15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

33. mál, lærði skólinn

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mjer þykir fyrir, að hæstv. forsrh. og kenslumálaráðherra (JM) er ekki viðstaddur í deildinni, því það var einkanlega vegna hans ummæla, að jeg fann mig knúðan til þess að taka til máls. Hæstv. forsrh. sagðist taka það svo, ef málinu væri vísað til stjórnarinnar, að hæstv. stjórn væri falið að gera það, sem henni sjálfri sýndist um breytingu á skólanum. En hvorki í umr. nje till. felst neitt, sem gefur minsta tilefni til, að þessi skilningur sje lagður í till. Á öllum þingum, sem hafa haft þetta mál til meðferðar, hefir ekki komið annað fram en að þingið vildi hafa valdið um þetta mál. Og þegar hæstv. stjórn á sínum tíma lagði fyrir þingið frv. um lærðan skóla, þá viðurkendi hún, að svo ætti að vera, að þingið hefði úrskurðarvald um málið.

Enda er svo um alla skólastarfsemi, að þingið ræður skipun hennar, en stjórnin setur aðeins reglugerðir um nánari framkvæmd laganna. Svo er og í öðrum löndum, að þjóðþingin ráða heildarskipun skólanna. Því sje jeg ekki, þar sem stjórnin hefir áður lagt fram frv. um lærðan skóla og hv. þm. Dala. (BJ) hefir nú borið frv. sitt fram á þinginu, að nokkur ástæða sje til að leggja annan skilning í þessa till. en þann, sem vant er, þegar málum er vísað til stjórnar. Menn gera það af nokkuð misjöfnum hvötum, sumir leggja slíkt til af því að þeir vilja eyða málunum, og svo mun vera um flesta í þessu máli. Aðrir vilja með þessu móti fá málin betur undirbúin. Annað en þetta tvent er ómögulegt að ætla, að liggi á bak við þessa till., fremur en aðrar slíkar.

Hæstv. forsrh. (JM) las upp part úr ræðu eftir hv. 4. þm. Reykv. (MJ). þar sem skólamentuninni var líkt við húsagerð. Virtist hann mjög ánægður með þá líkingu. En ef líkingin er talin fullnægjandi, verður að ætla, að þeir, sem aldir eru upp fyrst í barnaskóla, og þá gagnfræðaskóla, síðan mentaskóla og loks í háskóla, fái utan um sig hvert húsið á fætur öðru. Þarf ekki að svara slíku sem þessu. Hlýtur mörg vitleysan af því að spretta, þegar lífrænum hlutum er líkt við dauða hluti, og talið er, að allur sannleikur felist í líkingunni.

Hæstv. forsrh. ljet enn í ljós, að allir, sem vit hefðu á þessum málum, skoðuðu tvískiftinguna óheppilega og álitu betra að hverfa að fornu skipulagi. Jeg stend ekki hjer til þess að votta það, að jeg hafi fremur öllum öðrum vit á þessum málum. En jeg vil benda hv. deild á það, að fleiri menn en þeir, sem í okkar landi búa, bera skyn á þessi mál og hafa um þau hugsað, og þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu, að þessi tvískifting væri heppileg. Jeg veit ekki, hvernig þessu er varið í Noregi, en í Svíþjóð og Danmörku hefir þetta verið rannsakað vandlega, og þar mun ekki koma til mála, að tvískiftingin verði afnumin. Í móðurlandi þessa skipulags, Sviss, sem er rómanskt land, er þessari tvískiftingu haldið, og engar raddir heyrast þar gegn því, að svo verði framvegis. Þessi tvískifting er vaxin upp af hinu „demokratiska“ þjóðskipulagi, og því liggur nærri að taka Sviss og Norðurlönd til fyrirmyndar. Tvískiftingunni fylgja margir og ágætir kostir, m. a. sá, að ekki þarf að ákveða strax á barnsaldri lífsstarfið. Það er mikill ókostur, ef ákveða verður á 10–12 ára aldri, hvaða braut ganga skuli. Þá ákveða menn ekki lífsstarf sitt sjálfir, heldur foreldrarnir, og venjulega verður það þá efnahagurinn, sem ræður. Tvískiftingin ræður bót á þessu, og því er hún vinsæl annarsstaðar. Menn eiga að fara í skóla af því, að þeir sjeu vel til þess fallnir, en ekki af því, að þeir sjeu sendir af foreldrunum eða ríkum frændum.

