15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

33. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla, að danskur málsháttur einn hljóði svo: „Jeg get heyrt margt, áður en eyrun detta af mjer.“ Þau sitja nú enn á mjer, þótt búinn sje jeg að hlusta á ýmsa visku hv. þm. í þessu máli, og hana allstrembna.

Hv. þm. Barð. (HK) vill vísa þessu máli til stjórnarinnar. Já, það er von! Áður en málið var svo undirbúið sem nú er það, greiddi þessi hv. þm. atkv. móti dagskrá þeirri, sem þá átti að fresta því með. Var stjórninni þá falið málið og milliþinganefnd sett í það. Hún hefir nú setið á rökstólum, gefið út frv. og fært ástæður sínar fyrir því.

Síðan hefi jeg borið þetta fram ár eftir ár. Og þær breytingar, sem jeg hefi gert á frv. nefndarinnar, eru mjer ekkert kappsmál. Þetta er því alveg sama frv. Og þessi undirbúningur hefir talist allsæmilegur hingað til.

Jeg verð ennfremur að segja, að þó vera kunni, að undirbúningur minn sje ekki mikill og þekking mín á kenslumálum bágborin, þá hefi jeg þó verið í latínuskóla og háskóla. Jeg hefi að vísu ekki tekið glæsileg próf, en hitt ætla jeg engan hafa efast um, að kunnátta hafi verið næg. Síðan hefi jeg fengist við kenslu alla æfi, alt frá því er Helgi heitinn bróðir minn byrjaði að læra að lesa. Ef þessi undirbúningur er ekki nægilegur til nokkurs skilnings á kenslumálum, þá öðlast jeg hann aldrei. Og á þessum undirbúningi hvílir mín skoðun, og frv. er afleiðing af honum og þeirri reynslu, sem jeg hefi fengið í kennarastarfi, er ræður því, að jeg lít þannig á þessi mál. Hv. þm. (HK) getur því varla talað um flaustur, og úr því hann fylgdi málinu 1923, þá samir varla að finna upp á því, að vísa því nú til aðgerða stjórnarinnar. Það myndi jeg því aðeins gera, að stjórnin fylgdi minni skoðun. En jeg á ekki þess kost, að stjórna stjórninni, svo sem flokksmenn hennar gera.

Þá vildi jeg beina fáum orðum að hv. þm. Str. (TrÞ). Jeg mun ekki svara öllu, því að jeg heyrði það ekki. Svo var og um ræðu hv. þm. Ak. (BL).

Hv. þm. Str. (TrÞ) kvað þetta mál ekki nægilega undirbúið. En jeg segi: það er fullvel undirbúið. Það er bygt á áliti milliþinganefndar og þeirri litlu þekkingu, sem jeg hefi á kenslumálum. Hv. þm. vill ef til vill bera brigður á það, að hún hrökkvi langt. En jeg ætla þá að gerast svo djarfur að segja, að innan þessara veggja eru ekki þeir aðrir, er betur hafi vit á þessu en jeg, og að þeir, sem best vita, eru mjer sammála. Það er sanngjarnt, að hv. þm. (TrÞ) vill ekki breyta um skipulag, nema hann viti, að breytt sje til batnaðar. En það er ekki mjer að kenna, að hann veit ekki betur. Jeg hafði hann ekki undir minni hendi nema í 3. bekk, og hefði jeg haft hann 3 vetrum lengur, hefði hann og vafalaust vitað þetta. (TrÞ: Jeg verð þá að koma í grísku.) Þm. kann nú orðið allmikið í grísku og hefir fengið góðan vitnisburð. Annars kemur það ekki málinu við. En þetta, sem hv. þm. (TrÞ) segir, bendir til þess, að hann eigi bágt, því þekking hans segir honum, að hann eigi að vera þessu frv. fylgjandi. Í stað þess er hann að koma með allskonar spurningar til mín. Hann veit, að hann er jafnfær um að svara þeim og jeg, en hann vonar, að jeg nefni einhverjar þær tölur, sem fæli þm. frá að samþykkja þetta. Hv. þm. (TrÞ) blandar saman tvennu gerólíku. Jeg sagði um daginn, að skólakerfið ætti að vera þannig, að lærður skóli vœri, og tæki við af honum háskóli. Þá væru gagnfræðaskólar að auki í hverjum fjórðungi. Þetta þarf ekki að vera bundið hvað við annað. Tökum til dæmis gagnfræðaskólann í Reykjavík, þennan neðri hluta almenna mentaskólans. Hann fullnægir hvergi nærri Reykjavík, því það eru ekki nema um 20 manns úr bænum, sem komast í hann árlega. Þörf Reykjavíkur fyrir gagnfræðaskóla er alveg söm, hvort sem hún hefir þennan eða ekki, og væri um vilja bæjarbúa spurt, þá mundu svörin verða á þessa leið: Ef þið ætlið að gera eitthvað í þessu máli mjer til þægðar, þá þurfum við fyrst og fremst gagnfræðaskóla, sem tekur þrefalt eða fimmfalt fleiri unglinga en neðri hluti mentaskólans nú.

