15.04.1925
Neðri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

33. mál, lærði skólinn

Bjarni Jónsson:

Jeg ætla nú ekki að rekja þetta mál aftur, því að jeg hefi talað nægilega glögglega um það, enda hefir hv. 4. þm. Reykv. (MJ) rakið það nákvæmlega og hrakið gersamlega allar þær firrur, sem menn hafa komið með á móti því. Mjer þykir líka vænt um það, að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) muni gefa vandlega út þessa ræðu, og er það gott, því að þeir, sem líta á hana, munu, þegar þeir taka öskjuna utan af, finna háskólaskurnið yst, þá annað skurn, stúdentsskurnið, og innan í því ofboðlítið barnaskólaber og annað ekki, og sá, sem heyrir því haldið fram, að þing og stjórn geti ekkert gert til þess að greiða veg vísindanna, býst jeg við að þykist hafa heyrt nóg til þessa hv. þm. (ÁÁ) um kenslumál og þykist ekki þurfa að heyra meira, því að:

Gutta cavat lapidem non vi,

sed sæpe cadendo;

sic homo fit doctus non vi,

sed sæpe legendo.

Og það er ekki sama, hvað hann les og hvernig hann er látinn lesa. Svo sagði þessi hv. þm. (ÁÁ) það, sem jeg skildi sem ellibrigsl til mín, eða brigsl um það, að jeg væri orðinn gamall og hjeldi þessu fram vegna þess, að svo hefði það verið í mínu ungdæmi. En þetta kæmi vel á vondan, ef jeg hefði sagt, að hann væri eldri en jeg, en það gerði jeg ekki, og get jeg þó sjeð, að hann er í öllum skoðunum eldri en jeg, því að það er eins og maður heyri gamla konu rausa, þegar hv. þm. (ÁÁ) er að tala um þessi mál. Og mundi nú hv. þm. (ÁÁ) ekki nær að leita í spor mannsins, sem sagði, að það væri komið svo mikið hrafnsungamor af börnum, að ekki heyrðist mannsins mál. Það má líkja hv. þm. (ÁÁ) við fuglsunga, sem er að brjótast út úr skurninu, hann þykist þekkja alt og best vita, hvernig alt eigi að gera. það ætla jeg þessa nýju stefnu okkar ungu manna, sem halda, að þeir geti komist erfiðislaust að allri visku veraldar. Jeg man eftir því, að ungur maður var eitt sinn að heimska mig fyrir það, að jeg hafði vasaklútinn í barmi mjer, þegar jeg var kjólklæddur, en ekki í erminni, eins og hann gerði og síður var að verða hjá ungum mönnum í Reykjavík. En þetta var ekki bygt á neinu öðru en því, að ungir menn þykjast vita alt og alt eigi að byggjast á þeim. Jeg get vel skilið það, að hv. 2. þm. Rang. (KIJ) stóð upp og vjek sjer frá á meðan á ræðunni stóð, af því að hann hefir ekki þolað að heyra þetta.

Þá skildi hv. þm. Barð. (HK) það ekki, sem jeg sagði um kjósendur. Hv. þm. (HK) þóttist ekki skilja það, hvað jeg hefði verið að fara, þegar jeg var að tala um kjósendur í þessu sambandi. Eins og allir viti það ekki, að það er af hræðslu við kjósendur sína, sem hann ætlar að hverfa frá þessu máli, og þessvegna var jeg að reyna að gera hv. þm. (HK) það skiljanlegt, að hann þarf fremur að óttast kjósendur sína, ef hann hverfur frá því, sem rjett er í þessu máli.

Þá er næst hv. þm. Str. (TrÞ). Hann lagðist mjög djúpt og ætlaði að sanna, að jeg hefði tekið á mig ýmsar myndir, eins og galdramenn fyrrum. Já, það er í rauninni satt, að jeg gaf honum áðan vitnisburð í námsgrein, sem jeg ekki kendi honum; jeg kendi honum ekki grísku; jeg mundi ekki eftir því, fyr en rjett eftir að jeg hafði slept orðinu, að hann var ekki undir minni hendi í þeirri námsgrein. Hv. þm. (TrÞ) var þann vetur í ólátabekknum, sem allir vita, hversu hvasst var um um skeið. En hitt get jeg sagt, að hv. þm. (TrÞ) var góður námsmaður, og að jeg gaf honum oft góðan vitnisburð, þótt í öðrum námsgreinum væri en þeirri, sem jeg nefndi.

