einni selstöðuversluninni fyrir, þolir ekki einu sinni nokkurn samanburð við 200 þús. krónurnar, sem hv. þm. (JJós) nefnir í frv. sínu. Þegar nú fasteignamat Eyjanna, 600 þús. kr., er langt fyrir neðan sannvirði þeirra, og þar sem ennfremur má gera ráð fyrir því, að á næstu 60 árum stækki kaupstaðurinn allmikið og nýir grunnar og nýir fiskreitir verði teknir til notkunar, þá má öllum verða ljóst, hvílíkur geysilegur munur verður á verðmæti Eyjanna nú og að 60 árum liðnum, þegar þær að miklu leyti verða lausar úr ábúð. T. d. veit jeg um eina lóð, sem hv. þm. (JJós) mun þekkja vel og er tuga þúsunda virði, en sem nú eru goldnar eftir 150 kr. árlega. Hvað verður eftirgjald þessarar lóðar að 60 árum liðnum? Svona mætti lengi telja.

Þessvegna er það hreinasta vitleysa, að ætla sjer að „kapitalísera“ svo lága upphæð sem hæstv. atvrh. nefnir, því allir vita, að slíkur höfuðstóll vex mun hægar en verðmæti lóðanna sjálfra.

Hæstv. atvrh. (MG) gerði ráð fyrir því, að jeg væri í hjarta mínu á móti sölu Eyjanna. Það kemur málinu, á þessu stigi, í rauninni ekkert við. Um söluna sjálfa kemur atkvgr. ekki til greina fyr en mat hefir farið fram, sem e. t. v. verður um þetta leyti að ári.