15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

33. mál, lærði skólinn

Magnús Jónsson:

Jeg skal ekki lengja umr. mikið. Þær eru þegar orðnar nokkuð langar, enda er ekki að furða, þó að það taki eina dagstund eða svo, að ræða þetta mikilsverða mál, sem jeg hygg, að stórfeldari afleiðingar geti haft fyrir þjóðina en flest önnur mál, sem fyrir þessu þingi liggja.

Jeg hafði um tíma töluverða von um, að þingið, sem oft hefir sætt ámælum fyrir vinnubrögð sín, mundi hafa sóma af þessu máli, en nú virðist mjer sem ýmsir vilji fara að rifa seglin svo mjög, að vonlaust verði, að skipinu skili til hafnar í tæka tíð. Bæði hv. þm. Ak. (BL) og hv. þm. Barð. (HK) störfuðu nokkuð að þessu, og þótti enginn vegur að afgera málið. Það væri ekki nægilega undirbúið. Hv. þm. Str. (TrÞ) taldi margt, sem ekki væri búið að reikna út af afleiðingum þessa máls, og nú eru ljón á veginum alstaðar. En eins og ýms mál hafa verið afgreidd hjer á þingi, þykir mjer undarlega við bregða, ef þetta mál er illa undirbúið. Það er nú búið að vera hjer síðan jeg sat fyrst á þingi. 2 árum áður hafði stjórnin skipað nefnd til að undirbúa málið, og sú nefnd skilaði málinu greiðlega til stjórnarinnar, svo að hún gat undirbúið það af sinni hálfu. Síðan hefir það verið rætt í blöðum og á fundum. Það er engin von um, að málið verði neitt ljósara, þó að því verði vísað til stjórnarinnar. Hvers vænta menn eiginlega? Vænta þeir þess, að ný nefnd verði skipuð í málið, sem komist að annari niðurstöðu? Nei, menn vilja bara vera lausir við málið enn einu sinni. (HK: Kostnaðurinn!) Jeg hefi engan aukakostnað heyrt nefndan, nema heimavistarkostnaðinn. Það eru öll ósköpin. En brtt., sem fer fram á heimavistir, er þannig útbúin, að ekki þarf að gera neitt í því máli fyr en 1928, en húsaleigustyrkur er tekinn upp í millitíð. Og allur þessi kostnaður þarf að koma hvort sem er. Að vísu eru hjer nokkrir menn að norðan, en þeim er ekki meiri vorkunn en öllum öðrum utan af landi, sem þurfa að stunda nám sitt hjer. Nei, það á að samþykkja frv. og þessa brtt. Þá er ekki hægt að komast hjá því, að rannsaka kostnaðarhliðina upp á víst. En sje eitthvert yfirlit gert nú, þykjast menn ekki geta bygt neitt frekar á því. þingið hefir gert annað eins og það, að snúa aftur, ef því ofbýður kostnaðurinn. Jeg er alveg sannfærður um, að hvort sem nokkuð er samþykt nú eða ekki, verður nauðsynlegt að greiða utanbæjarnemendum húsaleigustyrk. En þegar hann er kominn á, má byggingin vera dýr, til þess að ekki borgi sig betur að reisa heimavistarskála við skólann, og fá um leið þá tryggingu og það aukna skólalíf, sem af því mundi leiða. Það er oft svo, að þegar gamlir menn sjá eftir einhverju, sem tíðkaðist í þeirra ungdæmi, en tíðkast nú ekki lengur, halda þeir ungu, að það sje einhver vitleysa og tómur hugarburður úr gömlu mönnunum. En engum blandast hugur um, að heimavistirnar hafi verið miklu betra og skemtilegra fyrirkomulag en nú er, og einmitt það, sem verið er að kyrja Akureyrarskólanum til lofs, eru heimavistirnar.

Mjer skildist á hv. þm. Str. (TrÞ), að hann vildi ekki samþykkja neitt í þessu máli, fyr en komin væri löggjöf um alt skólakerfi landsins og menn vissu upp á hár, hvernig alt ætti að vera. Það er eins og það sje einhver von um það hjá andstæðingum málsins, að þetta sje einhver alda, sem rís í svip, og svo lægi óveðrið aftur og þeir sitji eftir með sinn skifta skóla.

