01.04.1925
Neðri deild: 48. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í C-deild Alþingistíðinda. (2563)

96. mál, hvalveiðar

Jón Baldvinsson:

Það er um þá till. mína að segja, sem jeg skaut fram, að ríkið ætti að taka þetta í sinar hendur, að jeg hjelt henni ekki fast fram, af því að jeg bjóst við, að reksturinn mundi ekki verða í stórum stíl, og því lítill ávinningur við það. En ef ríkið tæki þetta að sjer, myndi það naumast verða rekið víðar en á einum stað. En hitt er ótakmarkað, hvað má veita mörg sjerleyfi; og þá gæti svo farið, að svo margir rjeðust í þennan atvinnurekstur, að lítill ágóði kæmi í hvern hlut, og þá færi líklega svo, að þessi atvinnugrein legðist bráðlega niður aftur.

Það er rjett hjá hv. frsm. (ÁÁ), að það verða mörg fleiri gjöld en þessar 500 kr., sem renna í ríkissjóð. En jeg held samt, að það verði ekki mikið, og þykir mjer því líklegt, að ríkið hafi ekki mikinn hagnað af því, þótt þessi lög verði samþykt. Hinsvegar er það sennilegt, að þó að þetta eigi að binda við íslenska ríkisborgara eina, þá verði þeir ekki margir hjer á landi, sem vilja leggja í það að kaupa tæki til hvalveiða, svo að jeg býst við, að það yrði þannig, að Norðmenn kæmi inn, einhvern veginn grímuklæddir, heldur en að Íslendingar færi að kaupa þessi dýru skip og byggja hvalveiðastöðvar.

Annars benti jeg á það sama í nefndinni sem hæstv. atvrh. (MG) talaði um, að ákvæðið um, að sjerleyfi geti íslenskir ríkisborgarar einir fengið, rekist á sambandslögin. En mjer fanst þá, að hv. nefndarmenn liti svo á sem þetta gæti ekki komið til mála, þó að þeir vilji nú taka það til greina. Mjer virðist enginn efi á því, að þetta muni koma í bág við sambandslögin.