15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (2522)

33. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Þegar jeg bar þetta mál fram, mintist jeg á það, sem mjer fanst vera höfuðatriði, og vil jeg ekki endurtaka það. En þó vil jeg í sambandi við eitt atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ), sem er mjer að mestu sammála, bæta því við, að jeg hefi valið latínuna sem höfuðnámsgrein af sjerstökum hagnaðarástæðum. Jeg gat um þetta, þegar jeg flutti málið, og get sagt það enn, að þó jeg hafi lesið latínu, þá hefi jeg aldrei skoðað hana sem sjerstakt kraftameðal, sem öllu tæki fram. Jeg mundi sjálfur helst kjósa stærðfræði til þess að kenna afleidd rök, og náttúrufræði til þess að kenna aðleidd rök og vekja eftirtekt. En það, að jeg hefi ekki valið þessar námsgreinir, er af ástæðu, sem jeg vona, að jeg geti fengið hv. þdm. til að skilja.

Til þess að kenna náttúruvísindi á þann hátt, sem jeg nú nefndi, þarf bæði fysiskt og kemiskt laboratorium, vel útbúið að áhöldum, og tíma til þess að nemendur geti lært þessi fræði verklega. Annars er ekkert gagn í þessu fremur en áður, þegar menn lærðu grasafræði, án þess að sjá nokkurt gras, og dýrafræði, án þess að þekkja nokkurt dýr. Slíkt er auðvitað öldungis ónýtt. Auk þess mundi þurfa framúrskarandi kennara, sem efasamt er, hvort hægt yrði að fá. Jeg veit t. d. ekki betur en að nú sje svo ástatt við mentaskólann, að vegna þess, að maður dó nýlega, þá sje enginn til þess að gegna þessu starfi. Það mundi því sennilega lengi vanta mann í slíkt skarð við skóla, sem ætlaði að byggja alt námið á þessum vísindum. En ástæða sú, er jeg nefndi, og hv. þdm. ættu að geta skilið, er þessi, að rannsóknarstofur í efnafræði og eðlisfræði mundu verða reglulega dýrar stofnanir, og með því örlæti, sem hjer tíðkast, mundu aldrei fást þær fjárveitingar, sem þyrfti, og yrði svo þessi kensla og það, sem á henni yrði bygt, tómt kák. Þar á móti er latína skýrt mál og undarlega ljóst og glöggt, þó það sje allerfitt, og því vel til þess fallið að æfa gáfur og skilning nemanda. Og þar hafa menn kensluvenjur, mörg hundruð ára gamlar, sem ekki eru dauðar enn; við, sem nú erum fullorðnir, þekkjum þær. Það er ekki rent blint í sjóinn; við getum fengið menn, sem geta kent latínu. Annar höfuðkostur latínunámsins er sá, að ekki þarf annað en bæta við skólann málfræðingum, orðabókum og bókum til þess að lesa, svo að sá mikli kostnaður, sem breyting skólans eftir mínu fyrra áformi hefði í för með sjer, hverfur að kalla.

En það, að jeg valdi latínuna í stað íslenskunnar, kom af þeirri ástæðu, áð Íslenskan er of ljett til þess að geta verið viðfangsefni fyrir unglinga að læra. Því allir Íslendingar hafa lært íslensku við knje móður sinnar svo vel, að ef kenna ætti hana til þroska unglingum, þá yrði að gera sömu kröfur og háskólinn gerir nú til cand. mag. Hitt má og nefna, að hjer eru engar kensluvenjur til, og jeg veit ekki, hvort völ er á svo góðum mönnum í þessari grein, að vert sje að ætla þeim að skapa þær venjur. Það eru því líkur til þess, að bæði kennarar og nemendur mundu leggja litla rækt við þetta nám, af því að þeim fyndist það of heimabakað.

