11.02.1925
Neðri deild: 4. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (2481)

7. mál, sjúkratryggingar

Atvinnumálaráðherra (MG):

Frv. þetta lá fyrir síðasta Alþingi, og var þá flutningsmaður þess háttv. samþingismaður minn (JS). Það má heita, að frv. sje orði til orðs eins og hann flutti það, aðeins einstöku orðabreytingar, þar á meðal í fyrirsögninni. Á síðasta þingi kom málið svo seint fram, að ekki var þess að vænta, enda ekki við því búist af flutningsmanni, að það næði þá fram að ganga.

Um leið og jeg vísa til athugsemdanna við þetta frv., vil jeg leiða athygli að því, að vjer getum ekki lengur látið tryggingamálin liggja í sama þagnargildi og verið hefir. Vjer erum í þessum málum langt á eftir flestum öðrum þjóðum. Á síðustu árum hefir þó nokkuð verið um þau ritað, og Alþingi hefir samþ. þingsályktunartill. í þá átt, að málið skyldi rannsakað. En rannsókn um þessi efni hjer á landi er torveld, bæði af því, að sjerfræðingum er ekki á að skipa, og vegna þess, að skýrslur brestur til þess að byggja á.

Jeg fæ því ekki betur sjeð en að vjer sjeum neyddir til að fara hægt af stað og láta reynsluna skera úr, hvað fært er og hvað ekki. Er það miklu betra en rasa fyrir ráð fram og verða svo ef til vill að gefast upp á miðri leið, því að það mundi tefja fyrir málinu um óákveðinn tíma.

Jeg skal ekki heldur draga dul á það, að hinn gífurlegi og sívaxandi berklakostnaður á nokkurn þátt í því, að frv. þetta er nú fram komið. Landssjóðshluti þessa kostnaðar var á síðastliðnu ári á 4. hundrað þúsund kr., og eykst hröðum fetum, eins og fyr er tekið fram. Ekki má heldur gleyma því, að kostnaður þessi er ákaflega þung byrði á sýslusjóðunum, svo þung, að Alþingi hefir neyðst til að takmarka hann.

Eftir þeirri skattalöggjöf, sem nú er, og með hinum lögákveðnu og óhjákvæmilegu útgjöldum, sem á ríkissjóði hvíla, getur ekki hjá því farið, ef ekki á að verða stöðugur tekjuhalli, að verklegar framkvæmdir ríkissjóðs hljóta að verða annaðhvort litlar eða alls engar. En það tel jeg hið allra versta, og slík kyrstaða árum eða jafnvel áratugum saman er gersamlega óþolandi. Verkefnin eru ótal fram undan; enn þarf marga ána að brúa, margan veginn að gera, margar símalínur að leggja, marga vita að byggja og mörg hús að reisa. Við þurfum að efla strandvarnirnar, stuðla að ræktun landsins o. fl., o. fl. En hvað getur orðið úr þessu, ef allar tekjur ríkissjóðsins fara til annara hluta?

það er því hin mesta nauðsyn, að reyna að losa ríkissjóðinn við eitthvað af gjöldum þeim, sem nú hvíla á honum, til þess að meira sje hægt að leggja fram til verklegra framkvæmda. En berklavarnirnar mun ekki fært að leggja á hilluna, og þá virðist ekki annað fyrir hendi en ná þessum kostnaði upp með sjerstöku gjaldi. Jeg geng þess ekki dulinn, að það muni hjá ýmsum verða óvinsælt, en jeg bið þá hina sömu að gæta þess, að þetta er gert til þess að stuðla að verklegum framkvæmdum í landinu, og sá tilgangur vona jeg að helgi þetta meðal.

Jeg skal geta þess, að jeg mun leggja fyrir þá nefnd, sem fær þetta frv. til meðferðar, 2 frumvörp, sem stjórninni hafa borist frá sparnaðarnefndinni. Er annað þeirra um breytingu á 14. gr. berklavarnalaganna frá 1921, en hitt um breyting á 77. og 78. gr. fátækralaganna frá 10. nóv. 1905. Bæði þessi frv. snerta greiðsluhlutfallið milli ríkis, bæja og sveita, og snerta að því leyti þetta mál, að ef þetta frv. skyldi ekki finna náð fyrir augum þingsins, kemur til álita breyting sú á berklavarnalögunum, sem sparnaðarnefndin stingur upp á í þessu frv., og sá sparnaður fyrir ríkissjóð, sem gæti leitt af breytingu á 77. og 78. gr. fátækralaganna. En því er ekki að leyna, að tillögur nefndarinnar binda sveitarfjelögum og sýslufjelögunum þyngri byrðar en nú bera þau, og það efast jeg um, að þyki fært, án þess að jafnframt sje sjeð fyrir tekjustofnum.

þegar þessi umr. er á enda, legg jeg til, að þessu frv. verði vísað til allshn.