15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

33. mál, lærði skólinn

Hákon Kristófersson:

Jeg tók svo eftir, að hv. flm. (BJ) vildi fá það út úr orðum mínum, að jeg vefengdi það, að hann hefði vel vit á kenslumálum. En þetta er ekki rjett. Jeg tók það fram áðan, eins og oft fyr, að jeg teldi, að hann væri einmitt mjög vel fær til þess að koma fram með hagkvæmar tillögur í skólamálum, að því leyti sem þau ekki snertu fjárhagshliðina. Hitt er annað mál, þótt jeg segði, að þetta mál væri ekki svo vel undirbúið, að mínu viti, að ekki mætti gera það betur. Eins förlaðist hv. þm. (BJ) sýn, er hann sagði, að jeg hefði brosað, er hann talaði síðast. Svo var alls ekki, og mun hann hafa litið til mín með helsti lítilli góðgirni, er honum fjellu þau orð af munni. Hann vildi beina því til mín, að jeg teldi það nýjasta í málinu vera kostnaðarhliðina. En það vill nú svo til, að engin kostnaðaráætlun liggur fyrir, og til þess hnigu orð mín, að einmitt með betri undirbúningi málsins til næsta þings eða svo mætti við því búast, að hægt væri að ganga til grunns, hvað þetta atriði snerti, svo að hv. þdm. vissu, um hvað þeir væru að greiða atkv. Eins og jeg tók áðan fram, er það síður en svo, að jeg vilji sýna þessu stórmerka máli nokkra vansæmd, og mjer er alls ekki ljóst, að það væri neitt rothögg á það, þótt framgangi þess sje frestað um eitt ár. Hv. þm. (BJ) sagði, að jeg hefði skift um skoðun í málinu og studdi orð sín með því, að benda á, að jeg hefði fyrir nokkru greitt atkv. á móti rökstuddri dagskrá, sem kom fram. En þetta sannar ekkert, að jeg hafi skift um skoðun. Jeg hefi ekki gert það, en það er eingöngu vegna þess nýja, sem nú hefir fram komið í málinu, að jeg kýs að fara þessa leið, sem jeg hefi lagt til. Hv. þm. var að ógna mjer og öðrum með reiði kjósenda. Jeg hefi nú sjeð þá hríslu svo oft reidda áður af hv. þm (BJ), að jeg hleyp ekki í kút við það. Annars skil jeg ekki, hvað hv. þm. (BJ) gengur til þessa. Jeg hefi mælt með fullri vinsemd bæði um málið og hann í heild, og get ekki talið honum neinn vansa gerðan, þótt málinu sje nú vísað til hæstv. stjórnar. En það kýs jeg fremur en að verða að samþ. þá rökstuddu dagskrá, sem hjer lá fyrir.

Hæstv. forsrh. sagðist ekki skilja, hvaða þýðingu það hefði, að fara þessa leið, en hinsvegar virtist mjer hann alls ekki vera á móti því, að svo væri gert. En jeg verð nú að segja, hvað mig snertir, að jeg treysti hæstv. stjórn vel, hjer sem í öðrum málum, og jeg býst við, að hún myndi rannsaka fyllilega, hvaða útgjaldaaukning þetta myndi hafa í för með sjer, en það er nú, að mínu viti, alveg órannsakað.

Hæstv. forsrh. benti á, að stjórnin hefði heimild til að breyta skólanum, án þess, að frv. væri samþ. Þá er mjer spurn: Því er verið að berjast um þetta mál þing eftir þing hjer í þingsalnum? Jeg verð að segja, hvað mig snertir, og jeg ætla, að svo sje og um marga aðra hjer, alveg að þeim ólöstuðum, að jeg hygg, að hæstv. stjórn muni hafa miklu meiri þekkingu til brunns að bera á þessum málum en við. Því væri jeg því fegnastur, að þurfa alls ekki að greiða atkv. um þetta mál, því að svo kynni að fara, að atkv. mitt fjelli ekki á rjettan hátt. Og eins og jeg sagði fyr, þá hefi jeg stungið upp á þessari leið, að vísa málinu til stjórnarinnar, af því að jeg álít því best borgið á þann hátt og hv. flm. (BJ) algerlega vansalaust, að svo sje að farið. Hv. flm. (BJ) benti á þann mikla sparnað, sem þetta mál hefði í för með sjer. Það sparaði heila 12 kennara, sagði hv. þm. (BJ). En eftir öllum sparnaðarrökum hans, trúi jeg nú illa, að svo mikill sparnaður hljótist af þessu. Jeg læt ekki segja mjer þá sögu, að þessum 12 kennurum sje umsvifalaust fleygt út á gaddinn af hv. þm. Dala. (BJ). Ætli þá færi ekki eitthvað að bóla á þeim háværu röddum, sem hjer hafa oft hljómað um þingfyrirheit og annað þessháttar? Ætli þess yrði ekki krafist, að þjóðfjelagið sæi á einhvern viðunanlegan hátt fyrir þessum mjög merku heiðursmönnum, veitti þeim nýjar stöður, þangað til þeir af einhverjum orsökum segðu sig þá sjálfir frá þeim Jeg finn enga ástæðu til að fjölyrða meira um málið. Jeg segi eins og hv. flm. (BJ), að hvað, sem mælt er í minn garð, læt jeg afskiftalaust. Jeg hefi sagt þessi fáu orð, sem jeg hefi látið falla, í fullri vinsemd og vildi engan styggja, síst hv. flm. (BJ), sem nú sem fyr ber málið fram af ærlegum umbótaáhuga, og á því engin ámæli skilin, hvorki frá mjer nje öðrum.