20.04.1925
Efri deild: 56. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (2577)

96. mál, hvalveiðar

Frsm. minnihl. (Ingvar Pálmason):

Það hefir farið með þetta frv. eins og stundum hefir komið fyrir áður í sjútvn., að ekki hafa allir getað orðið á einu máli.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er, eins og tekið hefir verið fram, komið frá Nd. Jeg ætla ekki að fara mikið út í frv. sjálft, heldur leitast við að athuga, hvort knýjandi ástæður eru fyrir hendi til þess að Alþingi, sem síðastliðinn vetur framlengdi hvalfriðunarlögin andmælalaust, taki nú sinnaskiftum. Jeg tel rjett að rifja dálítið upp sögu hvalfriðunarlaganna, þó að jeg sje ekki vel fróður um það efni. Sú stefna, að banna hvalveiðar, mun vera jafngömul hvalveiðunum sjálfum. Strax munu heyrst hafa raddir um, að banna þyrfti hvaladráp. Hvalveiðar hafa verið stundaðar síðan 1880 og fram að 1914, og mun einna mest hafa verið veitt um aldamótin. Altaf voru raddir uppi, sem mótmæltu mjög veiðinni, og það tókst ekki að þagga þær niður, þó að hagnaður væri talsverður af þessari veiði, bæði fyrir þá, sem ráku, og fleiri. Eftir að kom fram yfir 1906–7 tók baráttan mjög að harðna, og háværar raddir heyrðust um, að afnema bæri veiðina með lögum. Þessu lauk svo með hvalfriðunarlögunum 1913, sem síðasta þing samþykti að framlengja. Jeg býst við, að legið hafi til grundvallar fyrir þessari lagasetningu fyrst og fremst þær kröfur, sem komu frá þjóðinni, um að afnema veiðina, og svo kann að hafa haft nokkur áhrif, að hvölum var farið að fækka, og því talið rjett að gera tilraun með, hvort hægt væri að fjölga þeim með friðunarlögum. Jeg hefi að vísu ekki kynt mjer umræðurnar um þetta í þingtíðindunum, en jeg hygg, að þetta hafi verið aðalástæðurnar. Ef þetta er rjett, virðist ekki fjarri lagi að athuga, að hve miklu leyti náðst hefir sá tilgangur, að fjölga hvölunum. Það er erfitt að sanna nokkuð í því efni, en jeg þori að staðhæfa, að á Austfjörðum a. m. k. er það alment álit sjómanna, að hvölum hafi fjölgað til muna. Það er áreiðanlegt, að hvalganga við Austfirði hefir verið meiri 2 síðastliðin ár en næstu 10–12 ár á undan. Lögin hafa þá að þessu leyti náð tilgangi sínum.

Þá er hin ástæðan, álit sjómanna, að rjett væri, að hvalafriðun næði fram að ganga. Það er full ástæða til að athuga, hvort þessi aðstaða hefir breyst síðan 1913. Um þetta er ekki hægt að segja neitt með fullri vissu, því að engin gögn hafa legið fyrir, sem hægt væri að draga ályktanir af. En þess hefir ekki orðið vart, að komið hafi fram neinar raddir um, að afnema bæri friðunarlögin eða breyta þeim. Og á síðasta þingi voru lögin framlengd til 10 ára. Landsmenn virðast hafa látið sjer það vel líka og engin mótmæli borið fram. Á þessu þingi kemur svo frumvarp þetta, að öllum óvörum, bæði þingmönnum og kjósendum. Jeg fer ekki út í það, að leggja dóm á rök fyrir þeirri skoðun sjómanna, að hvalir hafi áhrif á fiski- og síldargöngur. Vísindin neita því, að svo sje, en á þeim má ekki of mikið byggja. Með allri virðingu fyrir vísindunum, þá er þess að gæta, að sú grein þeirra, sem að þessu lýtur, er mjög ung. Þá má einnig finna þess mörg dæmi í sögu vísindanna, að sumt það, sem þau eitt sinn telja sannað með óyggjandi rökum, reynist rangt síðar meir. Það liggur því nærri að segja, að hjá þeim sje eitt í dag og annað á morgun. Jeg ætla ekki að leggja neinn dóm á þetta atriði, en jeg lít svo á, að raddir almennings sjeu þungar á metunum í þessu efni, og jeg tel varhugavert, að Alþingi afgreiði svona lög að þjóðinni óafvitandi. Flm. frv. telja ekki ástæðu til þess fyrir okkur að friða hvalinn, til hagsmuna fyrir aðrar þjóðir. Með þessu er óbeinlínis viðurkent það, sem jeg hefi haldið fram, að hvölunum hafi fjölgað, því annars hefði ekki verið talað um, að friðunarlögin væri til hagsbóta fyrir aðrar þjóðir. Mjer vitanlega er engin slík hætta fyrir dyrum enn sem komið er. Næstu hvalveiðistöðvar munu vera í Færeyjum, og eins og þær eru reknar nú, mun engin hætta á því, að veiði verði sótt upp til Íslands. Til sönnunar því má benda á, að fyrst voru hvalveiðar reknar hjer fyrir Vesturlandi, en stöðvarnar síðan fluttar til Austurlands, þegar hvalur reyndist meiri þar. Þetta bendir á, að hvalveiðar muni ekki verða sóttar hingað frá stöðvum í Færeyjum. Komið gæti til mála, að aðrar þjóðir sæktu hingað til hvalveiða frá svonefndum flotstöðvum. Það munu hafa verið gerðar einhverjar slíkar tilraunir við Grænland, en ekki, svo að jeg viti, hjer við Ísland. Jeg sje því ekki, að knýjandi ástæður sjeu til þess að afgreiða þetta frv. nú.

