14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (2586)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem jeg þarf að segja, þar eð frv. lýsir sjer sjálft. Tilgangur þessa frv. er að koma í veg fyrir það, að gin- og klaufasýki í búfje geti borist hingað til lands frá útlöndum með heyi. Þessvegna er þetta frv. fram komið, og ekki að ástæðulausu, því að í ýmsum nágrannalöndum vorum, t. d. í Danmörku og Skotlandi, er þessi veiki allmögnuð, en við höfum ávalt kappkostað að sporna við því, að hún gæti borist hingað. Þannig skal jeg nefna, að t. d. á einu sjerstöku sviði höfum við beitt ströngum reglum gegn því, að þessi veiki gæti borist hingað. Í búnaðarþinginu hafa oft komið fram tilmæli um það, að leyfa að flytja hingað til lands kynbótahrúta frá Skotlandi, og er enginn vafi á, að þetta mundi verða sauðfjárræktinni til góðs og gefa mikinn arð, en dýralæknir hjer í bæ hefir ávalt haft á móti því, að þetta yrði leyft, og hefir því stjórnin aldrei þorað að veita undanþágu í þessu skyni, er svo mikil hætta gæti af þessu stafað, enda þó að svo ætti frá þessu að ganga, ef til hefði komið, að öll sýkingarhætta mátti heita útilokuð. En sama sýkingarhættan getur stafað af heyi, enda þótt mesta hættan stafi ávalt frá lifandi skepnum. Það bann, sem hjer er farið fram á að verði í lög leitt, tekur þó eigi til Noregs, því að þar er þessi veiki ennþá ekki til, og meðan svo er, má leyfa innflutning á heyi þaðan, ef með þarf. Nú er orðið svo áliðið þessa þings, að þess er varla að vænta, að þetta frv. nái að ganga í gegnum þingið og verða að lögum. En jeg vil þó koma þeim rekspöl á þetta mál, að það verði athugað nú á þessu þingi, svo því yrði greiðari gangan fram næsta ár, og legg jeg til, að frv. þessu verði vísað til landbn.