14.03.1925
Neðri deild: 33. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

96. mál, hvalveiðar

Sveinn Ólafsson:

Þótt jeg sje meðflutningsmaður að þessu frv., þá er jeg ekki viðbúinn að hafa framsögu í málinu. En mjer finst jeg verði að hlaupa í skörðin fyrir háttv. 1. flm. (ÁÁ), sem er fjarverandi. Hv. þm. Str. var í vafa um tilgang flm. Hann var að tala um það, hvað fyrir flm. vekti um það, að banna hrefnuveiðarnar. Jeg get þegar svarað því fyrir mitt leyti, að jeg tel þessa hvaltegund eiga að vera alfriðaða. Ástæðan fyrir því er sú, að þessi hvalur er fiskimönnum þarfur og styggir oft síld í net í vogum og fjörðum, þar sem hún ella liggur í kyrð. Í mörgum verstöðvum hafa reyndir menn fullyrt þetta við mig, og sjálfur hefi jeg oft haft tækifæri til að sjá þetta. Síðan veiði reyðarhvala lagðist niður hjer við land, hefir oft verið hentugt tækifæri til að athuga þetta, af því að varla hafa sjest hjer aðrar tegundir skíðishvala. Austanlands hefir því oftlega verið hreyft af sjómönnum, að banna þyrfti veiði þessa hvals, og man jeg eftir 2 fundum, þar sem samþ. hafa verið till. í þá átt.

Aðaltilgangur þessa frv. er samt auðvitað ekki sá, að friða hrefnuna, heldur að gera það mögulegt, með hæfilegum takmörkunum, að veiða hval hjer við land og gera veiðina landsmönnum og ríkissjóði arðberandi. Það er sem sje löngu augljóst orðið, að hvalafriðunin hjer næstl. 11–12 ár hefir aðeins verið vatn á mylnu færeyskra hvalveiðamanna og annara, sem stundað hafa hvalveiðar hjer norðurfrá, en hefir jafnframt svift Ísland og Íslendinga öllum þeim hlunnindum, sem hafa má af hvalveiði. Friðunin leiðir alls eigi til þess, svo sem margir ætla, að vernda kynstofn hvalanna frá eyðingu eða fjölga þeim, meðan veitt er á norðurslóðum af ýmsum öðrum, heldur er hún eingöngu til hagsmuna útlendum hvalveiðamönnum og tryggir þeim veiðina betur og lengur en nokkuð annað. Þessi veiðidýr æxlast mjög seint og hljóta því að ganga til þurðar innan tíðar, eða verða svo fágæt, að veiðin borgar sig ekki.

Þess er rjett að geta hjer, að í Noregi er samskonar hreyfing vakin um hvalveiðaleyfi, en þar hefir veiðibann staðið um mörg ár. Nú er þar ákveðið að heimila hagnýting og veiði hvala á ýmsum svæðum strandarinnar, eftir sjerleyfi og með ákveðnum takmörkunum.

Fleira finn jeg ekki ástæðu til að taka fram, en óska þess, að frv. verði vísað til sjávarútvegsnefndar, að lokinni þessari umr., enda eigi ólíklegt, að fram komi þar einhverjar breytingar á því.