Hv. 2. þm. Eyf. (BSt) spurði, hvað yrði um Akureyrarskólann. þeir, sem reynt hafa að svara þeirri spurningu, hafa gert það hikandi, en jeg verð að segja, að jeg sje ekki annað en að skólinn geti haldið áfram eins og áður. Þar munu menn ljúka sínu prófi, þótt það próf veiti þeim ekki rjett til að ganga í lærdómsdeildina hjer. Það var sagt við mig í brjefi nýlega, að ef þetta yrði samþykt, mundi Akureyrarskólinn standa tómur. En hvar er þá öll dýrð hans og vegsemd, ef hann getur ómögulega staðist, nema í sambandi við lærdómsdeild mentaskólans? Hann var vel sóttur, áður en samband komst á þar í milli. Þetta bendir á annan möguleika. Það getur hugsast, að ekki liði á löngu áður en farið er að heimta, að kennarar hafi gagnfræðamentun, áður en þeir fái sína sjermentun í kennaraskóla. Fyrir norðan, í nánd við Akureyri, er fjöldi bænda og annara manna, sem tekið hafa gagnfræðapróf, og er hart, ef kennarinn er kanske nærri því fáfróðasti maðurinn í bygðarlaginu. Verði þetta, verða áreiðanlega full not af þessum skóla, þó að hann sje ekki ætlaður til að búa menn undir lærdómsdeildina hjer.

Menn geta nú gert það, sem þeir vilja í þessu máli, en skólinn verður áreiðanlega ekki lengi óbreyttur. Annaðhvort verður tekið þetta ráð, að gera skólann óskiftan, eða að lærða deildin verður lengd. Hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) mintist á fyrirkomulagið í Svíþjóð. Jeg er ekki eins fróður og hann í því efni, en mig minnir, að þar sje fyrst 3 ára gagnfræðadeild, og síðan 4 ára lærður skóli. Með þessu móti verður skólinn svo langur, að þar má koma mörgu að, sem koma má að í 6 ára skóla, óskiftum. En höfum við efni á að tefja fyrir námsmönnum okkar, þó að ekki sje nema eitt ár, svo að þeir geti ekki sem fyrst byrjað að undirbúa sig undir sitt starf, áður en þeir setjast svo í þessi feitu embætti? En mjer er nær að halda, að komist ekki á 6 ára óskiftur skóli, verði ekki langt að bíða, þangað til hitt kemur upp.

Jeg heyrði ekki vel, hvað hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) sagði um húsagerð í sambandi við líkingu mína um árið. En mjer heyrðist hann segja, að þar væri farið að eins og þegar kristall myndast og hvert lagið hleðst utan um annað. Nei, þannig byggir maður ekki hús. Menn byrja á því að leggja grunn, og ætíð er best að vita strax, hvað hátt maður ætlar að byggja. Það er alveg satt, að erfitt er að vita það. En hvar á maður að draga takmarkalínuna og segja: Nú er jeg ráðinn í því. Hv. þm. V.-Ísf. segir: við gagnfræðapróf. En sumir eru ekki ráðnir í, hvað þeir ætla að lesa, þegar þeir taka stúdentspróf, sumir taka heimspekispróf, og eru enn ekki ráðnir. Aðrir taka kandídatspróf, og sjá þá fyrst eftir öllu saman. Jeg veit ekki til, að nein óp hafi heyrst um, að erfitt hafi verið, meðan gamli latínuskólinn var, að ákveða, hvort þeir vildu í hann ganga eða ekki. Sumir hættu í 3. eða 4. bekk, og þóttu þá vel mentaðir menn. Og það er alveg víst, að ef maður hefir ætlað að byggja aðeins eina hæð, en ákveður svo að byggja 3–4 hæðir, þá verður maður að liða fyrir, að maður vissi það ekki strax. Marga, sem áður gengu í Möðruvallaskólann, langaði síðan til að halda áfram. Með eins árs undirbúningi gálu þeir svo sest í 3. bekk hjer (BSt: 2. bekk í hæsta lagi. — BJ: Við fórum þrír bræðurnir í 3. bekk.) En sá skóli bauð ekki eins góða mentun og Akureyrarskólinn gerir nú.

Hv. þm. V.-Ísf. vildi sýna fram á, að það væri enginn tvíverknaður, að menn læsu fyrst í 3 ár sögu og svo annað ágrip í önnur 3 ár. Um þetta er ekki til neins að deila. Hugsum oss 3 ára gagnfræðaskóla. Mundi það vera heppilegt, að læra hvert árið sitt ágripið af sögu? Nei, það á að velja söguna þannig, að hún endist sæmilega yfir alt tímabilið. Alveg eins er með náttúrufræði. Þegar menn halda áfram, hefðu þeir ekki þurft að vera búnir með nema 2 af þeim greinum náttúrufræðinnar, sem nú eru allar kendar. Það er því um tvíverknað að ræða í hjer um bil öllum greinum, nema tungumálunum. Að vísu getur góður kennari bætt nokkuð úr þessu, en þar fyrir er ekki sjálfsagt að hafa það svona.

Nei, þessi hv. þm. (ÁÁ) má aldrei heyra nefndan mun á lærðri mentun og gagnfræðamentun. Það má náttúrlega taka gagnfræðamentun í svo víðtækum skilningi, að öll mentun eigi að verða að gagni, en það er þó munur, hvort menn ætla að verða vísindamenn eða t. d. kaupmenn.

