02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í C-deild Alþingistíðinda. (2594)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Eins og sjá má á greinargerð fyrir þessu frv. á þskj. 293, og reyndar er áður kunnugt, þá eru næmir dýrasjúkdómar oft á ferð í nágrannalöndum okkar. Það er einnig kunnugt, að hjer á Íslandi hafa verið gerðar nokkrar varúðarráðstafanir til þess að verjast þeim. Flm. frv. hafa vakið athygli þingsins á þessari hættu og fara fram á að banna innflutning á heyi.

Aðalefni frv. er í 1. gr., sem fer fram á að banna heyflutning til landsins, þó með heimild fyrir stjórnina til undanþágu. Ákvæði greinarinnar eru nákvæmlega hin sömu og í lögum nr. 7, 17. mars 1882, um bann gegn innflutningi á kvikfje. Þó var nefndinni það ljóst, að hjer var ólíku saman að jafna, heyi og alidýrum.

Nefndinni virtist því sjálfsagt að leita álits dýralæknis um þetta mál. Og eins og sjá má af áliti nefndarinnar, kom hann á fund með nefndinni. Hann taldi útlent hey að vísu ekki vera með öllu hættulaust, en færði rök að því, að aðrir hlutir gætu einnig verið hættulegir. Gerði hann dálitla upptalningu slíkra hluta og áleit ekki rjett að samþ. 1. gr. frv. óbreytta. Hann áleit ekki rjett að setja með lögum ákveðið bann með undanþáguheimild, heldur setja heimildarlög til þess að banna innflutning, þegar sjerstök hætta var á ferð.

Skal jeg leyfa mjer að lesa hjer upp tillögur dýralæknis, þær er snerta breytingu á 1. gr. og hann telur þurfa.

„Landstjórninni skal heimilt, samkv. till. dýralæknis í Rvík, að banna innflutning á hráum sláturafurðum af dýrum, hverju nafni sem nefnast, mjólk, heyi, hálmi, alidýraáburði og brúkuðum pokum undir fóðurmjöl og fóðurblöndur, ásamt innihaldi pokanna, frá öllum löndum, þar sem smitandi alidýrasjúkdómar geisa, þeir er hætta getur verið á að flytist til landsins með nefndum hlutum.“

Hann ljet það sem sagt í ljós, að vart væri rjett að gera frv., eins og það er orðað, að lögum. Og ef nefndinni sýndist að leggja það til, að frv. yrði samþ., þá að gera þær breytingar á því, sem till. hans fer fram á.

Hann áleit innflutning á heyi ekki hættulegan eins og nú standa sakir, en heimildarlögin um bann gætu komið að miklu liði, ef hætta væri á ferð.

Nefndin er á sömu skoðun um þetta. Að hún tók ekki þann kost, að breyta frv. samkv. till. dýralæknis, orsakaðist af því, að hann taldi till. sína geta verið ófullkomna, sakir ónógs umhugsunarfrests. Hann vildi sameina eldri ákvæði við ný, ef út í þetta væri farið. Niðurstaða nefndarinnar varð því sú, að málið þurfi betri undirbúning, og leggur til að því sje vísað til hæstv. stjórnar, sbr. nál.

Jeg skal bæta því við, að nefndinni er þetta ekki kappsmál, og skal jeg láta ósagt um það, hvernig nefndarmenn greiða atkv., ef tillaga hennar verður ekki samþ.