Svo er það fjárhagshliðin. Hv. þm. (TrÞ) sagði, að jeg hefði játað það við 2. umr., að þetta frv. hefði í för með sjer kostnað við gagnfræðaskóla í Reykjavík og á öllu landinu. Það sagði jeg aldrei, en það sagði jeg, sem mína skoðun, að slíkir gagnfræðaskólar ættu að vera, og það getur hv. þm. sjeð, að jeg hefi ekki ætlað að hverfa frá þeirri skoðun minni, því að jeg hefi borið fram brtt. við frv. hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ). En hitt sagði jeg aldrei, að þetta frv. gæti ekki gengið fram, án þess að hitt frv. gerði það. Það má vel byrja á því að laga háskólann og lærða skólann. Svo geta menn gert eftir því, sem andinn blæs þeim í brjóst, vanrækt alla kenslu í landinu eða komið henni í gott horf. En það er engin afleiðing af því, sem mitt frv. fer fram á, umbætur á lærða skólanum. Það eina, sem breytingin snertir, er Reykjavík, að því leyti sem hún kemur nokkrum börnum að ókeypis kenslu þar. En það stendur, sem jeg sagði fyr, að það verður aðeins til góðs, að þetta fyrirkomulag, sem nú er, verður lagt niður, því að þá er það von mín, að hún vakni og sjái, hvers hún þarfnast. Því að hún þarf að fá þann skóla, sem hv. þm. (TrÞ) vill setja í samband við þetta frv., en hann stendur í sambandi við þörf Reykjavíkur, en ekki við frv. En það er svo langt í frá, að þetta frv. sje Reykvíkingum til nokkurs skaða, því að þeir myndu aðeins ranka við sjer og sjá, að þeir ættu eftir að koma miklu nauðsynjamáli í framkvæmd, því, sem hv. þm. (TrÞ) vildi kalla afmentunarfrumvarp. Já, jeg sje, að mín orð ganga aftur frá síðasta þingi, og að nú á að fara að nota þau við mig. En þetta frv. er borið fram í því skyni að bæta mentun og auka hana, en hinsvegar hefi jeg lýst yfir því, í umr. hjer um frv. hv. þm. V. Ísf. (ÁÁ), að jeg væri fylgjandi því, að gagnfræðaskólar kæmust á um alt land, og að það hvíldi á ungu fólki skólaskylda til að sækja þá, svo að það er helsti langt sótt, að brigsla mjer um afmentun. En jeg vil ekki vera afmentunarmaður með því að hræra öllu saman fyrir fólki.

Þá vildi hv. þm. (TrÞ) ennþá segja, að jeg hefði svarað sjer litlu um kostnaðarhliðina, og vil jeg þá strax segja hv. þm. (TrÞ) það, að þetta eru alt saman draumar, sem hann sagði um Akureyrar-, Reykjavíkur- og Flensborgarskólann, nema að því leyti, að ef ekki verður breytt til, þá kemur fram sterk krafa um það, að stækka skólann hjer vegna Reykjavíkur, og verður það afarmikill kostnaður.

Þá fór hv. þm. (TrÞ) að reikna, og fjekk út 24000 kr., sem það ætti að kosta að veita 50 piltum húsaleigustyrk í 9 mánuði á ári, en hvernig hv. þm. (TrÞ) kemur í hug að reikna hverjum manni 60 kr. á mánuði, þykir mjer undrum sæta. Í húsi mínu eru tvö herbergi; þau hefi jeg leigt með ljósi og hita fyrir 40 kr. um mánuðinn. Þar bjuggu tveir stúdentar í fyrra og hefi jeg ekki orðið þess var, að þeir hafi í neinu kvartað yfir leigunni; en nú skal jeg gera hv. þm. það tillæti, að reikna 25 kr. í húsaleigustyrk á mánuði, það verður þá 11250 kr. á ári. Svona fór þá um það skrímsl, sem hv. þm. (TrÞ) bjó til. Svo hafði hann orð eftir hv. þm. Barð. (HK), sem mjer þóttu dálítið einkennileg. Jeg sagði, að það myndu sparast 12 kennarar, en það vita allir, að þar eru ekki 12 fastir kennarar, heldur mikið af tímakennurum, en það verður 12 kennara starf, sem menn losna við að greiða tímakaup fyrir. Og svo er hjer ekki um neitt þingloforð að tala. En það væri miklu nær að halda loforð, þar sem þau eru gefin, heldur en brigsla mjer um slíkt, þar sem þau hafa aldrei verið gefin. En um það, hvað hafi átt að liggja á bak við hjá mjer, þá vil jeg spyrja, af hverju hv. þm. (TrÞ) spyr um það. Er það siður hv. þm. (TrÞ) að bera fram mál, til þess að vingast við menn? En það er ekki minn siður. Jeg er vanur að láta það alveg lönd og leið, hvort betur líkar eða ver, en halda fram minni skoðun. En hv. þm. (TrÞ) getur sjeð, að þetta er alveg rjett, sem jeg hefi svarað honum, svo að hv. þm. þarf ekki að bregða mjer um neitt ofkvæni fyrir það. En jeg mætti kanske biðja hv. þm. (TrÞ) að hafa í huga þetta íhalds-orðtæki sitt, festina lente, og gleðja sig hægt.

Annars sje jeg tvo stóra flokka hjer fyrir mjer, sem ráða öllu hjer í þinginu, og er það mjög broslegt að horfa á viðureign þeirra, en hún er sú, að minni flokkurinn hefir í nær hverju máli þingsigur, vegna þess að stærri flokkurinn er ekki svo fylgispakur við sína stjórn, að dugi til þess að meina minni flokknum að hafa hvern þingsigurinn á fætur öðrum, og það er áreiðanlegt, að hv. þm. (TrÞ) hefir sína mótstöðu bygða á þeirri sigurvon, sem honum er í Jónasar-Íhaldinu; en það er þessi von, og svo þessi mikla og stóra stjórnarveltu-von, sem nú er yfir honum. (TrÞ: Hún er sjerstaklega bundin við annað.) Já, en jeg veit ekki, hvort það bregst hv. þm. (TrÞ), eða hefir hann þar ofkvæni?