04.05.1925
Neðri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (2495)

47. mál, laxa og silungaklak

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Jeg hafði ætlað mjer, í sambandi við annað mál, frv. um kynbætur hesta, að ávarpa hv. þm. Borgf. (PO) lítilsháttar fyrir hönd landbn., út af fyrirspurnum hans hjer nýlega um störf nefndarinnar, en held jeg hætti við það að mestu leyti, og get eins snúið mjer að þessu nú þegar.

Það er jafnan hægt um hönd að kasta illa sömdum og illa undirbúnum frv. inn í þingið og heimta svo, að nefndirnar vinni úr því og skili svo snemma áliti, að hægt sje að bjarga málinu áfram.

Ástæðan fyrir því, að svo lengi hefir dregist að skila áliti um afstöðu nefndarinnar til þessara tveggja frv., er sú, að bæði voru þau svo hroðvirknislega samin, að ekki var unt að lappa upp á þau, nema með ærnum tíma, og þurfti til þess aðstoðar að leita, bæði utan þings og innan. Hv. þm. hafa nú kanske sjeð, hvað orðið er úr hrossakynbótafrv. frá því, sem það áður var, og geta þá kanske farið nærri um, að einhvern tíma hafi það kostað, að koma því í það form, sem það hefir nú. Annars þykir það kanske undarlegt, að þetta þurfi helst að henda frv. þau, sem hv. þm. Borgf. er viðriðinn. En mjer hefir ekki komið þetta á óvart, því þetta er svo sem ekki einsdæmi á þinginu í vetur. Og jeg verð jafnvel að játa það, að jeg hefi stundum á undanförnum þingum leiðst til þess að standa með honum að ýmsum tillögum, sem mjer var sárnauðugt að gera, vegna þess, hvernig frá þeim var gengið, og síðar sjeð, að betur hefði verið ógert látið.

En af því að jeg er formaður landbn., þá hefi jeg ekki geð í mjer til þess að láta slíka vanskapninga sem þessi frv. hans eru ná fram að ganga, nema þá að gerbreyta þeim, enda er jeg svo skapi farinn, að jeg vil heldur leggja til, að frv. sje vísað frá en að Alþingi samþ. einhvern gallagrip, sem verður svo að fara að lappa upp á aftur á næsta þingi.

Annars hefi jeg litlu við að bæta það, sem jeg sagði áðan. Hv. þm. Borgf. (PO) tók flest það upp, sem hann hafði áður þulið við 1. umr. þessa máls, en aðeins með dálítið öðrum orðum og í breyttum tón. Hann dró það af orðum mínum, að úr því að við Mýramenn þyrftum ekki á samþykt að halda vegna þeirra klakhúsa, sem þar hafa verið bygð, þá líti jeg svo á, að hennar væri heldur ekki þörf annarsstaðar. Þetta er ekki alveg rjett; jeg sagði aðeins, að nefndin væri ekki alveg eins sannfærð um nauðsyn þessa, eins og hv. flm., en bæði í nál. og því, sem jeg sagði, er það viðurkent, að þetta geti orðið að einhverju liði. En það var einmitt vegna þess, að málið þolir bið, sem nefndinni fanst óþarfi að fara að tjasla við frv. hans og eyða miklum tíma í að lagfæra það, svo unt væri að bera það kinnroðalaust undir deildina, og komst að þeirri niðurstöðu, að afgreiða frv. svo sem hv. deild er kunnugt.

Um hitt, sem hv. þm. Borgf. mintist á, ágreining manna um það, hvort hentugt mundi að heimila meiri takmarkanir um ádráttarveiði, má altaf deila. Það hefir lengi verið deilt um hinar ýmsu veiðiaðferðir, svo hjer er ekki um neina nýlundu að ræða. Hann er aðeins á annari skoðun en jeg; það er alt og sumt, og það er vegna þessarar margumræddu Laxár, sem rennur um kjördæmi hans og hann getur ekki haft augun af.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira; býst við, að málið verði afgreitt eins og nefndin leggur til, úr því sem komið er. Það er ekki vegna þess, að nefndin vilji frv. illa, að hún hefir tekið þessa afstöðu, heldur með þeim forsendum, sem teknar eru fram í nál. Það, sem átt var við með hömlum á veiði til klaks, var ekki annað en það, að sett væri heimild í lög um takmarkanir á veiði eins seint á árstíma og nú á sjer stað. Og það er eftir bendingu frá meðnefndarmanni mínum, að minst er á þetta í nál. Því það er alveg sýnt, að síðan klakstöðvar komust á, hefir sumstaðar verið veitt of mikið, þegar komið var að klaki.

Jeg geri ráð fyrir, að væri heimildarlög til um þetta, að þau kæmi þá til framkvæmda þar sem þess virtist helst þörf.

Loks mintist hv. þm. Borgf. á, að kapp hefði verið lagt á að koma þessu máli fyrir kattarnef, með því að það hefði ekki komið frá nefnd í tæka tíð. Hann hefði eftir því ekki látið sjer fyrir brjósti brenna að koma því fram, þótt frágangur hefði ekki verið sem bestur.