13.03.1925
Neðri deild: 32. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í C-deild Alþingistíðinda. (2486)

7. mál, sjúkratryggingar

Björn Líndal:

Jeg er ekki vanur að standa upp til þess að gera grein fyrir atkv. mínu, en jeg geri það þó nú. Jeg skal þá strax lýsa því yfir, að jeg greiði atkvæði með rökstuddu dagskránni. Það er ekki brjef Berklavarnafjelagsins, sem hefir haft þau áhrif á mig, því jeg get tekið undir með hæstv. atvrh. (MG), að mjer finst það meira skrifað af kappi en forsjá og bera greinilega með sjer, að höfundur þess vill gera sjálfan sig betri í augum almennings en gott málefni.

Jeg skal taka það fram, að mjer líkar frv. ekki vel í mörgum atriðum; mjer líkar t. d. ekki 2. gr. og hvernig þeim álögum er háttað. Eigi að síður er jeg nefskatti fylgjandi á vissu aldursstigi, t. d. á ungt fólk. Það er flest jafnríkt af þeim auðæfum, sem mest er um vert, það á æskuþróttinn og þrekið. Það væri því sanngjarnt, að nefskattur til tryggingar gegn sjúkdómum og slysum væri lagður á fólk á aldrinum 16–30 ára, og mætti þá vel taka tillit til þess, hvort maður er ómagalaus eða ekki.

Það stappar nú nærri þjóðarböli, hve ungt fólk hefir mikið fje milli handa. Þess er fljótaflað og því er ennþá fljótar eytt, engum til gagns; oft því sjálfu til tjóns. Það er því siðferðilega rjett, að reyna að ná einhverju af því fje frá unga fólkinu, í þeim tilgangi, að reyna að koma í veg fyrir, að það verði öðrum til byrði, ef óhöpp og heilsutjón ber að hendi. Þetta gjald mætti svo að einhverju leyti miða við efnahag eftir 30 ára aldur.

Jeg vil taka það fram í sambandi við það, sem hv. þm. Dala. (BJ) sagði, að áhrif sveitarstjórna í þessu máli mundu lítt reynast til bóta, ef þær fengju þar mestu um að ráða. Kostnaður við framkvæmd berklavarnalaganna er svo þung byrði á sveitarstjórnum, að þær mundu sennilega grípa hvert tækifæri, sem býðst, til þess að reyna að ljetta þessari byrði af sjer, án þess að athuga nægilega afleiðingarnar.