Hjer hefi jeg fengið brú til þess að komast að brtt. hv. 4. þm. Reykv. (MJ). Hann getur ekki sjeð það, að þetta frv. sje skrifað á tungu landsmanna. Hann vill hafa próf, stúdent o. s. frv., og það er undarlegt, að hann skuli ekki líka vilja hafa censora og explicandum og alt þvílíkt (ÁJ: Eða Goethe!) Jeg skil ekki, hvað hv. þm. meinar. Jeg held, að það snjói eitthvað úr öfugri átt. — Hv. 4. þm. Reykv. vill ekki hafa ársreynd nje sannreynd eða fullreynd, heldur stúdentspróf o. s. frv. Hann virðist ekki gæta þess, að stúdent er ekki annað en hluttaksorð nútíðar af studeo: jeg nem. Hitt er satt, að það er gömul venja að nefna þetta svo, og hefir ekki þótt taka því, að taka hjer upp nýyrði, en undarlega fá Íslensk orð til yfir þetta. En jeg segi eins og Rómverjar hinir fornu: sigraðir menn verða að láta sjer alt lynda. Hjer þykir það glæpur að kenna menn til feðra sinna. Og það þykir líka glæpur að taka gömul mállýti úr tungunni og varpa þeim á brott. Jeg læt mjer þetta að kenningu verða, því Alþingi hefir ætið sýnt það, að það er óþjóðlegasta stofnun, sem til er í landinu. Það eru ekki nema örfá ár síðan Alþingi ákvað, að gríska orðið „kilioi“ skyldi margfalda, en latneska orðið „mille“, sem er þýðing á hinu, skyldi deila. Jeg mundi ekki vilja hafa stærðfræði að höfuðnámsgrein í skóla, þar sem reikningur væri kendur á þennan hátt. Jeg býst við því, að mönnum mundi ógna alment, ef þeir vildu gera sjer þetta ljóst, t. d. muninn á kílómetra og millimetra, eftir orðanna hljóðan (TrÞ: Þetta gera stórþjóðirnar!) Jú, það er svo sem sjálfsagt, úr því stórþjóðir gleypa við þessu, að þiggja þá ekki góð íslensk heiti. Jeg man eftir því, að að því var hlegið í mörg ár, er við Guðmundur Björnsson vorum hjer með till.um heitið hundstika í stað centimetra. Það var auðvitað sett í samband við hundana, en engum datt í hug, að það ætti skylt við hundrað. Nei. Svo hlógu þeir lengi að þessari hunda-fyndni sinni. Jeg skal játa, að jeg verð mjög glaður, ef mál þetta nær fram að ganga, þó ekki verði frv. á hreinni íslensku, ef menn vilja endilega hafa áfram þessi tökuorð, sem þeir virðast hafa svo gaman af að fóstra. Jeg læt það ekki standa fyrir, ef frv. nær að ganga fram óbreytt í höfuðatriðum.

Jeg skal þó geta um eina brtt. hv. 4. þm. Reykv. (MJ) við 12. gr. frv., þess efnis, að hver fastur kennari skuli eiga leyfi 10. hvert ár. Hjer er að ræða um sjálfsagða viðurkenning, og þarf jeg ekki að ræða frekar um það. En að jeg kom ekki með slíka till., stafaði blátt áfram af hugleysi. Jeg hugsaði um það mest, að gera frv. svo úr garði, að hv. þm. gætu samþykt það, en taldi, að það mundi verða erfiðara, ef þessi aukakrafa kæmi fram.

Þá er till. á þskj. 272, sem jeg er sömuleiðis feginn, að kom fram. Hún ræðir um heimavistir við skólann. Það hefir ætíð verið mitt áhugamál viðvíkjandi þessum skóla, að við hann væru heimavistir, þar sem þessir ungu menn, sem allir vinna að sama starfi, byggju undir sama þaki og gætu notið samvistanna til þess að skiftast á hugsunum, bæði í herbergjum og fundarsal, sem sjálfsagt er að fylgdi heimavistinni, eða hljóðfærastofu og söngstofu. Slíkt samlíf er meir mentandi en sjálfur lærdómurinn. Lærdómurinn án þess er eins og brauð án smjörs. Þetta samlíf, samfara lærdóminum, skapar metnað og kapp, sem er það afl, er oft dregur lengst áfram á mentabrautinni. Það tryggir þeim sæmilega bústaði, í stað þess að þeir verða nú að húka í þakherbergjum hingað og þangað út um bæinn, þar sem þeir hafa enga tryggingu fyrir, að ekki verði það þeim til stórtjóns, að þeir hafa nokkru sinni komið nálægt skólanum, því þá er það alveg undir heppni komið, hvort þeir lenda hjá góðu fólki eða ekki og hvort þeir missa heilsuna eða ekki.

Jeg er alveg viss um, að þetta er hið mesta gróðafyrirtæki, sem hægt er að leggja í. Er það nokkurskonar lífsábyrgð, og er jeg hv. þdm. þakklátur fyrir tillögur þeirra.

Þykist jeg nú hafa lýst því skýrt, hvað fyrir mjer vakir, og verður að ganga töluvert á í málinu áður en jeg taki til máls aftur.