20.04.1925
Efri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (2576)

96. mál, hvalveiðar

Frsm. meirihl. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. er komið frá Nd., eins og það er á þskj. 287. Sjútvn. Ed. gat eigi orðið sammála um þær till., sem gera ætti.

Eins og nál. meirihl., á þskj. 346, ber með sjer, sá meirihl. sjútvn. ekki ástæðu til að leggja á móti frv., af ýmsum ástæðum, sem að vísu eru ekki greindar í nál., en jeg mun víkja hjer að með nokkrum orðum.

Það, sem fyrst vakti athygli nefndarinnar, var það, hve greiðlega frv. hafði gengið gegnum hv. Nd. Frv. hafði litlum eða engum andmælum sætt þar. Þau andmæli, sem fram komu, beindust alls ekki gegn frv. í sjálfu sjer, heldur gengu þau út á það, hvort veiðar þessar væru reknar af ríkinu eða einstaklingum. En slíkt er algert aukaatriði í sambandi við þetta frv.

Nefndinni þótti því íhuguharvert, að leggjast á móti frv., er hafði svo eindreginn byr í N(L það mun hafa verið samþ. þar með 18: 1 atkv. Það þurfti því sterk rök til að tefja framgang málsins að þessu athuguðu.

Eins og allir vita, er þetta mál eigi fram komið fyrir neina tilviljun, heldur vegna þess, að hjerlendir menn hafa áformað að sækja um sjerleyfi til hvalveiða, ef frv. verður að lögum. Það er svo um hvalveiðar, að þær munu hvergi fara fram með eftirliti hins opinbera. Það er því í fullu samræmi við löggjöf allra annara þjóða, að svo sje og hjer. Hvervetna tíðkast, að sjerstakt leyfi þurfi til að reka veiðar þessar og að gjald verði að greiða fyrir leyfið.

Sú hugsun, sem einkum liggur til grundvallar fyrir hvalafriðunarlögum, er sú, að hvalir greiði fyrir fiskigöngum, en dráp þeirra hafi gagnstæð áhrif. Þessu hefir verið fylgt fast fram sumstaðar hjer á landi. En á síðustu árum hafa fiskifræðingar, er rannsakað hafa fiskigöngur vísindalega, komist að þeirri niðurstöðu, að kenning þessi hafi eigi við rök að styðjast. Sjútvn. þótti tryggilegast að ná tali af vorum eina fiskifræðingi, Bjarna Sæmundssyni, áður en hún tæki frekari ákvarðanir, og kom hann á fund hjá nefndinni.

Hann sagðist þegar hafa látið þá skoðun uppi fyrir tuttugu árum, að hvalir hefðu engin gagngerð áhrif á fiskigöngurnar, og þeirri skoðun kvaðst hann fylgja enn. Fiskigöngur kvað hann einkum fara eftir átu í sjó, en átan færi hinsvegar eftir hitastigi og straumum. Þetta mun og vera álit helstu norskra fiskifræðinga.

Þá má og telja sitthvað, sem með því mælir frá almennu sjónarmiði, að ísl. ríkisborgurum sje leyft að drepa hval. Má þar fyrst telja atvinnu þá, er slíkar veiðar myndu hafa í för með sjer. Þá rynni og nokkurt sjerleyfisgald í ríkissjóð, fyrir hvalveiðaleyfi. Einnig myndi ríkissjóður fá útflutningsgjöld af þessari framleiðslu eins og annari. Þetta alt myndi geta orðið þjóðinni til verulegra hagsbóta. — Eitt er þó ótalið enn, sem einna mest hefir þó verið lagt upp úr í Noregi í þessu sambandi, og er það hvalkjötið. Ef farið væri að stunda þessar veiðar hjer, ætti almenningur kost á þessari hollu og ódýru fæðu, sem af sjerfræðingum er talin jafnast á við nautakjöt að næringargildi.

Þetta er þá það helsta, sem mælir með því að veita slík sjerleyfi. Þar sem sækja yrði um slík leyfi í hvert skifti, er vart nein hætta á, að þau verði veitt svo taumlaust, að hætta geti stafað af. Ráðueytið myndi jafnan hafa spurnir af hvalveiðastöðvunum og geta haft eftirlit með þeim. Þess má og geta, að í Noregi hefir verið hallast að þessari aðferð á síðustu árum, að í stað algerðs banns hafi ráðuneytið heimild til að veita sjerleyfi með sjerstökum skilyrðum og gegn ákveðnu gjaldi.

Það, sem einkum hefir verið fundið að slíku leyfi, er það, sem jeg gat um fyr, að hvalir bæti fyrir fiskigöngum. Þessi trú er þó í rjenun, bæði hjer og í Noregi.

Síðan frv. kom fram, hafa, eins og kunnugt er, borist áskoranir til þingsins með og móti frv. Vitanlega hafa þær lítið upplýst í málinu, og er sannast að segja erfitt að byggja á slíku. Það, sem hjer verður fyrst og fremst að treysta á, eru hinar vísindalegu rannsóknir. Eins og jeg hefi áður getið um, hefir nefndin aflað sjer álits eina vísindamannsins, sem til er í þessu efni á Íslandi. Þá hefir einnig verið leitað álits stjórnar Fiskifjelagsins, en svar hennar barst ekki í hendur nefndarinnar fyr en í dag, svo að ekki hefir unnist tími til þess að prenta það. Ætla jeg því, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr því nokkur orð. Þar segir, að„.... það sje yfirleitt álit fiski- og náttúrufræðinga, að hvalir hafi engin þau áhrif á göngu fiska, hvort sem er með ströndum fram, úti á rúmsjó eða inni á firði, er líklegt sje að geri til eða frá um aflabrögð, hvalirnir eru háðir sömu lögum og fiskarnir, þ. e. ástandi sjávarins og áhrifum hans á átuna, og verða að elta hana eins og síldin og ýmsir aðrir fiskar að sínu leyti, og sumir skíðishvalir eru beinlínis keppinautar þessara fiska um fæðu, og ræður það því að líkindum, að fækkun þessara hvala geti ekki talist hættuleg fiskiveiðum yfirleitt og síldveiðunum sjerstaklega, eins og líka reynsla vor um síðustu 40 ár ber ljósan vott um“

Ennfremur bætir stjórnin því við, að hún sjái ekki,

„að nein þau atriði sjeu í frv., er geti komið í bág við hag Íslenskra fiskimanna“.

Að þessu athuguðu sýnast ekki vera næg rök fyrir hendi til þess að leggjast á móti frv., sem verjandi sjeu gegn hv. Nd., sem samþ. hefir frv. með miklum atkvæðamun. Jeg veit, að minnihl. nefndarinnar er á annari skoðun, og skal jeg ekki segja meira um málið, fyr en hann hefir gert grein fyrir afstöðu sinni.