07.05.1925
Neðri deild: 74. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í C-deild Alþingistíðinda. (2604)

110. mál, aðflutningsbann á heyi

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Við 2. umr. þessa máls þóttist jeg hafa gert grein fyrir, hvað fyrir nefndinni vakti í þessu efni. En að öðru leyti var nefndinni ekki kappsmál, hvernig um málið færi, og tók því aftur till. sína við þá umræðu. En nú hefir hún, til samkomulags við hv. flm., komið sjer saman um að afgreiða málið með rökstuddri dagskrá. Leggur nefndin það til, að málið sje afgreitt til hæstv. stjórnar með svofeldri rökstuddri dagskrá:

Með skírskotun til heimildar í lögum nr. 8, 18. maí 1920, skorar deildin á stjórnina að banna — nema sjerstakt leyfi stjórnarinnar komi til í hvert sinn — innflutning heys og annars varnings, sem sýkingarhætta munn- og klaufsýki getur stafað af, og að undirbúa fyrir næsta þing, í samráði við dýralækna landsins, löggjöf til varnar slíkri hættu framvegis, og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Lög þau, sem hjer er vitnað til, eru stutt, og skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa 1. gr. þeirra, þar sem aðalefni þeirra er dregið fram:

„Ríkisstjórninni heimilast að banna flutning til landsins á brúkuðum fatnaði, líni og sængurfatnaði, dulum, brúkuðu vatti, hnökraull, pappírsafklippum, hári, húðum og öðrum þeim varningi, er stjórnin telur stafa sýkingarhættu af.“

Það er ljóst, að þessar vörur, sem sýkingarhætta getur stafað af, eru þær vörur, sem dýralæknir taldi upp fyrir nefndinni á dögunum, er hann átti tal við hana um frv. Það er því innan handar fyrir hæstv. stjórn, með þessari lagaheimild, að fyrirbyggja þá sýkingarhættu, sem hv. flm. frv. og aðrir eru hræddir við, sem ekki er óeðlilegt. Mun jeg svo ekki orðlengja meir um þetta að sinni.