14.04.1925
Efri deild: 51. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (2460)

82. mál, sala á hluta af kaupstaðarlóð Vestmannaeyjabæjar

Frsm. minnihl. (Jóhann Jósefsson):

Ef það er rjett, sem hv. 5. landsk. (JJ) sagði, að Vestmannaeyjar hafi á fáum árum hækkað mjög í verði og eigi eftir að hækka enn í verði í framtíðinni, sem er vitaskuld undir því komið, að atvinnuvegir Eyjaskeggja blómgist áfram og atorka einstaklinganna verði söm hjer eftir sem hingað til, þá sýnist ekki ósanngjarnt, að sjálft bæjarfjelagið njóti að einhverju leyti þess hagnaðar, sem á þennan hátt verður af hækkandi verði landsins. Annars hefir mál þetta verið rætt nægilega frá öllum hliðum.

Það hefir sýnt sig, að þeir tveir hv. þm. (SE og JJ), sem mest hafa hamast á móti frv., eru því sárgramir, að hafa ekki getað kæft það þegar í upphafi. Þessvegna hafa þeir gripið til þess óyndisúrræðis, að veitast að mjer persónulega. Þetta gerir mjer auðvitað ekkert til, en sýnir aðeins úrræðaleysi þessara hv. þm. Jeg kippi mjer ekkert upp við það, þó hv. 1. landsk. (SE) velji mjer óviðurkvæmileg orð. (SE: Sannleikanum verður hver sárreiðastur!) Þau hitta mig ekki, en hv. 1. landsk. (SE) er sjálfur ekki jafnóskemdur eftir sem áður.

Hv. þm. (SE) er landsk. þm., enda fer hann sjaldnast í felur með þá vegtyllu sína. Hann víkur óþarflega oft að því, að tala um hreppapólitík annara þm. Það er alls ekki rjett af hv. þm. (SE), að láta gremju sína bitna á einstökum þm., þó að hann þykist þurfa að leggjast á móti sanngirnismálum einstakra hjeraða eða kaupstaða landsins. Þetta er leitt, en háttv. þm. (SE) má sjálfum sjer, en ekki mjer, um kenna.

Það er rangt, að jeg hafi ráðist sjerstaklega að hv. þm. (SE); en sumir menn, og þar á meðal hv. 1. landsk. (SE) eru svo viðkvæmir, að varla má anda á móti þeim, án þess alt sjeu kölluð stóryrði. En þessum mönnum er einmitt sjálfum hættast við að verða „stóru orðunum“ að bráð, eins og hv. 1. landsk. (SE) henti nýlega.

Hv. þm. (SE) varaði hv. deild alvarlega við einhverjum nýjum „móral“, sem jeg á að vera að innleiða hjer. Jeg veit satt að segja ekki, hvort nokkur annar hv. þm. hefir orðið var við þennan nýja „móral“, sem hv. 1. landsk. (SE) talar um. Það er að vísu tilefnislaust hjer, að vara menn við nýjum „móral“, en tilgangur hv. þm. (SE) er eflaust góður. Hann vill hvergi hafa annað en góðan „móral“ í hinu pólitíska lífi, hvorki utan þings nje innan, og telur sig geta frómt úr flokki talað. Þetta, að hv. þm. (SE) sjer hjer grýlu, sem engir aðrir sjá, er því einungis sprottið af ákafa hans og einlægni í því, að hleypa hvergi að hinu opinbera lífi neinum misjöfnum „móral“. En það er alveg ástæðulaust að vara hv. deild við till. mínum í máli þessu, því bak við þær liggur fullkomin sanngirnis- og rjettlætiskrafa.