14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

96. mál, hvalveiðar

Tryggvi þórhallsson:

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um aðalefni þessa frv. En það felur í sjer atriði, sem jeg verð að vekja athygli hv. nefndar á. Í núgildandi lögum eru skíðishvalir friðaðir, með þeirri undantekning, að hrefna hefir verið veidd. Og bæði á Eyjafirði, við Ísafjarðardjúp og Steingrímsfjörð hafa hrefnuveiðar verið stundaðar undanfarið, og oft með góðum árangri. En ef þetta frv. verður samþykt óbreytt, verur bannað að veiða hrefnur nema að fengnu sjerleyfi, og afleiðingin því sú, að þessir menn verða sviftir atvinnu sinni, því að þar sem þessi veiði er ekki nein uppgrip og fáir menn á hverjum báti, þá hygg jeg, að þeir fari ekki að kaupa sjerleyfi fyrir 500 krónur. Jeg vil beina því til flm., hvort ekki megi undanskilja hrefnuna, því að um þann hval gildir alt annað en um aðra hvali. Og jeg tel hart að gengið, ef nú á að svifta menn þessum atvinnuvegi. Mun jeg greiða atkv. gegn frv., nema þessi breyting fáist á því.