14.04.1925
Neðri deild: 55. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í C-deild Alþingistíðinda. (2589)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Flm. (Tryggvi Þórhallsson):

Það er aðeins fátt eitt, sem jeg þarf að taka fram, er jeg heyri, að allir hv. ræðumenn vilja láta athuga frv. í nefnd. Jeg heyrði á ræðu hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), að hann grunaði um tilgang okkar flm. frv., og var það ekki að ástæðulausu, því að bæði jeg og aðrir flm. þessa frv. vildum tolla erlent hey, en fengum því ekki framgengt, og var það mál felt fyrir okkur. En nú hefir þetta bæst við, að fullkunnugt er orðið, að hætta getur stafað af heyinnflutningi, og mætti því eigi minna vera en að það yrði þó látið eftir okkur, að athuga þetta mál í nefnd. Í frv. er alt vald í þessu efni lagt í hendur stjórnarinnar, og ætti hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), sem er stuðningsmaður hennar góður, ekki að hafa neitt við það að athuga, úr því að jeg treysti henni til þess.