19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í C-deild Alþingistíðinda. (2512)

33. mál, lærði skólinn

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vil aðeins leyfa mjer að koma með örstutta athugasemd eða öllu heldur fyrirspurn til hv. flm. frv. (BJ). Jeg er einn af þeim síðustu, sem voru nemendur í skólanum undir gamla fyrirkomulaginu og var einnig í honum meðan nýja skipulagið var að byrja. Jeg er því málinu allvel kunnugur. En jeg verð samt að játa, að jeg hefi ennþá ekki fyllilega getað ráðið það við mig, hverja stefnu jeg tæki í þessu máli. En það er mjer ljóst, að ef frv. nær fram að ganga, þá verður óhjákvæmilegt að sjá Reykjavík fyrir nýjum gagnfræðaskóla, því eins og kunnugt er, hefir mentaskólinn ekki aðeins verið stofnun til að búa menn undir embættisnám, heldur hefir hann einnig verið gagnfræðaskóli fyrir bæinn. Þetta er því talsvert fjárhagsatriði, og þætti mjer gott að fá að heyra, hvernig hv. flm. (BJ) hugsar sjer, að hið nýja skipulag verði í framkvæmd, hverjar aðrar breytingar leiði af því og hvað hann geri ráð fyrir miklum kostnaði af þessu fyrir landið, eða hvort hann ætlast til, að Reykjavíkurbær beri kostnaðinn að nokkru leyti eða öllu. Jeg ætlast ekki til að hann svari þessu strax, fremur en hann sjálfur kýs. Jeg get vel beðið eftir svari til 3. umr.