Það hafa verið taldar til ýmsar námsgreinar, sem ekki þykja vel fallnar til þess að kenna í tvískiftum skólum, m. a. saga. Þar sje kent hvert yfirlitið eftir annað, eitt í barnaskólum, annað í gagnfræðaskólum og þriðja í lærdómsdeild. Jeg skal fúslega játa, að þetta er röng aðferð. En það fæst aldrei svo stórt yfirlit, að nægi óskiftum skóla. Í svona skólum á að lesa eitt yfirlit, sem hægt er að ljúka á 1–2 árum, og það má gera í gagnfræðadeildinni. Í lærdómsdeildinni á svo að taka sjerstaka kafla sögunnar, en alls ekki nýtt yfirlit. Þessi námsgrein hefir helst verið tilfærð hjer gegn því, að tvískifta námi til stúdentsprófs, en hvergi annarsstaðar svo jeg viti, enda er sagan mjög illa til þess fallin, að sanna nauðsyn óskifts skóla. Þetta sífelda tal um námsgreinar, sem ekki þoli skiftingu, hefir við engin rök að styðjast. En það tæki of langan tíma að ræða hjer um hverja námsgrein rækilega. Það er annað miklu hættulegra, sem liggur til grundvallar fyrir þessari baráttu móti tvískiftum skóla. Það er þetta sífelda tal um gagnfræðamentun fyrir lífið, eins og gagnfræðamentunin sje aðeins fyrir þennan táradal jarðarinnar, en vísindanámið fyrir hina, sem geti lyft sjer upp í hæðirnar og hvergi þurfa að koma við jörðina. Svona tvískifting er ekki til í lífinu. Þetta er tóm bábilja og ekkert annað. það sjest af því, að hvort sem menn ganga í barnaskóla eða gagnfræðaskóla eða mentaskóla, fer námið eftir sömu reglu. Það er verið að nema niðurstöður vísindanna og aðferðirnar til þess að finna þær. Árangur námsins fer ekki mest eftir því, hvort um er að ræða barnaskóla eða latínuskóla, heldur er mest komið undir ágæti kennaranna. Og þeir, sem best kenna, reyna fyrst og fremst að gera nemendurna sjálfstæða í hugsun, ala upp dómgreind þeirra og óhlutdrægni. En þetta er jafnnauðsynlegt í öllum skólum. Þessi tvískifting milli gagnfræðanáms og vísindanáms, sem talað er um, er hvergi til. Jeg hefi gengið í gegnum barnaskóla, gagnfræðaskóla, lærdómsdeild og háskóla, og jeg gat ekki fundið, hvar vísindanámið tæki við af gagnfræði daglega lífsins. Mjer fanst námið áþekt alstaðar, og munurinn aðallega fólginn í því, hvernig kent var. En ágætir kennarar hafa alstaðar líka aðferð, í hvaða skóla sem þeir kenna. Við sjáum líka, að ekki urðu allir vísindamenn, sem bjuggu við gamla fyrirkomulagið. Nei, vísindamenn, sem ryðja brautir, verða ekki framleiddir með reglugerðum. Það stendur ekki í valdi neins þings, hvernig þeir verði til. Þar kemur til greina gáfnafar, sem ekki er háð neinni skólareglugerð eða lagastaf. Þetta er grundvöllur málsins, eins og það er hjer rætt. Og svo á latínan að vera aðalmeðalið til þess að ala upp sanna vísindamenn! Það er eðlilegt, að áhersla sje lögð á latínuna í rómönskum löndum. Og þó er ekki eins mikil áhersla lögð á hana þar eins og gert er ráð fyrir að hjer verði, eftir þessu frv. Latínan er að vísu klassískt mál, en það hefir hvergi sýnt sig, að hún ein hafi skilyrði til þess að gera hugsandi menn úr nemendunum. Okkar þjóð hefir aldrei staðið á lægra menningarstigi en þegar latínan var hjer sem voldugust. Ef endilega þarf að hafa eitthvað til þess að greina lærða menn frá ólærðum, mætti notast við annað ódýrara, t. d. langar neglur, eins og hjá Kínverjum.

Latínan var eitt sinn gagnfræði, og þá var hún nauðsynleg, af því að lærðir menn töluðust við á því máli. Hún var ekki kend þá af því, að hún ein gæti skapað vísindi eða hugsandi menn, heldur af því, að hún var þá beinlínis gagnfræði. Latínan er göfugt mál, og þeir, sem hugsa mest um beygingar og endingar, níða auðvitað ensku og önnur þesskonar mál. En ef að er gáð, þá er málið meðal til þess að láta í ljós hugsanir. Og það mál verður að meta mest, sem best þjónar þeim tilgangi.

Jeg hefi einkum lesið ensku, og jeg verð að segja, að jeg þekki ekkert mál, sem tekur enskunni fram um það, að lýsa öllu því, sem býr í hugskoti mannanna. Það er viðurkent, að enskar bókmentir eru miklu auðugri en latneskar bókmentir. Rómverjar voru engin sjerstök bókmentaþjóð. Hermenska og stjórnmál voru þar efst á baugi. Cato t. d. og fleiri höfðingjar fyrirlitu grísk áhrif, en Grikkir voru mikil bókmentaþjóð. Það er fásinna, ef miða á við göfgi bókmentanna, að hefja latínu til skýjanna, en níða enskuna. Þó að hægt sje að skrifa verslunarbrjef á ensku, þá rýrir það ekki gildi hennar. Og þótt ekki sje hægt að nota latínuna í þarfir viðskiftalífsins, þá verður hún þar fyrir engu ágætari.