Sá maður, sem ætlar sjer í einhverja stöðu, honum er námið ekki nema grundvöllur undir eitthvað annað. En það er alt annað um þá menn, sem nema alment, þeim er námið bæði meðalið og tilgangurinn, og hjer er alls ekki um neinar kínverskar neglur að ræða; það eru hin sönnu gagnfræði, sem hjer er verið að tala um. Annars er það víða uppi nú, að mönnum er illa við latínukensluna, af því að hún kippi hóp manna út úr öllum fjöldanum. En nú verða allir að vera eins. Enginn má lengur ganga í litklæðum, allir vilja ganga í gráu, og alt lífið á að vera grátt, óháðtíðlegt og andstyggilegt. Sú stefna er uppi nú, og það er eðlilegt, að hún geri vart við sig í mentamálum eins og annarsstaðar. Það er eins og menn haldi, að hjer eigi að fara að skapa einhvern nýjan aðal; en það er ekki verið að fara fram á neitt slíkt hjer. En þótt svo væri, að til væru menn, sem gætu gamnað sjer við vísindin, þá sje jeg ekki, að með því væri neinn skaði skeður, því að svoleiðis hafa margir menn verið hjá okkur; þeir hafa grúskað í fróðleiknum fyrir fróðleiksins skuld, þótt þeim hafi ekki komið það að gagni, þannig, að þeir hafi efnast á því.

Þá sagði hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að þessi skóli yrði fyrir Reykvíkinga, eins og hann hefði altaf verið. Jeg er hissa á þeirri skoðun hv. þm. (ÁÁ); minn tilgangur er einmitt sá, að Reykvíkingar skuli ekki fljóta jafnsofandi inn í hann og þeir hafa gert. Jeg vil einmitt reyna þolrifin í mönnunum, með því að fá að sjá, til hvers þeir duga. En hvað það snertir, að ekki þurfi mikið til að læra latínu, þá get jeg sagt hv. þm. (ÁÁ) það, að margir menn hafa einmitt strandað á því, að þá vantaði gáfumar til þess að læra latínu, og margir fjellu, hæði við inntökupróf og síðar, af því að hún var þeim mest þrekraun, og margir helstu mentamenn þessa lands hafa sagt mjer, að þeir hafi ekki þroskast í skóla yfirleitt af neinu eins og einmitt latínunáminu. En annars skal jeg þegar taka það fram, að þetta er ekki fyrir mjer neitt sjerstakt atriði, og ef menn geta fundið eitthvert annað eins heppilegt þroskameðal, þá skal jeg ekki sjá eftir því, þó að henni verði slept, því að val hennar var ekki af gagnfræðaástæðum, og það er alveg satt, að hún var meira gagnfræðanám áður, því að þá var öldin önnur, þegar menn byrjuðu nám sitt á því að stafa og læra svolítið í latínu jafnframt því, og svo var andlaust latínu-strit í gegnum allan skólann. En það er ekki verið að fara fram á neitt þessu líkt, og það er af því, að sá „praktiski“ grundvöllur fyrir því, að þurfa að kunna latínu eins og sitt móðurmál, er fyrir löngu horfinn. En það er hverjum manni stórkostleg þrekraun að læra hana, og það mun fara svo nú, eins og áður, að margir menn fara svo úr skóla, að þeir hafa ekki lært hana vel. Þeir geta farið svo úr skóla, eftir sjö ára nám, að þeir skilji ekki latínu betur á bók en ensku, sem þeir hafa lært á miklu skemri tíma. það er einmitt aðaltilgangurinn, að láta þá glíma við þessa þraut, og það ekki síst vegna þess, að hún gerir líka minni kröfur til kenslu, af því að þrautin liggur í henni sjálfri, og það jafnvel svo, að með slökum kennara gerir hún mikið gott. Jeg vildi óska, að þetta þing bæri gæfu til þess að gera þennan skóla að góðum sex ára lærðum skóla, og það er alls ekki af ást á latínunni, af ást á Reykjavík, nje af hatri til Akureyrarskólans, að jeg óska þess, heldur af því, að þá er stórkostlegt þroskaspor stigið í okkar kenslumálum. Með góðum kennurum, heimavist, góðu skólalífi og nægilegu eftirliti með því, sem aðkomumönnum hjer getur orðið hættulegt, og ennfremur með því, að vistin verði þeim ekki of dýr, vildi jeg óska þess, að þetta þing gerði þessa breytingu á skólanum, því að það er áreiðanlegt, að það myndi ekki lastað af þeirri ástæðu. En hitt má náttúrlega athuga nánar, hvort menn vilja setja aðra aðalnámsgrein inn, ef mönnum finst latínan svo afskapleg grýla, að allir eru hræddir við hana.