01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (2552)

96. mál, hvalveiðar

Frsm. meirihl. (Ásgeir Ásgeirsson):

Meirihl. sjútvn. leggur til, að frv. verði samþ. með smábreytingum. Fyrsta breytingin er sú, að hrefnur skuli vera undanskildar friðun. Reyndin hefir orðið sú um undanfarin ár, að hún er ófriðuð, þótt lögum samkvæmt sje hún friðuð. Og tæplega verður það talið nokkurt tjón, þó að lagabókstafur þessi falli úr gildi.

2. brtt. við 2. gr. er um það, að veita megi sjerleyfi þeim Íslenskum ríkisborgurum einum, sem búsettir eru hjer á landi.

Í 4. gr. eru ákvæði um skaðabótaskyldu, sem teljast verður óþörf, því að hún hvílir á allri útgerð, enda er ekki sanngjarnt, að útgerð beri stærri ábyrgð á tjóni en sem nemur verði þess skips, sem tjóninu veldur.