Og þetta er krafa, sem hlýtur að koma, ef mentaskólanum verður ekki breytt. Og af þessu myndi leiða meiri kostnað en af öllum grýlunum til samans, sem barið er við breytingunni. Hvernig hv. þm. Str. (TrÞ) komst að því, að Hafnarfjörður yrði að taka Flensborgarskólann og Akureyri gagnfræðaskólann þar, ef breytingin kæmist á, það er hlutur, sem jeg fæ ekki skilið. Það stendur í sambandi við alt annað frv. En þó slitið sje sambandi milli skólanna, geta þessir skólar staðið um aldur og æfi. Þetta er aðeins draumur. Hitt er aftur á móti rjett, sem hv. þm. (TrÞ) sagði, að heimavistanna verður að taka tillit til og þess kostnaðar, sem af þeim leiddi. En það er svo merkilegt mál, að þar má alls ekki horfa í neinn kostnað, því það varðar beinlínis heilsu og þroska unglinganna. Þegar jeg var í skóla, þá svaf jeg í Langaloftinu og nokkurn tíma í Litlaloftinu. Þá var lesið í bekkjunum. Þetta gekk vel. Og ef ekki þyrfti að taka hvert skot til gagnfræðanáms, þá er í skólanum sama rúm og var. Þarf þá ekki annað en að slá niður milligerðir þær, sem settar hafa verið milli herbergja á loftinu. Með tímanum þyrfti kanske að byggja hús. Hvað það kostaði, er ekki unt að segja að svo stöddu, enda er jeg þess fullviss, að þess myndi ekki þurfa í bráð. Hitt vita allir, að þetta fyrirkomulag myndi spara 12 kennara. Reikni menn, hvað mikið það er!

Að því er snertir Norðlinga og skólann þar, þá kemur hann ekkert við þeim breytingum, sem gerðar kynnu að verða á skólanum hjer. Þegar Norðlingar vildu fá lærðan skóla, var jeg á móti því, af því þeir ætluðu að bæta við 3 bekkjum og auka einum kennara við þá, er fyrir voru. Hitt var sýnt, að jafnmarga kennara myndi þurfa og hjer með einskiftum bekkjum. Jeg andmælti þessu eingöngu af sparnaðarástæðum, því þegar alt ymur hjer frá lofti til gólfs af sparnaðarhjali, þá þótti mjer lítið samræmi í því, að bæta við 4–5 nýjum embættismönnum.

Það er ekki jeg, sem hefi á móti, að til væru 2 eða jafnvel 3 lærðir skólar á landinu. En þá þarf að leysa frá buddunni. Og það er ekki jeg, sem fastast held í þann spotta. (TrÞ: Nei!) –Þm. segir nei, alldrýgindalega. En jeg segi drýgindalega: Það er ekki jeg. Hv. þm. (TrÞ) heldur, að jeg kunni ekki málsháttinn „festina lente“. En hefir hann ekki tekið eftir, að einmitt svo hefi jeg farið að.

Það eru mörg herrans ár síðan jeg flutti þetta fyrst. Síðan hefi jeg látið mjer lynda, að það væri tafið með heimskulegum mótbárum og ekki sagt hart orð í nokkurs manns garð. Er þetta gauragangur ? 7–8 ára þolinmóð bið. Festina lente! Hafi þm. það sjálfur hugfast! Þó að hann hafi ekki beðið 6–7 ár, þá hefi jeg gert það, og ef allir eiga að bíða 6–7 ár, hver eftir annan, vænti jeg, að biðin verði svo löng sem töluröðin, og þurfa menn þá ekki að óttast, að mentun vaxi í þessu landi. Þetta er fyrirsláttur, alt saman fyrirsláttur.

En hversvegna? Eru hv. þm. hræddir við landsmenn? Þess þurfa þeir ekki, ef þeir láta frv. ganga fram. En vari þeir sig ella, því skoðun mín er drotnandi meðal fjölda fólks í landinu.

Það er fullkomin vanþekking, að vera á móti frv. Fyrirkomulagið, sem nú ríkir, spillir tíma og fje unglinganna um 3 ár. Að vilja halda í það, er að gera sitt til þess að drepa niður mentun og menningu í þessu landi.

Benda vil jeg hv. þm. á það, að ekki er það mín vegna, sem jeg flyt þetta frv. Jeg ætla ekki að verða kennari við þennan skóla. Þeir ljetu mig vera mörg ár um að koma hjer fram frv. um löggilta skjalþýðendur, af ótta við það, að jeg ætlaði mjer þann starfa. Jeg er heldur ekki verst staddur að kenna mínum eigin sonum, eins vel og nú tíðkast, gutlfræði þau, sem farið er með í þessu landi, og það annað, sem jeg ætla, að betra sje.