02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í C-deild Alþingistíðinda. (2596)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Frsm. (Pétur Þórðarson):

Það er víst, að við hv. flm. og jeg, stöndum hjer dálítið ójafnt að vígi, því mjer hefir síst komið í hug að skreyta mig til víga. Nefndin getur ekki gert að því, hvað kann að hafa skolast til hjá dýralækninum í áliti hans á þessu máli, en henni fanst liggja beinast við að byggja einkum á áliti hans. Hann varð við beiðni nefndarinnar um að koma á fund hjá henni, og þá varð ekki vart neins tvíveðrungs um það, hvað hann vildi leggja til. Hann kom með skrifaða tillögu á fundinn, sem fór í þá átt, að ekki yrði lagt innflutningsbann á hey. Jeg get ekki betur sjeð en að álit dýralæknisins sje eina ábyggilega heimildin, sem nefndin gat farið eftir. Jeg ber auðvitað ekki brigður á, að hv. flm. (TrÞ) hafi leitað álits dýralæknis áður en hann flutti frv., og hann þá látið í ljós, að hætta gæti verið fyrir hendi. En hann var þó á því við nefndina, að ekki þyrfti að ákveða þetta svona eindregið. Jeg veit, að þýðingarlaust er að deila um þetta, og jeg gat um áðan, að nefndinni væri þetta ekkert kappsmál, heldur bygði algerlega á þessari heimild, sem hún taldi besta. Hv. deild verður að ráða fram úr, hvora leiðina skal velja. Jeg skal geta þess, að dýralæknirinn mun hafa minst á það í viðtali við nefndina, að hann væri reiðubúinn til þess að gefa stjórninni ráð um aðflutningsbann, ef einhver sjerstök hætta sýndist yfirvofandi, og mun hann þar hafa átt við, ef næmir sjúkdómar geysuðu í nágrannalöndunum. En tillögur hans bygðust á því, að eins og stæði væri ekki mikil hætta á ferðum. Nefndin getur auðvitað ekkert um það dæmt, hvort heyið er hættulegast af því, sem komið getur til greina, að einhver hætta stafi af. Vel má vera, að svo sje. Um það verður hver að hafa sitt álit. Annars þýðir ekki að orðlengja þetta. Hv. deild verður að skera úr, hvaða leið skuli farin í þessu máli.