01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í C-deild Alþingistíðinda. (2562)

96. mál, hvalveiðar

Jón Auðunn Jónsson:

Það má segja, að þær eru lífseigar, þessar erfikenningar, og það jafnvel þótt þær sje á engum rökum bygðar, og ekki síst í þessu máli. Það er kunnugt, að hvalafriðunarlögin voru samþykt yfirleitt af því, að sjómenn höfðu þá skoðun, að ef hvalirnir væri drepnir svo, að þeir kæmi ekki inn á fjörðu og flóa, kæmi engin síld. En reynslan hefir sýnt, að á þessum árum hefir síldveiðin verið meiri en nokkru sinni áður. Sama er að segja um hrefnuna. Nú á það að vera hún, sem orsakar það, að síldin gengur inn á fjörðu; hún næst ekki, ef hrefnan er drepin. En jeg held nú, að menn þurfi ekki að vera hræddir um það, að hrefnunni verði gereytt, þó leyft verði að drepa hana áfram, því að þeir, sem stunda sjó við Ísafjarðardjúp, segja, að þar sjeu fleiri hundruð hrefnur á hverju vori, og mönnum, sem hafa fengist við hrefnuveiðar, dettur ekki í hug að reyna að ná í hrefnur, sem hafa verið þar ár eftir ár, því að þær eru svo varar um sig, að ekki er hugsandi til að komast í sæmilegt skotfæri við þær. Og mig skal ekki furða á því, þó að hrefnuveiðin hafi ekki tekist á Eyjafirði, því að allir hvalir, sem lengi eru inni á fjörðum, eru mjög varir um sig. En að það eigi að friða hrefnuna vegna þess, að það hafi mistekist á Eyjafirði að drepa hana, nær ekki nokkurri átt, af þeirri einföldu ástæðu, að óvanir menn, sem fást við veiðar, tapa altaf á því. Danskir menn, sem hingað koma til þess að stunda hjer veiðar, tapa oft stórfje. En þetta er ekki nema eðlilegt, af því að þeir kunna ekki veiðiaðferðina. Að hrefnan styggi síldina, svo að hún gangi upp í víkur og voga, er ósannað. Menn halda þetta sama um hvalina, og eitt árið eftir að hvalirnir hurfu úr Ísafjarðardjúpi brá svo við, að þá var síldarleysisár, en aftur árin 1916 og 1918 voru geysimikil síldveiðiár. Og nú sjá það allir menn, að það er ekki af því, að hvalir gangi að landinu, að síldin veiðist; hún fer, eins og allar aðrar slíkar skepnur, eftir hitanum og ætinu í sjónum.

Við höfum því á stríðsárunum skaðað okkur um mörg hundruð þúsund krónur, því að ef hvalaveiði hefði þá verið leyfð, þá hefði margur maður fengið holla og góða fæðu fyrir mjög lítið, og hvölunum hefði ekki fækkað meir, því hvalveiðastöðvarnar á Færeyjum sækja mest af veiði sinni til Íslands, eða í kringum suðaustur- og suðvesturlandið. En hvað drápsaðferðina snertir, þá skal jeg fúslega viðurkenna, að hún er mjög hörð. Við sáum það oft á Ísafjarðardjúpi, að hvalveiðamennirnir voru marga tíma að vinna á hvalnum, því þeir draga bátinn oft fleiri tíma. En ef veiða á þessi dýr, þá er ekki hægt að veiða þau á nokkurn annan hátt, nema sprengikúlur sjeu viðhafðar. En í sambandi við síldveiðina, þá hygg jeg, að þeir, sem stunda síldveiði, hafi oft orðið varir við það, að hrefnan styggi síldina eins oft úr fjörðunum, eins og inn í þá, og það er enginn vafi á því, að það er rjett, sem hv. þm. V.-Ísf. (AA) sagði, að Norðmenn hjeldu fram, að síldin væri spakari og veiðin tryggari og jafnari síðan hvölunum fækkaði.