08.05.1925
Neðri deild: 75. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Jeg er ekki í neinu orðabindindi, svo að jeg þykist mega fylgja brtt. mínum úr hlaði.

Það er þá fyrsta brtt., sem jeg hefi borið fram, á þskj. 486,1, um að semja efnisyfirlit við Stjórnartíðindin fyrir árin 1916–1925. Hv. fjvn. fjekk mig til þess að taka þessa till. aftur við 3. umr. hjer í deildinni, í trausti þess, að nefndin athugaði málið, en hún hefir gleymt því. Það er nauðsynlegt að fá þetta efnisyfirlit fyrir 10 síðustu árin, og upphæðin, sem farið er fram á, 2500 kr., er ekki meiri en greitt hefir verið áður fyrir samskonar verk. Geri jeg ekki ráð fyrir neinum ágreiningi í deildinni um þessa brtt.

Þá er brtt. XIII. á þskj. 486, um 7500 kr. til Byggingarfjelags Reykjavíkur, gegn tvöföldu framlagi annarsstaðar frá, eða til vara 5000 kr. Þetta fjelag var stofnað laust eftir stríðið til þess að bæta úr húsnæðisvandræðunum hjer í Reykjavík. Voru það aðallega fátækir menn, er tóku sig saman um að koma upp húsnæði fyrir sig sjálfa. Fjelag þetta byrjaði því með litlum efnum, 13–14 þús. kr., og var ekki að búast við því, að það gæti gert mikið nema með því að fá stórlán. Fjekk það og lán með tilstyrk bæjarstjórnar Reykjavíkur. En eins og menn vita, eru lán afardýr, og kostnaður varð meiri en gert var ráð fyrir í fyrstu.

Í búðirnar í húsum þessum eru betri en flestar aðrar leiguíbúðir hjer í bænum, hátt undir loft og bjart. Er nú á þriðja hundrað manns í húsum þessum. Stjórn fjelagsins hefir hugsað sjer, ef hún fengi styrk úr ríkissjóði, að greiða af skuldum og reyna þá eitthvað að lækka leigu, ef hægt er, og er hún þó nú þegar lægri en víðast hvar annarsstaðar. Vonirnar, sem menn gerðu sjer um fyrirtæki þetta, hafa ekki brugðist, en það má kannske segja, að fjelagið standi sig ekki nógu vel, og er það vegna hinna gífurlegu vaxta, sem fjelagið verður að greiða af lánum sínum. Það er líka uppi sú stefna nú, að gefa eftir skuldir þeim, er verðir þess þykja, og lána stórar fjárhæðir til fyrirtækja, sem erfitt hafa átt, og hygg jeg, að ekki sjeu mörg þeirra maklegri þess en þetta fyrirtæki. Það er nauðsynlegt fyrir fólk að koma upp góðum íbúðum þar, sem svo er ástatt sem hjer. Í fjárlögum 1924 var fjelaginu veittur 5000 kr. styrkur til nýbygginga, en þann styrk hefir það ekki fengið greiddan. Hjer er því í vissum skilningi ekki um annað en endurveitingu að ræða, ef varatill. verður samþykt.

Þá er XV. brtt. á þskj. 486, og er hún gamall kunningi deildarinnar. Jeg fór fram á hærri upphæð bæði við 2. og 3. umr., en hefi nú lækkað upphæðina að mun, til þess að gera brtt. aðgengilegri fyrir hv. þdm. Jeg hefi áður lýst starfsemi þessa sjóðs, en þá var það haft á móti fjárveitingu til hans, að slysatryggingarfrv. væri á leiðinni. Nú er það frv. orðið að lögum, en þó er nóg starfsvið fyrir þennan sjóð að veita styrk í veikindum, þeim, sem ekki fá styrk samkvæmt lögum. um slysatryggingar. Það lætur nærri, ef aðalbrtt. verður samþykt, að það sje jafnmikið fje, sem sjóðurinn fær þar, eins og hann fær nú með iðgjöldum á ári frá fjelögum þeim, sem að sjóðnum standa.

