17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

33. mál, lærði skólinn

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mentmn. hefir ekki getað orðið sammála um þetta frv., en hún er þó sammála um að afgreiða það með svofeldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem búast má við, að meiri kostnað muni af frv. leiða en nú þykir fært að ráðast í, og vænta má, að fleiri gögn muni innan skamms fram koma um málið, þá tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það stendur nú svo á, að það er ekki líklegt, að sjeð verði í svo ríkum mæli fyrir gagnfræðamentun af þessu þingi, að nægja mundi þörfum Reykjavíkurbæjar, ef þessi breyting á mentaskólanum næði fram að ganga. Í öðru lagi er einn af kennurum mentaskólans erlendis nú sem stendur, og kynnir hann sjer fyrirkomulag kenslumála og ferðast í því skyni um mörg þjóðlönd, og er það álit mentmn., að rjett væri að styrkja hann til þessa ferðalags, svo hann nái betur tilgangi sínum með því, og telur nefndin rjettara að bíða heimkomu þessa manns, til þess að heyra þá álit hans um þetta mál. Er þetta ekki síður rjettmætt en hitt, að málum er hjer á þingi frestað meðan beðið er eftir nál. þeirra nefnda, sem um þau eiga að fjalla. Telur mentmn. mál þetta ekki svo aðkallandi, að ekki megi það bíða nokkra hríð,

Af þessum ástæðum leggur nefndin til, að vísa þessu máli frá í þetta sinn með rökstuddri dagskrá. Þessvegna hefir nefndin ekki rætt verulega einstök atriði frv. Um aðalstefnu þess, hvort halda skuli tvískifting stúdentsprófsins eða taka upp forna siðinn, er nefndin skift.

Að þessu sinni væri rjettara, að umræður þær, sem nú fara í hönd, snerust sem mest eða eingöngu um dagskrártillögu nefndarinnar, en ekki um frv. sjálft. Verði dagskráin feld við þessa umræðu, þá kæmi fyrst til að ræða um frv.

Nefndin er sammála um að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, og vænti jeg því, að hv. deild ljái dagskránni samþykki sitt.