02.05.1925
Neðri deild: 70. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (2599)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Jón Sigurðsson:

Jeg vildi benda á, að þessi ummæli dýralæknis, sem fram hafa verið tekin af hv. frsm. (PÞ) og hv. 1. þm. Arn. (MT), eru í raun og veru lítils virði. Hvernig getur dýralæknirinn sagt um, hvenær hætta er á ferðum. Jeg býst ekki við, að hann fylgist svo vel með innflutningi á heyi, að hann viti, hvaðan það kemur, hvort það kemur t. d. frá hjeruðum í Danmörku eða Skotlandi, þar sem sýkin geisar, eða frá heilbrigðum hjeruðum. Þetta er því alt sagt út í bláinn. Hættan er yfirvofandi og hefir verið það. Þó að við höfum sloppið að þessu, er ekki víst, að svo verði altaf. Annars hafði jeg gert mjer von um að þetta frv., þó ekki fyndi það náð fyrir augum nefndarinnar, yrði sett í viðunandi búning, svo að taka mætti það upp á næsta þingi. En þessu virðist nefndin hafa fallið frá. Það eru engar líkur til þess, að frv. verði að lögum á þessu þingi. En það ætti að vera óhætt að lofa því til 3. umr., ef þá væri hægt að breyta því í það horf, að sem flestir gætu felt sig við.