Þá er önnur brtt. undir XV. lið, við 17. gr., um slysatryggingar. Nú eru veittar 14 þús. kr. í þessu skyni í 17. gr., en nú vil jeg, að það sjeu veittar sjerstaklega 50 þús. kr., til uppbótar handa þeim, er bætur eiga að taka samkv. slysatryggingarlögum á þessu ári og því síðastliðna. Það er öllum í fersku minni, hvert afhroð Íslendingar hafa goldið nú nýlega við fráfall hinna mörgu vösku drengja, sem fóru í sjóinn. Hefir þar orðið ærið skarð fyrir skildi hjá ættingjum þeirra, og það, sem hægt er að bæta með fje, er sjálfsagt að bæta. En ef ofan á raunirnar bætist það, að fólkið lendir í örbirgð, eins og þráfaldlega kemur fyrir, þá er það miklu verra. Nú hefir að vísu verið hafist handa og skotið saman miklu fje til eftirlifenda þeirra manna, sem druknað hafa á þessu ári, sem auðvitað verður haft sem viðbót við það, sem slysatrygging sjómanna greiðir þeim, en mjer hefir fundist rjett, að ríkissjóður tæki einnig þátt í þessu; það væri ekki nema lítilsháttar viðurkenning fyrir það góðæri, sem ríkissjóður hefir átt að fagna, einmitt mest fyrir starfsemi þeirrar stjettar, sem mest hefir lagt sig í hættu, og að ríkissjóður legði fram þessa fjárupphæð, sem jeg hjer tala um. Jeg ætlast til, að þetta fje verði greitt þeim, þegar fjárlögin fyrir árið 1926 ganga í gildi, og þá skift eftir sömu hlutföllum og bætur hafa verið greiddar þeim, er rjett eiga til bóta fyrir árin 1924 og 1925. Jeg býst nú við, að einhverjir hv. þm. kunni að segja, að ekki komi mikið í hlut hvers eins, því að hjer er um nokkuð marga menn að ræða, sem bætur eiga að taka, þótt ekki sje talað um aðra en þá, sem druknað hafa á árinu 1924 og það sem af er árinu 1925; en þó að svo sje, að ekki sje nema um litlar fjárhæðir til hvers að ræða, þá munar margt af því fólki um það að fá þó ekki sje nema eitt, tvö eða þrjú hundruð krónur, því að það er allhætt við því, að hjá mörgum þeirra sje ekki úr miklu að spila, en hinsvegar af ríkisins hálfu nokkurskonar þátttaka í þeim samskotum, sem hjer hafa farið fram. Það kunna líka einhverjir rausnarlegir þm. að finna að því, að jeg hefi ekki beðið um meira fje, en þá er þeim hv. þm. innanhandar að koma með brtt. um það; jeg skal ekki vera á móti því. Jeg þykist mega ganga út frá því, að ekki verði mjög mik21 ágreiningur um þessa till. og að hún verði samþykt í einu hljóði. Auk þess hefir Alþingi borist erindi frá Fiskifjelagi Íslands, þar sem farið er fram á það, að bæturnar til eftirlifenda sjómannanna hækki um meira en helming, úr 2000 kr. upp í 5000 kr., og örorkubæturnar úr 4000 kr. upp í 8000 kr. Við vitum, að þetta er óbreytt frá því, sem það var í slysatryggingarlögum þeim, sem samþykt hafa verið, og verður því ekki breytt á þessu þingi að neinu leyti. Hinsvegar gæti það komið fyrir, að ríkissjóður að nokkru leyti legði fram uppbót eftir á til eftirlifenda þeirra sjómanna, sem druknað hafa í sjó eða farist af slysum, og gæti það þá að nokkru komið í sama stað niður, ef það yrði föst regla, og ekki skyldi jeg hafa á móti því. Vil jeg svo ljúka máli mínu að því er þennan lið snertir.

Þá á jeg hjer á þskj. 504 eina litla brtt. Fyrir Alþingi liggur nú umsókn frá sjúkrahúsinu á Ísafirði, þar sem farið er fram á það, að því sje veittur styrkur, sem svarar þeim verðtolli, sem það hefir orðið að greiða til ríkisins af ýmsum áhöldum, er til hússins hafa verið keypt. Það var farið fram á það við 3. umr. fjárlagafrv. í þessari deild, að það fengi 3000 kr., en nú hefi jeg lækkað þessa beiðni og fer fram á 2800 kr. Jeg tel það algerlega sjálfsagt að veita sjúkrahúsinu þennan styrk, því að ríkissjóður ætti sannarlega ekki að vera að taka toll af þeim nauðsynlegu hlutum, sem þarf til sjúkrahúsa. Jeg veit líka, að læknar, sem hafa flutt inn áhöld, sem þeir hafa keypt eða pantað frá útlöndum, hafa fengið eftirgjöf á verðtolli, og það meira að segja þeir, sem ekki standa sjerstaklega í þjónustu ríkisins; sama ætti að gilda um þetta, jafnvel þó að svo hafi verið, að þeir hlutir, sem þarna er um að ræða, hafi verið keyptir samkvæmt útboði og einstakir menn hafi útvegað þá, því það er auðvelt að reikna út, hve miklu sá Verðtollur nemi, sem sjúkrahúsið hefir orðið að greiða. Mjer finst líka, að það ætti miklu fremur að verðlauna þann mikla áhuga og dugnað, sem Ísfirðingar hafa sýnt í því að koma upp þessu sjúkrahúsi, sem er eitthvert það myndarlegasta, sem til er á landinu, og ekki að vera að taka af því í toll fjárhæð, sem ekki munar ríkissjóð neinu, en nokkru fátækt bæjarfjelag. Jeg vildi því mælast til þess, að hv. deild samþykki þessa brtt. á þskj. 504.

Hafi jeg gleymt að minnast á eitthvað, þá verður væntanlega ekki lokið þessum umr. í kvöld, og fæ jeg þá líklega tœkifæri til að minnast á þær síðar, og ef andmæli koma fram, vona jeg, að mjer gefist tækifæri til að svara þeim.