19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2513)

33. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Hv. þm. (TrÞ) mun það fullkunnugt, bæði af því, sem jeg hefi sagt í þessu máli nú, og af því, sem jeg hefi haldið fram á fyrri þingum, að það hefir frá öndverðu verið skoðun mín, að lærð mentun ætti að vera sjerskilin frá öðru námi. Jeg hefi viljað, að af barnaskólafræðslunni tæki við gagnfræðamentun, sem krafist væri af öllum. Þeirri fræðslu eiga ungmennaskólarnir, sem í raun rjettri eru gagnfræðaskólar, að anna. Þessir skólar hafa verið stofnaðir af sýslufjelögunum með styrk úr ríkissjóði, sem numið hefir 2/5 hlutum stofnkostnaðar. Það, sem þá hefir vantað á, hafa hjeruðin lagt til, annaðhvort af eignum rammleik eða með styrk góðra manna. Sama á hjer að gerast, því jeg sje enga ástæðu til að gera mun á því, hvort hjeraðið heitir t. d. Strandasýsla eða Reykjavík. Hinsvegar veit jeg ekki, hvaðan Reykvíkingum eru komin rjettindi fram yfir aðra landsmenn til þess að hafa gagnfræðaskóla kostaðan til fulls af ríkinu. Því vil jeg láta þá annast sjálfa gagnfræðamentun sína, með styrk frá ríkinu, í sama hlutfalli og aðrir slíkir skólar hafa hann. Slíkt hið sama ætti líka að gilda um gagnfræðaskólann í Hafnarfirði, sem ríkið kostar nú. Hjer er og styrktur kvennaskóli, sem er gagnfræðaskóli, en jeg ætlast til, að gagngfræðaskóli bæjarins yrði sóttur bæði af piltum og stúlkum. Hin sjerstaka kvenfræðsla, svo sem matreiðsla og hannyrðir, ætti þá að taka við að gagnfræðanáminu loknu, sem einskonar háskóli kvenna, á líkan hátt og verslunarskóli er það fyrir verslunarmenn, er þangað sækja sjermentun að gagnfræðanámi loknu. Myndi margt sparast við þetta fyrirkomulag, ekki síst á kennurum og stundafjölda mentaskólans. Teldi jeg ekki ólíklegt, að 10 heilum kennurum yrði færra á eftir.

Hvað fjárhagsatriði málsins snertir, þá skal það játað, að jeg hefi ekki rannsakað það reikningslega. En áhöld myndi verða um kostnaðinn af öllu skólahaldinu fyrir ríkissjóðinn eftir sem áður. Hjer er ríkisskóli, sem um leið er gagnfræðaskóli fyrir Reykjavík, en sem sakir húsnæðisskorts og íhalds í fjárveitingum er allsendis ófullnægjandi bænum. Í skólann komast aðeins 20–30 unglingar á ári, en þyrfti að vera 150 –200, ef vel ætti að vera. Það er því hvorki heppilegt nje rjett að skeyta þannig saman gagnfræðaskóla og lærðan skóla, og ekki heldur rjett að taka Reykjavík út úr gagnfræðaskólakerfinu eins og gert hefir verið að undanförnu. En höfuðástæðan, sem fyrir mjer vakir, er þó sú, að aðskilja þessar tvær greinir mentunar, vegna þess, að þær geta ekki átt samleið.

Jeg ætlaði ekki að segja neitt um þetta mál nú, því að það verður nokkuð það sama og jeg sagði við flutning málsins; en það er aðeins af því, að hv. þm. Str. (TrÞ) var að spyrja mig, hvað jeg hugsaði frekar um skólamálin, að jeg sagði þetta. Hinsvegar mundi jeg vel geta freistað þess, að gera sennilega áætlun um muninn, en jeg hefi ekki gert mjer það ljóst, hvort það verður ríkissjóði gróði eða tap, ef hægt er að tala um tap í sambandi við mentun. Jeg er viss um, að það munar ekki því, á hvora hliðina sem er, að það megi standa í vegi fyrir þessum sjálfsögðu umbótum á mentamálum landsmanna. Svo sje jeg það í hendi mjer, að svo framarlega sem hv. þm. hugsa eins og þeim er lagið og þeir hafa gáfnafar og rjettlætiskend til, þá stendur þetta altaf í vegi fyrir því, að koma gagnfræðakenslunni í rjett horf og gera öllum hjeruðum jafnhátt undir höfði, svo lengi sem þessir landskostuðu gagnfræðaskólar eru til og frá um landið.