02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (2598)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Magnús Torfason:

Eins og hv. deild kannast við, var jeg máli þessu fylgjandi og vildi, að það yrði afgreitt af þinginu af sömu ástæðum og hv. þm. Str. (TrÞ) tók fram. En þegar málið kom í nefnd, og eftir að nefndin hafði talað við dýralækni, þóttist jeg sjá, að engin tök yrðu á að koma málinu gegnum þetta þing. Þó að það kynni að komast gegnum þessa hv. deild, mundi það stranda í Ed. Jeg áleit því heppilegra fyrir málið, að því yrði vísað til stjórnarinnar, með þeirri áskorun, sem er í nál., að undirbúa lög um þetta fyrir næsta þing. En það kom fram í umr., að dýralæknirinn taldi engin vandkvæði á, að gefin yrðu út bráðabirgðalög strax og hætta væri á ferðum. Nú gengur munn- og klaufasýki í Danmörku, svo að líklega væri rjett að banna innflutning strax. Yfirleitt tók dýralæknirinn vel í að vinna að því, að brunnurinn yrði byrgður. Vegna þessara ummæla hans sá jeg ekki ástæðu til þess að gera ágreining í nefndinni.