02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í C-deild Alþingistíðinda. (2595)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Tryggvi Þórhallsson:

Ef mjer væri tamt að semja mig að siðum útlendinga, þá mundi jeg hafa komið í morgun með svart band um handlegginn, og annað til vara í vasanum, til þess að syrgja þess tvö börn mín, frumvörpin tvö, sem nú virðast eiga að sæta sömu örlögum. En hitt væri mjer nær skapi, að taka upp fornan sið, og skarta sem til víga. Og það skal nú ekki fara svo, að þetta frv. mitt verði drepið umræðulaust eins og hitt í gær, frumvarpið um bann gegn áfengisauglýsingum. Þau eru bæði þörf og góð og ranglega drepin. Það í gær var um það, að forða mannfólkinu frá hinum görótta drykk, sem er áfengi. Þetta er um það, að forða búnfjenaðinum frá einni hinni voðalegustu sýki, sem til er. Og jeg hefði mikla löngun til að fara allhörðum orðum um þá landbúnaðarnefnd, sem leggur á móti þessu frv. En jeg vona hinsvegar, þó að jeg deili á hv. frsm. (PÞ), að við getum setið meir of sáttir saman á eftir fyrir því.

Jeg álít afar óviturlegt að afgreiða málið á þann hátt, sem nefndin leggur til. Áður en jeg bar frv. fram, ráðfærði jeg mig við dýralækni, og hann sagði, að gin- og klaufasýki gæti stafað af innflutningi heys. Sama segir hann við nefndina. Eigi að síður vill hún eiga það á hættu, að þessi sýki vofi yfir landinu eitt árið enn, og ástæðan, sem færð er til, er sú, að hætta geti stafað af fleiru. Auðvitað getur hætta stafað af fleiru. En það er þó æðimikill munur á hættu af t. d. hálmi og mjólk. Við gefum að vísu ekki kúnum hálm og mjólk, en kýr eru oft fóðraðar í sömu húsum og aðrir gripir, er þetta útlenda hey fá. Og jeg efa ekki, að t. d. kúm hjer í bæ sje oft gefið þetta útlenda hey. Svo get jeg ekki viðurkent, að ekki megi byrgja hættulegasta brunninn strax. Nefndin hefði getað bætt því inn í, sem þurfa þótti, og ekki látið alla hættuna vofa yfir. Þessa hefði nefndin átt að gæta, og mig furðar á, að dýralæknir skuli taka svona í þetta mál, einkum ef litið er á framkomu hans í öðru máli.

Sú er saga til þess:

Þess hefir margoft verið leitað, að mega flytja inn skoska hrúta. Þetta er mjög gróðavænlegt, þó að jeg ekki hirði um að fjölyrða um það. Búnaðarþingið hefir tvívegis óskað þessa, og sjerfróður maður, Jón bóndi á Bessastöðum, ætlaði að gera tilraunina í Bessastaðanesi, þar sem alveg hefði mátt einangra fjeð.

Í hvorttveggja sinnið strandaði þetta mál á tillögum dýralæknis, og jeg hygg, eftir því sem jeg hefi síðar kynt mjer það mál, að það hafi verið viturlega ráðið, áhættan hafi verið of mikil.

Því kemur mjer það kynlega fyrir, að hann tekur svo dauflega í þetta mál, þar sem allir vita, hve mikil hætta vofir yfir. Jeg skil ekki, hvorki frá hans hálfu nje nefndarinnar, hversvegna ekki má byrgja hættulegasta brunninn í tíma.

Jeg get bætt því við, að þegar jeg flutti þetta frv., hafði jeg lesið í útlendu blaði, að giskað væri á, að klaufasýkin hefði borist til ákveðins hjeraðs í Danmörku með heyi. Síðan hefi jeg lesið í útlendum blöðum, að talið sje víst, að veikin hafi borist til þessa hjeraðs með heyi, og tjónið er orðið stórkostlegt. Því harðna jeg í sókn þessa máls, og jeg vildi óska, að þingið bannaði algerlega að flytja inn hey frá þeim löndum, sem þessi ógurlegi sjúkdómur ríkir í. Norðmenn hafa afskaplega stranga löggjöf um þetta. Liggur 10 þús. kr. sekt við brotum. Út frá þessu sætti jeg mig ekki við, að vísa málinu til stjórnarinnar, nema þá, að hún lýsi yfir og lofi því, að ekki verði flutt inn hey frá sýktum löndum. Jeg sje ekki, hvað er því til fyrirstöðu, að gengið sje formlega frá þessu nú. Jeg vil beina því til nefndarinnar, hvort hún vill ekki athuga þetta betur til 3. umr. Það er enginn vafi á, að hjer vofir yfir stórhætta.