Þá skal jeg minnast á fjárhagshliðina. Jeg ber að vísu ekki mikið skyn á, hvað kostar að setja upp hvalveiðistöð með 5 bátum, en óhætt mun að segja, að eftir mælikvarða okkar Íslendinga kosti það stórfje. Þar að auki er þessi veiði, eins og raunar öll önnur veiði, talsvert áhættusöm. Jeg vil benda á, að við eigum áreiðanlega völ á miklu arðvænlegri fyrirtækjum, sem við gætum lagt fje okkar i, ef við á annað borð höfum það handbært. Má t. d. benda á eitt, síldarbræðsluverksmiðjur, sem mundu gefa miklu meiri arð. Við höfum áreiðanlega nóg arðsöm verkefni til þess að setja fje okkar í. En varhugavert getur verið að láta slík fyrirtæki njóta mikilla ívilnana eða hagsmuna frá löggjöfinni, því þá er hætt við, að notað yrði útlent fje meira en góðu hófi gegnir. Jeg tel ekki rjett, og er viss um, að ekki vakir fyrir Alþingi, að gefa tilefni til að slík leið sje farin. Þingið hefir haft til meðferðar fleira en eitt lagafrumvarp, sem ganga í þá átt að stemma stigu fyrir því, sem kallað er „leppmenska“. En þeta frv. gæti leitt til slíks.

Jeg sje ekki ástæðu til þess að fara frekar út í þetta mál að sinni. Jeg álít ekki rjett að fara að „diskútera“ um það á þessu stigi málsins, við hve mikil rök það álit sjómannanna hefir að styðjast, að hvalir hafi áhrif á fiski- og síldargöngur. Það er víst, að hve mikil eða litil sem rökin eru, þá verður ekki þeirri sannfæringu útrýmt með lögum. Eins og jeg hefi áður tekið fram, verður að taka tillit til þess álits. Legg jeg því til, eins og nú standa sakir, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.

Jeg tel óhætt að segja, að þetta sje forsvaranlegasta afgreiðslan. Hitt, að lögleiða frv., án þess að gefa kjósendum minsta kost á að láta í ljós álit sitt, tel jeg nær því óforsvaranlegt. Jeg vil benda á, að á sínum tíma var þetta hitamál út um land, og jeg tel, að heldur ætti að forðast að koma af stað nýjum æsingum að ástæðulausu.

Jeg skal drepa á brjefið frá stjórn Fiskifjelagsins. Það verður að skoðast sem eigið álit stjórnarinnar, því að jeg veit ekki til þess, að hún hafi neitt umboð til þess að koma þannig fram fyrir fjelagsins hönd. Jeg veit ekki til þess, að málinu hafi verið hreyft neinstaðar á fundum út um land, og því verður þetta aðeins að skoðast sem álit stjórnar fjelagsins. Ef fjelagið alt stæði á bak við, væri meiri ástæða til þess að taka tillit til þessa álits.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar.