03.04.1925
Neðri deild: 50. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (2570)

96. mál, hvalveiðar

Tryggvi Þórhallsson:

Það mun að vísu vera svo, að nefnd sje heimilt að koma fram með slíka brtt. og þessi er, á þskj. 281, og sje lögð fyrir fundinn örfáum mínútum áður en atkvgr. fer fram. Í því skjóli hefir hv. sjútvn. gert þetta nú. En þetta er mjög óheppilegt, ekki síst, þegar um slíkt mál er að ræða sem þetta, og þm. hafa engan tíma til að átta sig á því. Jeg skammast mín ekki fyrir að játa, að jeg hefi ekki fullkomna þekkingu á þessu máli, en hefi haldið fram skoðun atvinnurekenda í mínu kjördæmi. Það var ósk nefndarinnar við 2. umr. málsins, að undanskilja hrefnur, en nú er komin fram ný brtt. um að banna hrefnuveiðar sumstaðar. Jeg get tekið undir með hæstv. atvrh. (MG) um það, að óviðkunnan legt sje að hafa tvennskonar lög um þetta í landinu. Jeg býst við, að fyrir þá menn, sem mjer er skylt að vera á verði fyrir, hafi þetta ekki slæmar afleiðingar, en engu að síður vil jeg taka það fram, að slík vinnubrögð sem þessi eru ekki samkvæm anda þingskapanna, þótt þau kunni að koma heim við bókstafinn.