Jeg held, að latína sje kend nægilega mikið hjer í mentaskólanum. Ef tíminn er notaður vel, hygg jeg, að nemendur geti öðlast sæmilegan skilning á venjulegu latnesku máli, þó að ekki sje varið til þess meiri tíma en nú er. Það er líka til vottorð frá hv. þm. Dala. (BJ) um, að stúdentar, sem til hans hafa komið eftir að nýja reglugerðin gekk í gildi, skilji sæmilega latínu. Jeg man, að þau ummæli voru höfð eftir Birni M. Ólsen, að stúdentar gamla skipulagsins gætu hvorki skrifað latínu nje talað, nema með þeirri fyrirhöfn, sem enginn leggur á sig ótilknúður af yfirvofandi prófi. Það var óánægjan með latínuna, sem ruddi henni úr vegi. Þá leit hún út í augum manna eins og ugla, sem allir vildu losna við. Nú er hún máluð upp eins og uglan hafi verið drotning, sem nú sje leyst úr álögum. En það er áreiðanlegt, að þó að hún yrði sett í hásætið aftur, mundi hún ekki sitja þar langvistum.

Inn í þetta mál er ruglað fullyrðingum um það, að latínuskólinn sje orðinn að barnaskóla og yngri stúdentar sjeu yfirleitt illa að sjer. Kemur hjer fram þetta vanalega, að eldri mennirnir eru óánægðir með yngri kynslóðina. Það er satt, að nemendur koma í skólann yngri að aldri nú en áður, og mætti kanske frá því sjónarmiði kalla neðri deildirnar barnaskóla. En þetta mundi ekki breytast, þó að latínan yrði sett inn aftur. Munurinn mundi verða sá, að aðgangur yrði greiðastur nemendum úr Reykjavík og frá efnaheimilum út um land. Það þarf engar sjerstakar gáfur til þess að læra undirstöðuatriði latínu, aðeins kennara til þess að troða í nemandann, en sú aukakensla kostar peninga. Jeg tel ekki æskilegt, að þessu sje kipt í gamla farið, enda væri það ekki hægt, hvernig sem breytt væri um námsgreinar. Alveg sama kvörtunin og nú heyrðist hjer um aldamótin. Þá voru nemendur farnir að koma heldur yngri í skólann en tíðkast hafði, og það var kvartað yfir því, að þeir væru óþroskaðir. Einmitt þá, þegar nemendur fóru að koma yngri í skólann og kvartanirnar urðu háværari, var gripið til þess ráðs að minka latínunámið, til þess að bæta úr þroskaleysinu og ljetta ófrjóu námi af nemendunum. Nú á að leiða hana inn í helgidóminn aftur, til þess að bæta úr því, sem henni var áður um kent.

Hafi það skipulag, sem nú er, reynst illa, þá er það þeim mönnum að kenna, sem með það hafa farið. Það er sagt, að rektor sá, er útskrifaði síðustu stúdentana eftir gömlu reglugerðinni, hafi þá látið svo um mælt, að þetta væri í síðasta skifti, sem hann útskrifaði lærða stúdenta. Þessi rektor var gamall maður og lærður, en ekki heppilegur til þess að innleiða nýja reglugerð, og jeg álít óheppilegt, að ekki skyldi þá vera í rektorsstöðu yngri maður og hæfari til þess að innleiða þennan nýja sið. Hafi þetta fyrirkomulag heppnast illa, þá er þeim um að kenna, sem fyrir framkvæmdinni hafa staðið. En það er ekki mín skoðun, að það hafi reynst illa. Það má þó kanske bæta um það, t. d. með því að gera lærdómsdeildina að 4 ára skóla. Jeg býst við, að ekki yrði staðið á móti því. Í Sviss eru fyrst skólar fyrir börn 8–12 ára. Síðan taka við unglingaskólar til 15 ára aldurs. Þá er tekin ákvörðun um stöðu. Þar fyrir ofan koma svo allir sjerskólarnir, búnaðarskólar, iðnskólar, verslunarskólar o. s. frv. En svo er ein grein, sem býr undir háskólanámið, „gymnasiið“, og er þar lögð áhersla á latínu eða stærðfræði. Stúdentar útskrifast svo venjulega um 19 ára. Þetta fyrirkomulag hefir reynst vel og mundi líka eiga vel við hjer.

Jeg skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum. En það er auðfundið, að bak við þessar auknu kröfur um latínunám stendur þetta gamla viðkvæði, að öðruvísi var þetta í mínu ungdæmi — og heimur versnandi fer. Mönnum finst sín æska ágæt, og gera svo þær kröfur, að aðrir sjeu aldir upp eins og þeir. Það er auðvitað fallegt að unna endurminningum sínum frá æskuárunum, en það er hvorki sanngjarnt nje farsælt, að setja alla í þá spennitreyju, sem þá var við tímanna hæfi.