19.03.1925
Neðri deild: 37. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (2519)

33. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Jeg þakka þeim hv. þm. (MJ), sem síðast settist niður. Það getur verið, að það hafi ekki komið nógu skýrt fram hjá mjer, að jeg taldi hv. þm. Str. (TrÞ) ekki hafa rjett í því, að þetta mætti ekki sundurgreinast; það er eins og mönnum finnist, að ekki mætti gera annað, án þess að gera hitt um leið. En jeg vildi ekki sleppa tækifærinu, þegar hv. þm. (TrÞ) spurði mig, hvernig ætti að ráða fram úr þessu. Sjerstaklega vil jeg leggja áherslu á það, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði um þörf Reykjavíkur og hvernig Reykjavík er blandað inn í málið. Það er alveg rjett, að hún hefir sömu þörf fyrir gagnfræðaskóla, þótt þessi deild hafi verið skorin neðan af lærða skólanum, og Reykvíkingum er engin þægð í því, að börn þeirra dragist til að verða embættismenn, sem þeir hafa kanske ætlað að verða alt annað.

En jeg stóð upp til þess að gera athugasemd við orð hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). Hann virtist skilja það svo, að jeg vildi blanda mjer saman við hann og vildi jafnframt í kenslumálaskoðunum njóta stuðnings af hans ágæti. Það var ekki meining mín, heldur vildi jeg segja það, að í frv. því, sem þessi hv. þm. (ÁÁ) hefði flutt, lægi fyrir úrlausn á gagnfræðaskólamálum landsins. En hitt sje jeg, að við mundum að líkindum ekki verða sammála um aðskilnað þessara mentagreina hjer í landinu, og af því að jeg bjóst ekki við að þurfa að kveða neitt fastar að, ljet jeg útrætt um þetta, án þess að jeg væri að skjóta mjer nokkuð undir hans verndarvæng. En þegar hann kveður það verða myndi þjóðinni til tjóns, ef jeg fengi að ráða í þessu máli, þá þykir mjer vænt um að heyra slíkt af vörum hans. Það er mjer næg sönnun þess, að jeg sje á rjettri leið.