16.02.1925
Neðri deild: 8. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í C-deild Alþingistíðinda. (2476)

38. mál, einkasala á áfengi

Flm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það virðist vera óþarfi fyrir mig að hafa langa framsögu í þessu máli, því að frv. þetta er kunnur gestur hjer á Alþingi. Mun það vera í þriðja skifti, sem það er borið hjer upp, a. m. k. að því er snertir 1. gr. Frv. er hjer um bil samhljóða því frv., sem lá hjer fyrir þinginu í fyrra. Eina verulega breytingin er sú, að nú er í frv. ákveðið lágmark álagningarinnar 50%, í stað 25% í fyrra. Ástæða þessarar breytingar er sú, að við flm. höfum orðið þess áskynja, sem okkur var ekki kunnugt á síðasta þingi, að nú mun að jafnaði ekki lagt meira á vínföng en 25–35%. Þykir okkur það ótilhlýðilega lágt, þegar þess er gætt, að nú er venja að leggja 50–60% á vínanda til iðnaðar. Þar sem mál þetta var rætt ítarlega á síðasta þingi, þykist jeg mega vænta þess, að hv. þm. tefji ekki lengi við þessa 1. umr. frv., heldur geymi aths. sínar við það, þeir sem þær þykjast hafa fram að færa, til 2. umr., sem verður þá aðalumr. málsins.